Fyrsti kvendoktorinn sem gleymdist

Björg ævisaga Bjargar C. Þorláksson eftir mannfræðinginn Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur er stórmerkilegt fræðirit um fyrstu íslensku konuna sem lauk doktorsprófi. Sökum kynferðis hennar hlaut hún aldrei þá viðurkenningu í íslensku fræðisamfélagi sem við mátti búast í kjölfar doktorsnafnbótarinnar. Með þessari bók frá 2001 sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin sviptir Sigríður Dúna hulunni af óvenjulegri konu sem fór sínar eigin leiðir og trúði á sjálfa sig til að komast til mennta.

Ég rakst á bókina í bókasafninu hans afa og fékk hana að láni því mig langaði að fræðast um ævi Bjargar; ég vissi að hún hefði verið fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi en lítið annað. Þar sem bókin vakti verðskuldaða athygli við útgáfu og Björg hefur verið í umræðunni síðan þá áttaði ég mig ekki á því að við útgáfu hefðu fáir þekkt sögu hennar og framlag á sviðum vísinda og fræða.

Brautryðjandi og heimskona

Björg Carítas var fædd og uppalin í Vesturhópshólum í Húnaþingi. Björg var alla tíð metnaðarfull og dreymdi um að sækja sér frekari menntun og komst á þrítugsaldri til Kaupmannahafnar til náms. Hefðbundið kennslukonunám svalaði þó ekki menntaþorsta hennar og endaði hún á að ljúka stúdentsprófi og háskólagráðu í Kaupmannahöfn. Þar giftist hún Sigfúsi Blöndal og vann með honum að fyrstu Dönsk íslensku orðabókinni sem tók nokkura áratugi, auk þess sótti hún kvennaþing sem fulltrúi Íslands, þýddi bækur og skrifaði greinar sem birtust á Íslandi, t.a.m. í Skírni. Allt þetta gerði hún áður en hún doktoreraði fyrst íslenskra kvenna og þá í einum þekktasta háskóla heims, Sorbonne í París. Ævisagan snertir á öllum þessum lífsköflum í lífi þessa brautryðjanda og heimskonu auk þess að segja frá andlegum veikindum Bjargar sem skyggðu verulega á seinni lífsár hennar.

Mannfræðinálgun á efninu

Björg er ólík öðrum ævisögum sem ég hef lesið sem hafa verið skrifaðar af rithöfundum eða blaðamönnum þar sem Sigríður Dúna nálgast efnið sem mannfræðingur, til dæmis byrjar bókin á stuttum kafla um nöfnin sem Björg notaði á lífsleiðinni og hvernig nöfnin segja sögu hennar í hnotskurn. Bókin er svo byggð upp af stuttum köflum sem að mestu leyti eru í tímaröð en eru oft með fókus á einhvern hluta lífs Bjargar, t.a.m. kvenréttindabaráttu eða veikindi og eru sett í samhengi við samtíð Bjargar. Ég las bókina frá byrjun til enda, en með þessari uppbyggingu tel ég að einnig sé hægt að fletta fram og til baka í henni og lesa einstaka kafla.

Heilt yfir er bókin einstakt fræðirit sem segir sögu Bjargar en setur jafnframt í samhengi það mikla mótlæti sem konur í fræðimennsku sem og kvenréttindabaráttu mættu á tuttugustu öldinni og hvað þær þurftu að berjast til að ná takmörkum sínum. Hún er þyngri í lestri en hefðbundin ævisaga og skrifuð úr meiri fjarlægð og var ég því smá tíma að koma mér inn í hana, en um leið og Björg var komin til Kaupmannahafnar að elta drauma sína slóst ég í för með henni og eyddi meirihluta síðustu helgar í að hámlesa bókina. Þetta er vönduð bók sem segir frá áhugaverðari ævi sem var ekki alltaf dans á rósum. Háskólasamfélagið á Íslandi gekk í raun framhjá Björgu þrátt fyrir að fræði hennar voru ekki ómerkilegri en annarra fræðimanna á hennar tíð (bls. 334) og var hún aldrei heiðruð af því né voru henni sköpuð atvinnutækifæri innan þess þrátt fyrir áhuga hennar á slíku. Fátt var því um svör þegar frændi Bjargar Jón Dúason spyr þegar hún lá banaleguna: “Hvers vegna gleymduð þið Björgu?” Skýringin lá í kyni hennar á tíma þar sem einungis karlmenn stunduðu fræðimennsku.

Þegar ég lauk lestrinum þótti mér mikill fengur í eftirmáli Sigríðar Dúnu en þar lýsir hún þeirri margra ára rannsóknarvinnu sem liggur að baki hennar og hvernig röð tilviljanna kveiktu áhuga hennar á ævi Bjargar. Í eftirmálanum kemur fram að ævisögunni var “ætlað að leggja sitt af mörkum til að rjúfa þá þögn sem hefur umlukið Björgu og finna henni og verkum hennar stað í menningarsögu Íslendinga (bls. 332)” og það áætlunarverk tókst.

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...