Glæpa- og spennusögur eru einhverjar vinsælustu bækur sem gefnar eru út á Íslandi og þótt víða annars staðar væri leitað. Mörg af þekktustu nöfnunum í bransanum hafa gefið út sterkan straum af góðu efni síðasta áratuginn. Hins vegar getur verið sérstaklega skemmtilegt sem lesandi að rekast á góða glæpasögu eftir höfund sem maður þekkti ekki áður og komist þannig í kynni við fullt af nýjum bókum. Til að stytta ykkur stundirnar á tímum samkomubanns hefur Lestrarklefinn því tekið saman lista af minna þekktum spennusagna- og glæpahöfundum og verkum þeirra sem vert er að kynna sér.
[hr gap=“30″]
Marrið í stiganum og Stelpur sem ljúga eftir Evu Björgu Ægisdóttur
Eva Björg Ægisdóttir kom inn á íslenskan glæpasagnamarkað með hvelli þegar hún hlaut fyrsta Svartfuglinn árið 2018. Hún hefur sent frá sér tvær bækur og fleiri eru væntanlegar. Sögurnar tvær gerast á Vesturlandi og fylgst er með landsbyggðar- og rannsóknarlögreglunni Elmu leysa morðmál. Bækurnar eru vandaðar og persónusköpun djúp sem gerir lesturinn enn betri. (KLJ)
[hr gap=“30″]
DI Fawley serían eftir Cara Hunter
Ég rakst á fyrstu bók Cara Hunter um DI Adam Fawley Close to Home á Kindle store og hóf lestur á henni fyrir rúmri viku. Ég spændi í gegnum bókina enda var söguþráðuinn mjög spennandi: lítil stúlka hverfur sporlaust úr garðveislu í Oxford á Englandi og engar vísbendingar liggja fyrir um hvar hún er. Eftir að ég komst að því að þetta væri fyrsta af mörgum bókum um DI Adam Fawley hóf ég lestur á þeim næstu í seríunni, annars vegar In the Dark og hins vegar No Way Out. Þetta var sannkallaður hámlestur og hef ég lokið þessum þremur bókum á rétt rúmri viku. Mér fannst bók númer tvö í seríunni In the Dark best af þessum þremur en hún fjallar um konu og barn sem finnast læst í kjallara í húsi sem gamall maður í Oxford á. Hann er með elliglöp og gengur illa að leysa úr málinu sem reynist mun flóknara en við fyrstu sýn. Bækurnar fela í sér nákvæmar lýsingar af lögregluvinnunni og mun því helst henta fólki sem hefur gaman af slíkum glæpasögum. Þær komu út á síðustu árum og eru því mjög nútímalegar, inn á milli kafla eru til að mynda twitter umræður um málin og ýmis annars konar nútíma rittækni er nýtt til að vinda sögunni fram. (SG)
[hr gap=“30″]
Mín sök eftir Clare Mackintosh
Mér áskotnaðist bókin Mín sök (e. I Let You Go) í þýðingu Eyrúnar Eddu Hjörleifsdóttur og vissi ég lítið um höfundinn eða bókina þegar ég hóf lestur. Á augnabliki umbreytist líf Jennu Gray þegar slys á sér stað. Hún flýr til Wales þar sem hún heldur til í bústað og tekst á við sorgina og byggir sig upp á ný. Einn daginn nær hins vegar fortíðin í skottið á henni með mjög alvarlegum afleiðingum. Bókin fjallar um átakanleg efni og er mjög vel skrifuð spennusaga. Hún er full af óvæntum atburðum og er maður endalaust að láta blekkjast sem lesandi. Ég hlakka því til að lesa fleiri verk eftir Mackintosh. (SG)
[hr gap=“30″]
Dark Places eftir Gillian Flynn
Gillian Flynn veldur svo sannarlega ekki vonbrigðum en glæpaþyrstir lesendur þekkja líklega hina stórvinsælu bók Gone Girl (2012) og Sharp Objects (2006). Ég vil kynna lesendur fyrir minna þekktri bók eftir hana Gillian, Dark Places. Hún kom út árið 2009 en hefur því miður ekki verið þýdd yfir á íslensku. Dark Places hámlas ég fyrir tveimur árum en gæti vel hugsað mér að lesa hana aftur. Hún fjallar um Libby Day sem hefur lifað á frjálsum framlögum, og gjöfum ókunnugra, frá því að öll fjölskyldan hennar var myrt þegar hún var ung. Báðar systur hennar og móðir voru myrtar, en Libby bar vitni gegn bróður sínum sem var dæmdur sekur. Fjölmiðlafárið í kringum morðmálið olli miklum usla varð Libby því fræg sem eini eftirlifandi hrottalegu morðanna. Lögreglan hélt að morðin væru verk bróður hennarog djöfladýrkenda en tuttugu og fimm árum eftir morðin neyðist Libby til að endurskoða minningar sínar og horfast í augu við þá staðreynd að bróðir hennar hafi líklega ekki framið morðin. (RSS)
[hr gap=“30″]
The Innocent Wife – Amy Lloyd
Sam er einmana enskur barnaskólakennari sem eyðir frítíma sínum í að skoða gamalt bandarískt morðmál. Hún verður heilluð af Dennis Danson, manninum sem er ákærður fyrir morðið og situr í fangelsi í Flórída. Hún og Dennis fara að skiptast á bréfum og áður en Sam veit af hefur hún flutt til Flórída til að giftast Dennis. En þegar Dennis er látinn laus og þau fara til heimabæjar hans þar sem morðið var framið fer Sam að velta fyrir sér hversu vel hún þekkir manninn sinn í raun.
