Mundi lundi úr raunheimum

Ásrún Ester Magnúsdóttir er höfundur bókanna um hina orkumiklu stelpu Korku, sem kemur út í Ljósaseríu Bókabeitunnar. Fyrir jólin sendir Ásrún frá sér tvær bækur. Kvæðabókina Hvuttasveinar, með gamansömum kvæðum þar sem jólasveinarnir eru í hundagervi og bókina um Munda lunda, sem kemur út bæði á íslensku og í enskri þýðingu Ásrúnar sjálfrar. Myndhöfundur bókanna beggja er Iðunn Arna.

Blindi lundinn

Mundi lundi er enginn venjulegur teiknimyndafugl, því hann var til í raun og veru og bjó um tíma hjá Ásrúnu. Fyrir tveimur árum gekk vinkona Ásrúnar fram á slasaðan lunda við Sæbrautina og hringdi í Ásrúnu til að fá leiðbeiningar um næstu skref. „Ég trúði henni tæplega í fyrstu og fannst líklegra að hún hefði fundið slasaðan hettumáf eða tjald, enda hafði ég aldrei heyrt um lunda í Reykjavík,“ segir Ásrún. Raunin var þó sú að fuglinn var í raunveruleikanum lundi og lundinn sá hafði líklega lent utan í bíl og vankast. Síðar átti Ásrún eftir að komast að því að það er töluverð lundabyggð á eyjunum í Faxaflóa.

Ásrún tók lundann að sér og ætlunin var að sleppa honum lausum aftur þegar hann braggaðist. „En þegar hann fór að hressast kom fljótt í ljós að það var ekki allt með feldu. Hann gekk á veggi, átti erfitt með að finna matinn sinn.“ Það var nokkuð ljóst að Mundi lundi var blindur og hann fékk því endanlegt heimili hjá Ásrúnu, hundunum hennar tveimur, Flækju og Spotta, og kettinum Óliver.

Frægur í útlöndum

Mundi lundi varð frægur á samfélagsmiðlum eftir að Ásrún stofnaði aðgang í hans nafni á Facebook og Instagram. Mundi gamli dró að sér þúsundir fylgjendur um allan heim, sem létu sér mjög annt um hann. „Við vitum ekki hvort hann varð blindur eftir slysið, þó þykir mér líklegra að hann hafi lent í slysinu sökum blindunnar,“ segir Ásrún og veltir fyrir sér hvort aldurinn hafi verið farinn að færast yfir Munda gamla, þar sem hann dó rétt rúmu ári eftir að hann fékk heimili hjá henni. „Það var mjög leiðnlegt enda var hann alveg yndislegur fugl og einstaklega skemmtilegur karakter.“ Mundi naut þó síðustu ævidaganna til hins ítrasta. Hann bjó hjá Ásrúnu í vellystingum, borðaði rækjur og synti í heita potti.

Til að varðveita minningu Munda lunda skrifaði Ásrún sögur um ævintýri hans. „Hugmyndin að söguþræðinum spratt nefnilega upp þegar ég fór að ímynda mér hvað í ósköpunum Flækja og Spotti, Óliver og Mundi lundi gætu verið að bralla saman þegar enginn annar væri heima.“

Og þannig varð bókin um Munda lunda til. „Það myndast snemma mikill vinskapur á milli Spotta og Munda sem vilja fátt annað en að leika og ærslast saman. Flækju er hinsvegar mikið í mun að allt sé í röð og reglu, enda eiga hundar að bíða rólegir og góðir eftir að mannfólkið þeirra kemur heim. Þar að auki er alltaf hætt við að Óliver komi fyrir hornið og reyni að krækja klónum sínum í Munda ef þau gæta ekki að sér.“

Eins og áður sagði kemur bókin líka út á ensku. „Mér var nefnilega mikið í mun að koma bókinni líka út á ensku svo allir fylgjendur Munda lunda á samfélagsmiðlum gætu líka notið ævintýra hans.“

Á myndinni hér að ofan má sjá söguhetjur bókanna úr raunheimum. Frá vinstri til hægri: Kötturinn Óliver, Mundi lundi, hundarnir Flækja og Spotti.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...