Lestrarklefinn hlaut Vorvinda IBBY

Lestrarklefinn var á meðal þeirra sem hlutu Vorvinda, viðurkenningu IBBY á Íslandi fyrir framlag til barnamenningar. Í umsögn um Lestrarklefann við afhendingu viðurkenningarinnar sagði:

Lestrarklefinn hlýtur Vorvindaviðurkenningu fyrir að gera barnabækur sýnilegri í bókmenntaumræðunni. Lestrarklefinn er með vandaðar umfjallanir um bækur, bókmenntir og lestur á vefsíðu sinni. Þar er fjallað um allt frá harðspjaldabókum yngstu lesendanna til hrollvekjandi vampírusagna sem ætlaðar eru stálpuðum unglingum. Ritdómarar nálgast öll umfjöllunarefni af fullri virðingu gagnvart þeim og frá sínu persónulega sjónarhorni.

Auk Lestrarklefans hlutu Krakkaklúbburinn Krummi, Elfa Lilja Gísladóttir og nemendur og kennarar í 4. HA – 4. LBG og 4. HH í Hlíðaskóla Vorvinda IBBY.

Í umsögn um Krakkaklúbbinn Krumma frá Listasafni Íslands sagði:

Krakkaklúbburinn Krummi var stofnaður haustið 2018 og þar er í fyrirrúmi metnaðarfull og spennandi dagskrá þar sem fer saman innblástur og sköpun. Þannig skapar Krakkaklúbburinn Krummi nærandi og þroskandi umhverfi fyrir yngstu gesti sína. Þetta er glæsilegt og vel útfært verkefni sem auðgar bæði listlæsi og-sköpun barna.

Elfa Lilja Gísladóttir hlaut Vorvinda fyrir verkefnið List fyrir alla. Verkefnið er sagt metnaðarfullt og jafna aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðumm, óháð búsetu og efnahag.

Nemendur í 4. HA – 4. LBG og 4. HH í Hlíðaskóla. Nemendur skrifuðu þrjár bækur í kjölfar heimsóknar í Norræna húsið á sýninguna Barnabókaflóðið og undir áhrifum bóka Ævars Þórs Benediktssonar. Að auki héldu krakkarnir útgáfuboð og lásu upp úr bókunum þær leiðir sem boðsgestir völdu.

Verkefnið einkennist af alúð, krafti og metnaði þar sem kennarar tóku sögugerð nemenda sinna í ævintýralegan farveg. Þau virkjuðu hugmyndaauðgi og sköpunarkraft þeirra og fóru með verkefnið langt út fyrir hefðbundinn kennsluramma innan fjögurra veggja skólastofunnar.

Lestrarklefinn þakkar fyrir viðurkenningu á starfi sínu og heldur ótrauður áfram. Einnig óskum við öllum öðrum handhöfum viðurkenningarinnar innilega til hamingju.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...