Áramótakveðja frá Lestrarklefanum

Nú eru ekki eftir nema örfáar stundir af árinu 2019. Þetta hefur verið gjöfult ár fyrir Lestrarklefann og það er með gleði og þakklæti sem við kveðjum það. Við hlökkum til að takast á við árið 2020 og allar bækurnar sem það hefur upp á að bjóða – gamlar og nýjar.

Þótt það hafi ekki verið meðvituð ákvörðun við stofnun Lestrarklefans í byrjun árs 2018 að leggja áherslu á barna- og unlingabækur hafa flestar umfjallanir okkar fallið í þann flokk. Viðtökurnar við þeim hafa verið vonum framar. Barna- og unglingabækur hafa lengi verið utangátta í bókmenntaumræðu á Íslandi en við vonum að umfjöllun okkar hvetji aðra miðla til að gera betur í þeim efnum. Það er nefnilega svo þarft. Slík umfjöllun þarf að vera miðuð að fullorðnum, því þeir hafa fjárráðin og eru oftar en ekki þeir sem ýta bókum að börnum sínum. Við vonum að okkar umfjallanir hafi leitt til þess að einhverjar bækur hafi ratað í pakka hjá ungum lestrarhestum (meira að segja þessum sem eru tregari í taumi).

Lestrarklefinn hóf árið 2019 af krafti með nýju hlaðvarpi í samstarfi við Kjarnann. Vinna við hlaðvarpið var skemmtileg og gefandi, en við lögðum það til hliðar þegar sumri lauk. Launaða vinnan kallaði, þó Lestrarklefinn sé eitthvað sem við vildum öll geta sinnt betur. Þó er aldrei að vita hvað gerist á nýju ári og það kitlar að halda áfram með hlaðvarpið í einhverri mynd.

Nokkrir pennar bættust í hópinn í ár. Allir sem skrifa fyrir Lestrarklefann hafa óslökkvandi áhuga á hvers kyns bókum og öllu þeim tengdum. Áhugi á barna- og unglingabókum virðist þó vera mjög áberandi hjá þeim sem sækjast eftir að skrifa fyrir Lestrarklefann, svo engin hætta er á að umfjöllun um þær fjari út á næstunni. Ljóðabókaumfjöllun tók líka duglegan kipp á árinu þegar ljóðaunnandi gekk í áhöfn Lestrarklefans. Vonandi verður meiri áhersla lögð á umfjöllun um ljóðabækur á næsta ári, enda er áhugi smitandi.

Hápunktur ársins var án efa þegar Lestrarklefinn hlaut Vorvinda IBBY í maí. Það varð til þess að settur var enn meiri kraftur í starfið, barna- og unglingabækur fengu aukið pláss og við fylltumst öll dugnaði. Óljósir draumar og framtíðaráform urðu líka ögn skýrari. Í nóvember og desember var mikil vinna lögð í að taka viðtöl við sem flesta barna- og unglingabókahöfunda og birtust hvorki meira né minna en 28 viðtöl við mismunandi höfunda. Jólabókaflóðið í ár var eitt það stærsta nokkru sinni og barna- og unglingabækur voru þar áberandi í flóðinu. Það er sannarlega gleðilegt að sjá svona mikið úrval af vel unnu lesefni fyrir unga lesendur.

Við í Lestrarklefanum tökum á móti nýju ári með bókahjartað fullt af spennu, von og gleði! Megi nýtt ár færa ykkur öllum alls konar bækur.

Gleðilegt nýtt ár!

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...