Írónía og einlægni takast á

Þegar magnið af bókum í jólabókaflóðinu er jafn gífurlega mikið og raunin var síðustu jól eru alltaf einhverjar bækur sem fara framhjá manni. Ljóðabókin Ljós og hljóðmerki eftir Höllu Margréti Jóhannesdóttur er ein af þessum bókum sem lét lítið fyrir sér fara, en við skulum kippa því í lag hér og nú!

Um er að ræða aðra ljóðabók höfundar en fyrri ljóðabók Höllu Margrétar, 48 ljóð, kom út árið 2013 hjá Nikku forlagi. Ljóðabókinni er skipt í fjóra hluta sem eru allir frekar heildstæðir og fjalla hver og einn um eitt þema.

„Miðaldra forréttindapíka“

Fyrsti hlutinn varpar ljósi á veruleika miðaldra konu. Ljóðabókin byrjar svo sannarlega sterkt með ljóðinu „Einleikur fyrir konu á miðjum aldri“ en fyrstu línur ljóðsins hljóma svo: „Kona liggur á miðju sviði og fróar sér / Alltaf gott að fá það fyrst / ljúka því af“ (bls. 7) Þetta er reyndar hin fínasta speki í kómískum búning. Ljóðið endar svo á orðaleik, „ég byrja, ég er byrja“ (bls. 7) Alltaf er það frjósemin sem þarf að skilgreina miðaldra konur.

„Maraþon á hælum“ er líklega uppáhalds ljóðið mitt úr bókinni en þar ber ekki við neinni feimni og ljóðmælandi lætur allt gossa. „Þér má ekki líða illa / þú ert forréttindapíka / miðaldra forréttindapíka / með slappa skapabarma / forréttindapíka / Ekki kvarta“ (bls. 14). Þetta má túlka sem þá sýn sem samfélagið hefur á miðaldra íslenskum konum sem verða að vera „alltaf í stuði“ og „aldrei líða illa“ (bls. 14) Það er þessi stöðuga pressa að vera alltaf tilbúin til að gera allt fyrir alla og aldrei sýna veikleikamerki.

Ferðalög ljóðmælanda

Í öðrum hluta „Ekki þarna og ekki hérna heldur“ er ljóðmælandi á ferðalagi, meðal annars er komið við í Svíþjóð, Frakklandi og Indlandi. Þar verður einnig formbreyting, prósaljóð taka yfir og eitt ljóðið er hreint og beint samtal. Ljóðin í þessum kafla eru mörg kaldhæðin og yfirfull af íróníu, líkt og ljóðið sem fjallar um ferð ljóðmælanda yfir hið stutta Eyrarsund „Var búin að búa mig undir að geta horft á hafið og íhugað upphaf og endi, endaleysi og tilgang á meðan stálvírar vörðu leiðina.“ (bls. 24) En ferðin er aðeins nokkrar mínútur, þvílík vonbrigði.

Ljóðrænan læðist þó alltaf inn í hefðbundnari ljóðum eins og „Við Pont du Gard“ sem fjallar um flæði vatnsins. Það er líka eitthvað heillandi við ljóðið „Nótt í Kochi“ en þar liggur ljóðmælandi á svefnstað og lýsir loftræstingunni á ljóðrænan hátt: „Loftræstingin er með lýsandi táknum / sem sýna kuldann sem valinn er // Kuldinn lýsir í myrkrinu / leiðarstjarna / svo draumar geti hafist“ (bls. 34). Hæðnin leynir sé þó ekki, hún er alltaf til staðar.

Lélegur ljóðatexti?

„Umskrif“ heitir þriðji hlutinn. Hann byrjar á athyglisverðu ljóði, sem er í raun ákall til orðanna: „Elsku orð, elsku merking, elsku ljóð / ratarðu heim?“ (bls. 41) Kaflinn fjallar um ljóð, orð og það að yrkja, í raun rithöfundarstarfið sjálft. Ljóðin eru mörg vangaveltur, má skrifa slæmt ljóð stundum? Eiga þau rétt á sér? „Útsöluljóð“ hefst með þessum hætti: „Það er vor / Sólin skín úti / ég sit inni / það er gott að sitja inni þegar sólin skín úti / betra en þegar skýjað er / samt ekki skýjað inni“ (bls. 48). Oft þurfa skáldin einmitt að lofta út lélegum línum og klisjum til að gera pláss fyrir þær sem vekja hrifningu: „Stundum er nauðsynlegt að skrifa lélega ljóðatexta / Það er nauðsynlegt / að rýma fyrir nýjum sendingum“ (bls. 48)

Ljóðin eru sum einföld en þýðingarmikil eins og í ljóðið „Ekki ljótt I“. Þar endurtekur ljóðmælandi „Má ekki skrifa ljótt“ (bls. 50) eins og barn sem hefur gert eitthvað af sér og þarf að sæta þá refsingu að skrifa aftur og aftur sömu setninguna. Eftirlætisljóð undirritaðar í þessum hluta var „Næturljóð“ en þar er erfitt að finna hæðnina undir niðri, í staðinn fær ljóðrænan að njóta sín.

Næturljóð

Ljóðbrotið er ljós
Skíma
um nótt
Dyr opnast smátt og smátt
upp á gátt

Ljós sem býr til morgun
um miðja nótt

Ljós og hljóðmerki, bls. 52

Mors, hljómar og hljóðmerki

Fjórði og síðasti hluti ljóðabókarinnar fjallar um hljóð, samband og sambandsleysi. „Að lifa er að tengja / Að deyja er að tengja upp á nýtt“ eru fyrstu ljóðlínur fyrsta ljóðs kaflans. Í ljóðunum eru enskuslettur, merkingaþrungnar þagnir og einhverskonar ákall ljóðmælanda sem virðist ekki ná í gegn, „Ég neita að trúa því að tungumálið sé af okkur tekið / í dauðanum // Orðlaust samband myndi duga / ég sætti mig við ljós og hljóðmerki“ (bls. 56). Það er mikil tónlist í ljóðunum í þessum hluta, jazz, taktur, hljómur. Stöðugur leikur við hljóð og þögn til skiptis en forsíðumynd ljóðabókarinnar er augljóslega dregin af þessum hluta.

Írónía eða einlægni?

Ljós og hljóðmerki er hin fínasta ljóðabók en sum ljóð finnst mér standa töluvert upp úr og mætti því heildarsvipurinn vera örlítið sterkari. Höfundi tekst að tengja saman mismunandi þemu og vinna úr þeim á bæði kaldhæðinn og frumlegan hátt. Bókin er mjög kómísk á köflum í ádeilu sinni og það finnst mér vera langbestu sprettirnir. Írónían og einlægnin eru stöðugt að takast á í þessari ljóðabók og þau ljóð sem ná að vera írónísk í gegn, eða ljóðræn og einlæg alveg inn að beini, eru bestu ljóð bókarinnar. Ljóðin sem lenda inn á milli eru örlítið áttavillt og hitta ekki alltaf í mark. Allt í allt var þetta mjög ánægjulegur lestur sem vakti upp ýmsar vangaveltur.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...