Samofin saga tveggja kvenna

Penni: Rebekka Sif Stefánsdóttir

Aðalsteinn Svanur Sigfússon sá um kápuhönnun og umbrot.

Skyldulesning ljóðaunnenda hvert ár er klárlega ljóðabókin sem hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Yfirleitt eru þetta verk eftir upprennandi skáld sem munu láta á sér kveða á ritvellinum. Í ár varð fyrir valinu fyrsta ljóðabók Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur, Edda. Ljóðabókin kemur út hjá Sæmundi og er bókarkápan einstaklega falleg.

Samofin saga

Edda er úthugsað verk, samofin saga tveggja kvenna, „Þið tvær eruð / endar / tímareipis / sem strekkist og slaknar / á víxl.“ (bls. 10) Önnur er ung, hin öldruð. Önnur upplifir heiminn með augum barnsins en hin með sjóndöprum augum þeirra sem eiga ekki langt eftir. Þær eru andstæður en á einhvern hátt líka samstæður, tákna annan hvorn enda lífsins.

Upphafsljóðið „Bergmál“ slær svo sannarlega tóninn fyrir ljóðabókina: „Orðin er og var / gera oft á tíðum ekkert / nema kasta milli sín / treganum.“ (bls. 7) En á hverri blaðsíðu kastast á milli gleði og sorg, framtíð og fortíð. Það er þó hamingja sem svífur yfir þessum konum: „Hvergi nema í augum ykkar / sé ég; // heiðríkju þeirra / sem treysta heiminum.“ (bls. 16)

Myndmálið í bókinni vekur hrifningu og er náttúran stef í Eddu þar sem mannslífum er meðal annars líkt við læki, „bæði / bunulækir og stórfljót / […] / sem renna saman / litla stund / áður en við tvístrumst / í aðra læki.“ (bls. 9) Hér er ættartréð lækirnir í þessari undurfallegu mynd. Í öðru ljóði spretta „draumsóleyjar“ „upp úr þykkri höfugri kyrrð / sem umlykur sofandi barn. // Af augum þess falla daggardropar / frjóvga jarðveg / úr svefnhljóðum mótast / fagurgyllt blöð.“ (bls. 40) Stílinn er fágaður, knappur og ekkert orð er óþarft.

Sátt við lífið og dauðann

Harpa Rún leikur sér við andstæður í þessari bók. Á reglulegu millibili birtast stutt ljóð, örfáar línur sem fjalla um tvö orð, andstæður. Þessi litlu ljóð leiða lesandann í gegnum bókina og marka skil á milli kafla. Andstæðurnar má einnig finna vítt og breitt í lengri ljóðunum en í einu ljóði er barnslegum leik æskuáranna varpað upp á móti dauðanum sjálfum: „Hvar er litla stúlkan? // Horfin / þó við sjáum þig / bakvið litla lófa. // Löngu seinna / hverfur mamma / amma / dýpra bakvið / dimmviðrið / og við / búin að gleyma leiknum / kunnum ekki reglurnar.“ (bls. 28)

Þegar líður á bókina verður alltaf ljósara að aldraða konan á stutt eftir, fáir koma í heimsókn, líkaminn og hugurinn orðinn brothættur. Í ljóðinu „Skref“ (bls. 69) taka „deigfætur“ barnsins fyrstu skrefin á meðan „brauðfætur“ gömlu konunnar valda því að hún fellur til jarðar. Ljóðið „Heim“ inniheldur svo ákveðna sátt, önnur látin, hin full af lífi: „Komin heim / kúrir í moldinni / nærveran þó aldrei meira / allt um kring. // Komin heim / kúrir / í ömmu bóli / sitji systur allar / saman í hring.“ (bls 76) Þær sameinast svo í síðasta erindi ljóðsins: „Komnar heim / báðar / minnið á ykkur, svífandi / sænginni yfir minni.“ (bls. 76)

Harpa Rún þegar hún tók við verðlaununum glæsilegu.

Ljúfsár upplifun

Í þessu ljóðabókaflóði hef ég áttað mig á því að ég hrífst innilega að ljóðabókum sem innihalda samfellda sögu, ekki stök ljóð sem standa ein og sér. Það er svo heillandi að koma auga á þræðina sem tengja ljóðin saman, öll táknin og þemun sem birtast þegar á þeim er þörf. Þetta er áhrifamikil leið til að segja sögu sem spannar heila ljóðabók. Hörpu Rún tekst þetta einstaklega vel í Eddu. Með því að yrkja um þessar tvær konur, þessi tvö lífskeið samtímis, nær Harpa Rún fram miklu meiri áhrifum hjá lesandanum en hún hefði annars gert. Eddu hefði ég viljað lesa á gullnum sólskinsdegi til að taka almennilega inn ljúfsáru birtuna sem stafir frá henni. Virkilega vel ort fyrsta verk, Harpa Rún mun svo sannarlega láta á sér kveða í framtíðinni.

 

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...