Sagan er spennandi og áhugaverð, sérstaklega fyrir aðdáendur bandarískra sakamála þar sem höfundur nýtir sér mikið úr raunveruleikanum til að glæða persónur sínar lífi. (SH)
[hr gap=“30″]
The Playground – Jane Shemilt
Þrjár fjölskyldur hittast í gegnum börnin sín. Allar fjölskyldurnar eiga það sameiginlegt að líta vel út á yfirborðinu en undir niðri leynist eitthvað myrkara. Sagan er sögð út frá sjónarhorni mismunandi sögumanna sem tala í þriðju persónu. Þannig sér lesandinn sömu atburðina út frá mismunandi hliðum og sér að ekki er alltaf allt sem sýnist. Bókin er blanda af fjölskyldudrama og glæpasögu, en hún er löng og í henni fær lesandi að kynnast persónunum mjög vel, sem skapar svo mikla spennu og samkennd þegar dularfullar hörmungar fara að gerast. (SH)
[hr gap=“30″]
The Wife, The Ex og The Better Sister – Alafair Burke
Þrjár spennusögur eftir sama höfund sem fylgja svipuðu formi. Þær fjalla um ríkt fólk í New York sem er ákært fyrir morð. Höfundur bókanna er sjálf lögfræðingur og rekur lagalegar flækjur málanna á fræðandi en þó aðgengilegan hátt. Síðasta bókin, The Better Sister, er að mínu mati best, en hinar eru ágætar til að lesa ef maður hefur klárað hana og vill lesa um svipuð mál. Höfundur málar upp raunsæar myndir af persónum sem maður heldur með þrátt fyrir ýmsa galla þeirra. The Better Sister tekst á við gráar línur kynferðisofbeldis og MeToo hreyfinguna á áhugaverðan hátt. Svo er þetta í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem mér tókst ekki að fatta hver morðinginn var í spennubók. Og það segir heilmikið. (SH)
[hr gap=“30″]
I Can Be A Better You – Tarryn Fisher og The Perfect Girlfriend – Karen Hamilton
Tvær bækur um ungar konur sem eiga svolítið bágt. Í bók Fishers er það Fig, einmana fráskilin kona sem þráir að eignast barn. Þráir að eignast mann. Og ekki hvaða mann og barn sem er, heldur barn og mann nágrannakonu hennar. Og hún er ekki yfir það hafin að beita bellibrögðum til að
fá allt sem hún þráir. Í bók Hamilton er það Juliette, ung og falleg flugfreyja sem Nate hætti með fyrir sex mánuðum. En það þýðir ekki að
Juliette hafi notað tímann til að komast yfir hann. Það þýðir að hún hefur haft sex mánuði til að móta sjálfa sig í hina fullkomnu kærustu fyrir Nate. Nú þarf hún bara að láta leiðir þeirra liggja saman svo hann átti sig á því. (SH)
[hr gap=“30″]
Then She Was Gone – Lisa Jewell
Ung stúlka hverfur af heimili sínu árið 2005 og sést aldrei aftur. Lögreglan telur hana af en móðir stúlkunnar er ekki jafn sannfærð. Og hvað á það að þýða þegar mamman rekst á litla stelpu sem er lifandi eftirmynd dóttur hennar tíu árum seinna? (SH)