Margar frumraunir koma út í jólabókaflóðinu í ár og því ber að fagna að nýjar raddir séu að bætast í útgáfuflóru landsins. Ólyfjan er meðal þeirra, en hún er fyrsta skáldsaga Díönu Sjafnar Jóhannsdóttur, sem áður hefur gefið út ljóðabókina Freyju í seríu Meðgönguljóða.

Bókin gerist á fjórum dögum í lífi Snæa, ungs skipverja sem er í landi í nokkura daga fríi. Bókin er í styttri kantinum en atburðarrásin er hröð og nóg gerist á þessum örfáu dögum. Snæi er holdgervingur eitraðrar karlmennsku, eða hvað? Í raun er erfitt að lýsa bókinni í fleiri smáatriðum en höfundurinn leikur sér með skáldsagnarformið, sér í lagi við lok bókarinnar.

Efnistökin komu mér strax skemmtilega á óvart, enda lýsingin aftan á bókinni ekki mikil vísbending um innihaldið. Ólyfjan er ekki hefðbundin skáldsaga með upphafi, miðju og enda, heldur frekar eins og skjáskot í líf Snæa. Höfundurinn lýsir á raunsæjan hátt djamminu í miðbæ Reykjavíkur, útilegustemningu og tómleikanum í lífi Snæa. Snæi er týpa sem maður kannast við, hann álítur lífið eitt stórt djók og virðist engu taka alvarlega en er sannfærður um eigin snilligáfu þangað til eitthvað lætur hann byrja að efast um sig.

Þetta er fersk frumraun, enda sem fyrr segir er eitruð karlmennska og skáldsagnaformið undir í bókinni. Hún mun líklega helst höfða til aðdáenda fagurbókmennta. Það er margt vel gert í bókinni, til að mynda eru samtölin trúverðug, eitthvað sem oft er erfitt að ná fram í íslenskum skáldsögum þar sem talmál og ritmál getur verið svo ólíkt. Mér fannst þó eitthvað vanta við lokin; Framvinda sögunnar var áhugaverð, en sagan endaði dálítið snöggt. Ég hefði bæði viljað vita meira um fortíð og örlög Snæa, sem og að kynnast hans persónu betur.

 

Það er alltaf gaman að lesa bækur sem maður hefur ekki hugmynd um hvert munu leiða mann. Bókin sýnir að Díana Sjöfn er efnilegur höfundur og hlakka ég því mikið til að lesa það sem hún gefur út næst.

Lestu þetta næst

In memoriam

In memoriam

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur (úr...