Hversu gaman er að lesa unglingabækur sem gerðust í gamla daga? Þá á ég við bækur sem eru skrifaðar í nútímanum en eiga að gerast fyrir einhverjum áratugum síðan. Ég fékk stelpu í 10. bekk til að lesa eina af þeim bókum sem kom út fyrir jólin 2019 en á að gerast 1980. Ég er að tala um bókina Ungfrú fótbolti eftir Brynhildi Þórarinsdóttur. Bókin fjallar um þær vinkonurnar Gerði og Ninnu en þær eiga þann draum að fá að æfa fótbolta eins og strákarnir. Á þessum árum er kvennafótbolti nánast óþekkt fyrirbæri á Íslandi og aðeins drengir fengu að stunda slíka íþrótt. Í söguna blandast síðan barátta kvenna fyrir jafnrétti, Vigdís Finnbogadóttir er að bjóða sig fram til forseta og umræðan um hennar framboð er fyrirferðarmikil í sögunni.
Íris Birta er nemandi í 10. bekk í Grundarfirði og las bókina um þær Gerði og Ninnu. Heilt yfir fannst henni bókin litlaus og óspennandi. Illskiljanlegar fannst henni tilvísanir í tíðarandann, svo sem eins og kókið sem var keypt í sjoppunni en glerinu skilað.
Eins fannst Írisi furðulegt í bók sem skrifuð er fyrir unglinga og markaðssett sem slík, að aðalpersónan í sögunni er 12 ára og á eldri systur, en alltaf er talað um systurina sem skrýtinn ungling og ýjað að því margoft að unglingar séu furðulegir. Barátta stelpnanna við að fá viðurkenningu í heimi strákaíþrótta er að Írisar mati tímalaus og sýnir hvað við erum komin skammt á veg með að fá kvennaíþróttir jafngildar karlaíþróttum en bókin er skrifuð þannig að áhugi unglinga er nánast enginn á henni, hún er barnaleg, kápan óáhugaverð og bókin öll til þess fallin að falla frekar í kramið hjá yngri krökkum.
“Við unglingar viljum ekki lesa bækur sem eiga að vera skrifaðar fyrir okkur en eru miðaðar við að litlu systkinin geti lesið þær líka. Við viljum að unglingabækur séu fyrir okkur, unglinga” segir Íris og segist geta mælt með bókinni, Ungfrú fótbolti, við tíu ára gamla krakka, eða þá fullorðnar konur með fortíðarþrá, eins og hún komst að orði.
Og hún endar viðtalið á að segja „hefði ég ekki verið beðin um að lesa bókina til að segja mitt álit á henni hefði ég ekki klárað hana, gef henni tvær stjörnur, alls ekki meir”.