Ég hreinlega man ekki hvenær ég skrifaði hérna inn síðast. Ætli það hafi ekki verið um ósýnilegu bókina sem var að drepa mig úr lágstemmd, ef það má orða það svo. Síðan þá hef ég lesið þó nokkuð en hef samt sem áður staðið mig að því að hafa verið í smá lestrarlægð. Ég kenni Margaret Atwood um það. Ég er nefnilega nýbúin að lesa nýjustu bók Atwood The Testaments. Bókin kom út nú í september og er því hluti af jólabókaflóðinu og er framhald Sögu þernunnar eða The Handmaids Tale sem skók lestrarlífið um 9. áratuginn en hertók svo sjónvarpssálir 21. aldarinnar þegar samnefndir þættir frá Hulu hófu göngu sína.
Ullabjakk og vibbi
Ég man það eins og það hefði gerst í gær; ég smellti tækinu í gang og byrjaði að horfa á fyrsta þáttinn af Sögu þernunnar en entist bara í hálftíma u.þ.b. áður en ég gafst upp á ógeðinu sem þar blasti við mér. Eftir það ákvað ég heldur að lesa bókina, sem var einnig yfirþyrmandi dystópísk og óhugguleg. Það sama má hreinlega segja um framhaldið.
Að vanda skrifar Atwood afspyrnu vel enda algjör kanóna og því ekki við öðru að búast! Bókin er saga þriggja kvenna sem segja sögu sína eftir að hafa eytt umtalsverðum tíma innan veggja Gilead, hinar hreinu borgar þar sem karlar og konur lifðu hákristilegu líferni og kúgun var umtalsverð; sem sagt ef við súmmerum:
Draumaáfangastaður! Kveikið á perunni ferðaskrifstofur og komið okkur út í kristilegum plús! Jeeeesús, María, Jósep, allir postularnir og kameldýrið sko!
Sögur kvennana eru í fyrstu persónu og eru í raun settar fram sem vitnisburðir sem hafa verið grafnir upp af framtíðar fræðimönnum sem sérhæfa sig í sögu Gilead. The Testaments er mjög gott framhald á Sögu þernunnar og klárar í raun ákveðinn söguþráð sem endaði opinn.
Bókin hafði mikil áhrif á mig og gerði í raun það að verkum að ég þurfti aðeins að hvíla mig á lestri þungra bóka, ef svo má segja, og datt í það að lesa fantasíur og því um líkt til að setja smá punkt við Atwood.
Bókin er framhald af klassík og hefur nú þegar fengið lof gagnrýnenda og hlaut nýlega Booker verðlaunin virtu. Ég gef henni fjórar stjörnur enda situr þessi á sálinni.