Viðkunnanlegi uppvakningurinn Sombína

Skemmtilega furðusagan Sombína eftir Barböru Cantini kom út hjá Bókabeitunni núna fyrir jólin 2019. Bókin fjallar um uppvakninginn og stelpuna Sombínu. Sombína þráir að eignast vini og fá að leika við krakkana sem búa í nálægu þorpi. Sombína býr með Hálfdánu frænku á Hrunavöllum, sem er stórt og ævintýralegt sveitasetur, en fær ekki að fara lengra en út í garð eða skóginn bakvið húsið. Hún gæti nefnilega hrætt þorpsbúa með skelfilegu útliti sínu.

Helsti ráðunautur Sombínu er albínóa-mjóhundurinn Harmur sem eltir hana allan daginn og veitir henni félagsskap. Þegar hrekkjavakan gengur í garð áttar Sombína sig á því að hún getur verið óhrædd við að fara í þorpið þar sem allir eru klæddir eins og hræðilegar ófreskjur hvort sem er!

Myndskreytingarnar stela senunni

Myndskreytingarnar eru stórskemmtilegar og sýna allskonar furðuleg og fyndin smáatriði í umhverfi Sombínu sem eru stundum undirstrikuð með ör og stuttum texta. Myndirnar eru oft einskonar klippimyndir þar sem misraunverulegum tekinginum er telft saman. Myndskreytingarnar eru algjörlega það sem gerir þessa bók spennandi og aðlaðandi fyrir augað. Mér fannst vanta smá upp á skrifin sjálf en það sleppur alveg.

Fjölskyldumyndir í gömlum römmum spila stórt hlutverk í myndskreytingunum og spjallar höfuðið Bölríkur við „ljósmynd af honum sjálfum sem ungum manni“, en það var það eina sem „honum líkaði við.“ En Sombína notar einmitt höfuð Bölríks afabróður síns sem körfu undir sælgæti sem var virkilega skondið.

Gamaldags andrúmsloft

Hugmyndir um foreldrahlutverkin eru svolítið forn, „Börnin lögðu lokahönd á búningana með aðstoð frá mömmum sínum,“ pabbarnir sitja ekki við saumavélina, þeir eru í rauninni ekki sjáanlegir í þessari bók. Því fær bókin svolítið gamaldags andrúmsloft.

Þessi bók er tilvalin til að lesa upp fyrir yngri börn, 4-7 ára, og skemmtileg fyrir þau sem eru byrjuð að lesa til að spreyta sig á. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að það er oft notuð tengiskrift þegar verið er að lýsa einhverju nánar sem gæti verið illskiljanleg fyrir unga lesendur. Ég viðurkenni að ég átti sjálf stundum erfitt með að skilja letrið.

Sérlegur álitsgjafi Lestrarklefans les bókina ítrekað í gegn og hefur mjög gaman af, þess má geta að álitsgjafinn er sjö ára lestrarhestur. Seinni bókin um Sombínu, Sombína og dularfulla hvarfið, sló einnig alveg í gegn hjá honum.

Viðkunnanlegur uppvakningur

Sombína er rosalega viðkunnalegur uppvakningur og tekst að hrífa lesandann strax á fyrstu blaðsíðunum. Mér finnst þessi bók töluvert heillandi þrátt fyrir þessa smáu vankanta. Boðskapur sögunnar er klassískur en verður aldrei úreldur: þrátt fyrir að þú sért öðruvísi muntu finna félagsskap og samþykki sannra vina.

Lestu þetta næst

Litskrúðug gleðisprengja

Litskrúðug gleðisprengja

Söngleikurinn Fíasól gefst aldrei upp var frumsýndur laugardaginn 2 desember í Borgarleikhúsinu....

Köld slóð

Köld slóð

Eva Björg Ægisdóttir sigraði Svartfuglinn með glæpasögu sinni Marrið í stiganum árið 2018 og hefur...