Þegar ljóðamánuður Lestrarklefans líður senn undir lok vildi ég koma inn einni færslu um ljóðabækur frá tæplega síðustu fimmtíu árum. Seint á síðasta ári tók ég nefnilega tímabil þar sem ég las mjög margar eldri ljóðabækur. Ég hef alltaf verið í takt við tímann í þeim málum og hef hér á Lestrarklefanum aðeins fjallað um nýútkomnar ljóðabækur.

Í þessum pistli ætla ég hins vegar að mæla með þónokkrum eldri ljóðabókum sem hægt er að finna á næsta bókasafni eða á útsölumörkuðum ef þið eruð heppin. Ég ætla að byrja á elstu ljóðabókinni sem ég las og færa mig svo fram í tíma.

Hlátur þinn skýjaður (1972)
eftir Þuríði Guðmundsdóttur

Þessi ljóðabók heillaði mig. Myndhverfingarnar og lýsingarnar eru svo fallegar, tærar og óvæntar stundum, „hvítfingraður andardráttur“ (bls. 18) og „í ryðbleikum sársauka“ (bls. 20). Ljóðið Barn á bls. 36 stóð upp úr, þar sem barnið leikur sér að þögninni, ég sá þetta svo skýrt fyrir mér. Einnig heillaðist ég að ljóðinu Stundum á bls. 33. Ég sá ljóðið sem mynd yfir tilgang lífsins, við leitum stöðugt að kjarna þess en þegar við nálgumst hann er alltaf eins og lífið verði óskýrari og jafnvel enn óskiljanlegra. Mér finnst hún nota undurfagurt myndmál til að ná þessum hughrifum fram.

 

Orðspor dagnna (1983)
eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur

Það kom einhver ró yfir mig við lestur Orðspor daganna eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur. Stíllinn hennar er svo áreynslulaus og fallegur, mörg ljóðin hreinlega snertu mig. Ég fór í ferðalag með henni og naut textans. Hún yrkir um lífið, hversdagsleikann, veruleika kvenna og mæðra, af innsæi og næmni. Titill ljóðabókarinnar finnst mér dæmi um skapandi og opinn titil, bæði orðin „orð“ og „spor“ vekja upp ljóðræn hugrenningatengsl og dagarnir tengjast svo við hversdagsleikann og framvindu bókarinnar.

 

Dans í lokuðu herbergi (1989)
eftir Elísabetu Jökulsdóttur

Ljóðabókinni er skipt upp í fimm ljóðabálka en ég hreifst mest að bálki I og II. Fyrsti bálkurinn fjallar um litla barnið sem fyrir mér var tákn um barnið sem býr innra með okkur öllum. Endurtekningin og barnslegi einfaldleikinn í ljóðunum vöktu athygli mína. Annar bálkurinn fjallar um stúlku sem dansar í draumkenndum heimi og þráir fiðrildavængi. Ég finn fyrir frelsisþrá í ljóðunum og mikilli leit að tilgangi. Myndirnar eru margar og óvæntar, stundum er erfitt að melta þær og því sum ljóðin torræðari en önnur.

 

Bláþráður (1990)
eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

Í Bláþræði fyrstu ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur vinnur hún með liti og nýyrði á borð við:„glerbrotaströnd“ (bls. 6), „maígrænum og íslandsbláum“ (bls. 31). Náttúran er fyrirferðarmikið yrkisefni, það er íslenska náttúran með öllum sínum litum og blæbrigðum. Íslensku fánalitirnir eru svo litirnir sem taka mest pláss í bókinni. Linda yrkir einnig um kvenleika og fyrir miðri bók eru tvö prósaljóð sem mér fannst standa upp úr, þar sem hún notar orð á borð við „dömuhljóð“ (bls. 16) en þau eru einstaklega hressandi og kaldhæðin í ádeilu sinni á „klassískan“ kvenleika.

 

Þerna á gömlu veitingahúsi (1993)
eftir Kristínu Ómarsdóttur

Það sem hreif mig við þessa ljóðabók var tengingin á milli ljóðana. Þau kölluðust mörg á og höfðu að geyma sömu tákn, meðal annars brúði í hvítum brúðarkjól, tindáta og klukkur. Myndirnar sem Kristín dregur upp eru frekar súrrealískar og stundum svolítið óskiljanlegar, þrátt fyrir það er eitthvað heillandi við þær, „börnin þrjú sleikja mjólkina / af trjánum / móðirin situr í bambus / stól og heklar hjörtu saman“ (18) Það eru einnig athyglsiverð nýyrði í bókinni t.d. „sannleikstjörn“ (bls. 24),  „næturmjólk“ (bls. 35) og „haustbragð“ (bls. 40). Fyrir síðustu jól gaf Kristín út virkilega flotta og forvitnilega skáldsögu Svanafólkið hjá Partusi Press, ég mæli einnig innilega með henni.

