Hver er hræddur við rafbækur?

Það er liðinn ríflega áratugur síðan fyrstu rafbókalesarar komu á markaðinn og spáðu sumir að þeir myndu umbylta prentiðnaði og hafa töluverð áhrif í heimi bóka. En hver hefur raunin verið?

Sjálf var ég lengi að koma mér upp á lag við að lesa rafbækur. Ég fékk minn fyrsta rafbókalesara Kindle (kyndilinn minn) um jólin 2015, góðum átta árum eftir að Amazon setti fyrst slíka vöru á markaðinn. Ég var hins vegar mjög þakklát fyrir gjöfina sem nýttist vel á bakpokaferðalagi stuttu síðar þar sem ég upplifði í fyrsta sinn nánast óendanlegt aðgengi að bókum á ferðalagi og að þurfa ekki að bera mörg kíló af bókum með mér til útlanda (ég dröslaði t.a.m. með mér tólf bókum á interrail).

Núna rúmlega fjórum árum síðar er kominn reynslutími á kyndilinn og hef ég tekið eftir einu athyglisverðu; ég les allt öðruvísi bækur á honum en í pappírsformi. Eins og margir bókmenntaunnendur langar mig að eiga uppáhalds bækurnar mínar (og þær sem ég er stolt að hafa komast í gegnum – Anna Karenína einhver?) á bókahillunni til þess bæði að dást að þeim og geta lánað vinum og vandamönnum þær. Þær bækur sem verða fyrir valinu á rafbókaformi eru því oftar en ekki glæpasögur sem ég hugsa að ég muni bara lesa einu sinni, sem og bækur í léttari kanntinum sem fara einstaklega vel ofan í mig við sundlaugabakka.

Sé litið til gagna má sjá að bækur í prentformi seljast ennþá mjög vel og rafbækur eiga langt í land með að ná þeim. CNBC greindi frá því í haust að árið 2018 seldust prentaðar bækur fyrir 22.6 milljarða Bandaríkjadala en rafbækur fyrir um 10% af því að 2 milljarða Bandaríkjadala. Greinarhöfundur bendir á að rafbækur virðast því ennþá ekki hafa haft jafn mikil áhrif á prentaðar bækur og til að mynda netfréttamiðlar á prentmiðla, eða streymisveitur á geisladiska. Þetta rekja sérfræðingar til þess að bókaeigendur vilja sýna bækurnar sínar og skreyta heimili sín með þeim. Einnig kemur fram í greininni að glæpasögur eru meðal vinsælustu tegunda rafbóka samkvæmt gögnum Nielsen Book International. Áhugavert er að yngra fólk er líklegra til að kaupa prentaðar bækur í Bretlandi, en fólk yfir 45 ára er líklegra til að kaupa rafbækur.

Rafbækur á tímum hamfarahlýnunar

Eitt sem gæti hafa kynt undir áhuga fólks á rafbókum í seinni tíð eru umhverfisáhrif þeirra, en flestir eru að reyna að líta í eigin barm og minnka kolefnisfótspor sitt. Strax árið 2010 fór breska dagblaðið The Guardian að velta því upp hvort rafbækur væru umhverfisvænni en prentaðar bækur.

Árið 2013 greindi The Guardian frá því að rannsókn hefði áætlað að framleiðsla á einum Kindle á þeim tíma jafngilti framleiðslu á að meðaltali þrjátíu prentuðum bókum. Því þyrfti maður að lesa amk 30 bækur á sama kyndlinum til að byrja að minnka kolefnissporið sitt.

Svipaða tölu er að finna í öðrum ritum; Seth Wynes áætlar í bók sinni SOS What you can do to reduce climate change að talan sé um 40 bækur. Eftir það er þó hægt að hafa jákvæð áhrif á umhverfið með því að halda sig við að lesa á sama kyndlinum. En þó er vert að benda á að rafbókum fylgja umhverfisáhrif af niðurhali þeirra sem og rafmagnsnotkun tækjanna.

Innreið hljóðbóka

Rafbækur hafa þó ekki verið að sækja í sig veðrið á síðustu árum af þeim krafti sem búist var við. Á fyrsta ársfjórðungi 2019 dróst sala rafbóka saman um 4.5% í Bandaríkjunum. Á sama tíma jókst sala á hljóðbókum um rúmlega þriðjung og nam 133 milljónum Bandaríkjadala eða sem nemur rúmlega helmingi af sölu rafbóka í Bandaríkjunum á tímabilinu. Því virðist sem við séum að upplifa innreið hljóðbóka, en breska dagblaðið The Telegraph birti fyrir jólin grein um hljóðbækur þar sem kom fram að spáð er 30% söluaukningu á þeim á þessu ári.

Erfitt er að nálgast upplýsingar um kolefnisfótspor hljóðbóka. Þær fela að sjálfsögðu í sér jákvæð áhrif á tré, en þeim fylgir á sama tíma áhrif niðurhals á umhverfið sem getur verið mismikið eftir staðsetningu. Breska ríkisútvarpið BBC hefur bent á að kolefnisfótspor streymisveita vegna bæði kvikmynda og þátta, sem og tónlistar, hafi nú þegar töluverð áhrif á loftslagsbreytingar vegna gríðarlegrar orkuþarfar þeirra. Líklegt er að upplýsingar um áhrif hljóðbóka á umhverfið muni koma betur í ljós með vaxandi áhuga neytenda á þeim en það má þó leiða líkur að því að þær séu töluvert umhverfisvænni en prentbækur.

Rafbækur hafa fest sig þægilega í sessi á þeim rúma áratug sem liðinn er frá innreið þeirra. Þær eru vinsælar á ferðalögum og lesendur hafa fundið ákveðnar bókategundir sem rafbókalesarar eru fullkomnir fyrir. Þó virðist sem að ógn prentbóka af þeim hafi verið stórlega ofmetin. Dyggir rafbókalesendur geta haft jákvæð umhverfisáhrif með því að eiga sama rafbókalesarann í dágóðan tíma og lesa tugi bóka á honum. En þeir sem vilja hafa bestu áhrif á umhverfið með lestri sínum ættu þó að halda sig við bókasafnskortið í bili!

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...