Kápan er í anda þeirrar káputísku sem er í gangi þessa daganna. Er lágstemmd, falleg og minimalísk.

Guðrún Eva Mínervudóttir hefur löngum verið einn af mínum uppáhalds höfundum. Þess vegna varð ég afskaplega kát þegar ég sá að hún gaf út eina nýja skáldsögu nú fyrir jólin. Ég tók upp bókina og byrjaði á því að þefa af fyrstu blaðsíðunni (eitthvað sem ég geri bara við bækur sem ég er virkilega spennt að lesa) og viti konur og menn! Bókalyktin var fullkominn; þetta boðaði gott!

Einfaldleikinn í hinu flókna

Aðferðir til að lifa af er mjög svo í anda Guðrúnar Evu; lágstemmd, með beittum undirtón, fallega skrifuð og í raun og veru bara fullkominn. Hún nær að tengja saman ólíkar sögupersónur á hátt sem fáir ná að gera.

Orðin, sagan sjálf og persónurnar tengjast lesandanum og varpa ljósi á hið mannlega eðli og þá þörf okkar að tengjast fólki og hafa áhrif. Líf sögupersónanna fléttast saman á mis djúpan hátt. Stundum verða aðalpersónur aukapersónur og aukapersónur síðar aðalpersónur. Það er snilldarlega gert að mínu mati.

Persónusköpun í verkum Guðrúnar Evu er almennt mjög djúp. Á því er engin undantekning nú. Bókin er alls ekki löng aflestrar og aðalpersónur bókarinnar hljóta að teljast ansi margar miðað við hversu stutt hún er í raun. Það breytir því samt sem áður ekki að allar persónurnar eiga sér djúpa sögu sem höfundur nær að skila í gegn án þess þó að kafa of mikið á dýptina. Persónurnar eru djúpar og flóknar, mannlegar og jafnvel gallaðar en taka samt sem áður ekki of mikið pláss í sögunni. Þær deila allar jöfnu plássi og hver saga í sögunni á sinn eigin heim sem fléttast við heim hinna.

Einfaldleikinn finnst mér að mörgu leyti einkenna Guðrúnu Evu sem höfund þ.e. hún nær að láta söguþráðinn líða áfram án nokkurra hnökra. Þannig birtist þessi einfaldleiki í því sem er í eðli sínu flókið. Að skrifa sögu getur nefnilega verið afskaplega flókið (enda er mannfólkið, sem sögur fjalla oftast um, almennt séð flókið) en þetta leikur einfaldlega í höndum höfundarins.

Æi vitiði það, þetta er bara ein af þessum fullkomnu bókum sem snertir svo djúpa strengi. Ég bíð alltaf spennt eftir næstu bók Guðrúnar minnar Evu og segi bara takk fyrir mig!

Hits: 193