 

Ísfrétt (1994)
eftir Gerði Kristnýju

Mig hafði alltaf langað til að lesa fyrstu ljóðabók Gerðar Kristnýjar, Ísfrétt. Síðasta haust lét ég svo loks verða að því. Höfundareinkenni hennar eru strax skýr í þessu stutta verki en knappur og meitlaður stíll einkennir skrifin. Náttúran blandast einnig ítrekað inn í ljóð um ást og ástarsorg. Myndmálið er öflugt, „Orðin grafa dimmar holur / þar sem áður sátu augun mín“ (bls. 9) og „Augun mín svartar læður / elta þig alla leið“. Augun eru fyrirferðamikið leiðarstef í verkinu og tákn um djúpar tilfinningar og sýn ljóðmælanda á heiminn. Mér fannst þessi bók einstaklega falleg og köld.

 

Guðlausir menn, hugleiðingar um jökulvatn og ást (2006)
eftir Ingunni Snædal

Ljóðabókin vann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2006. Bókin birtist mér sem einlæg fjölskyldusaga sem varpar ljósi á bresti og breyskleika ljóðmælanda. Það er myrkur yfir ljóðunum, „úlfgrá jökuláin“ (bls. 28) gleypir í sig lömb og fólk, bróðirinn heldur framhjá, amman deyr en ljóðmælandi getur bara hugsað um í hvaða frystigeymslu amman hefur verið í síðustu vikuna. Það er nútímaleg kaldhæðni undirliggjandi í ljóðunum sem ég hafði mjög gaman af.

 

Ljóð (2014)
eftir Yahya Hassan

Dansk/palestínska skáldið Yahya orti þessa áhrifamiklu ljóðabók þegar hann var aðeins 18 ára gamall. Ég gleymi því ekki þegar hann las upp á ljóðadagskrá á Iceland Airwaves eitt árið, þessi lestur situr enn í mér. Bókin er sjálfsævisögulegt verk og  segir frá ofbeldisfullu uppeldi Yahya í Danmörku eftir að fjölskylda hans flýr Palestínu. Bókin nær utan um rasismann og menningarmuninn, „Í SKÓLANUM MEGUM VIÐ EKKI TALA ARABÍSKU / HEIMA MEGUM VIÐ EKKI TALA DÖNSKU.“ (bls. 6) Bókin er einstök á þann hátt að öll ljóðin eru rituð með hástöfum sem undirstrikar þessa miklu þörf skáldsins til að koma þessari sögu frá sér.

 

Ég erfði dimman skóg (2015)
eftir Guðrúnu Ingu Ragnarsdóttur, Höllu Margréti Jóhannesdóttur, Heiðrúnu Ólafsdóttur, Hrafhildi Þórhallsdóttur, Sigurlínu Bjarneyju Gísladóttur, Soffíu Bjarnadóttur og Æsu Strand Viðarsdóttur.

Samvinnuverk ljóðskálda eru ekki algeng sýn en þessa ljóðabók verð ég að nefna. Ljóðabókin er vegferð, samtvinnuð út frá samvinnu og samsköpun margra skálda. Bókin sprettur upp úr ljóðinu Madrigal eftir Tomas Tranströmer sem birtist á fyrstu síðu bókarinnar. Mér fannst lesturinn töfrandi, rétt eins og skógurinn sem fjallað er um, skóginn sem liggur á mörkum raunveruleikans og súrrealismans. Bókin er femínísk og vekur upp margar tilfinningar: hrifningu, sorg, söknuð, angurværð. Sumar línurnar kýla mann í andlitið eins og upphafslína bókarinnar „Ég byrjaði mjög ung að deyja.“ (bls. 7) Einnig vil ég minnast á ljóðið sem fjallar um óargadýrið sem fylgist með ljóðmælanda í skóginum, en ég var einstaklega hrifin af því. Síðustu línur þess fá að loka þessari færslu: „Dýrið er að koma, ég næ ekki andanum og byrja að öskra. Það brýst fram. / Það brýst út úr mér.“ (bls. 14)

Hits: 138