Stelpur sem ljúga

21. desember 2019

Stelpur sem ljúga er nýútkomin bók eftir Evu Björgu Ægisdóttur og er sjálfstætt framhald bókarinnar Marrið í stiganum sem kom út í fyrra og vakti mikla athygli. Sú bók hlaut einmitt glæpasöguverðlaunin Svartfuglinn sem veitt voru í fyrsta sinn árið 2018. Í Stelpur sem ljúga fygist lesandinn með lögreglukonunni Elmu á Akranesi, sem kynnt var til sögunnar í fyrstu bókinni. Strax í upphafi sögunnar finnst lík í Grábrókarhrauni sem kemur atburðarásinni af stað. Í ljós kemur að líkið er af ungri konu sem hafði verið horfin í hálft ár og skilið eftir sig unga dóttur. Meðfram glæpasögunni í bókinni fáum við að skyggnast hugarheim ungrar móður sem á erfitt með að tengjast nýfæddri dóttur sinni, við fáum að fylgjast með þeim af og til, sjáum hvernig samband þeirra þróast þar til fléttan raknar og tengsl þeirra við morðmálið í Grábrókarhrauni verður lesandanum ljós.

Persónusköun er vönduð í bókinni, sem skapar dýpt. Lögreglukonan Elma á sér baksögu. Hún á sér líf fyrir utan vinnuna. Oft vill verða svo að rannsóknarlögreglumenn spretti upp úr engu í glæpasögum; eiga ekki fjölskyldu og einstæðingsskapur virðist vera hálfgert kennimerki þeirra. En ekki í bók Evu Bjargar.

Við fáum að vita meira um Elmu, hennar samband við foreldra hennar og systur og almennt fáum við að vita meira um hennar tilfinningalíf en gengur og gerist með aðalpersónur í glæpasögum.  „Af hverju fremur fólk glæpi?“ er spurning sem virðist undirliggjandi í bókinni og höfundurinn leggur sig fram um að svara með því að kafa ofan í félagslegar aðstæður fólksins í sögunni sem gerir það að verkum að samúð lesandans og skilningur á gjörðum persónanna er meiri.

Ég var virkilega hrifin af þessari bók, mér finnst hún betri en fyrri bókin. Þó fannst mér hún á köflum langdregin og endirinn stundum eins og höfundur hafi verið með of marga þræði, tíminn hafi verið á þrotum og hún þurft að hnýta allt saman í hvelli.

En hún er virkilega spennandi, heldur manni allan tímann og ég fæ ekki þennan kjánahroll sem ég svo oft fæ þegar ég les íslenskar glæpasögur, þar sem morð er framið í kjallaríbúð á Þórsgötunni, eða rán er framið í matvöruverslun í sjávarþorpi út á landi, þar sem veðrið er alltaf eins – þungbúið og leiðinlegt.

Ég hlakka til að lesa meira eftir Evu Björgu, hún lofar góðu sem glæpasagnahöfundur og stíll hennar er skemmtileg tilbreytni frá annars frekar einsleitum íslenskum glæpasögum. Ég verð líka að fá að hrósa kápu bókarinnar, hún er seiðandi og flott og gefur fyrirheit um það sem leynist bakvið tjöldin.

Lestu þetta næst

Elsku leg

Elsku leg

Yerma eftir Simon Stone í Þjóðleikhúsinu Jólasýning Þjóðleikhússins 2024, Yerma, kemur svo...

Ótti vekur alltaf upp hatur

Ótti vekur alltaf upp hatur

Ótti vekur alltaf upp haturAriasman í Tjarnarbíó Sýningin Ariasman er 80 mínútna einleikur þar sem...

„Kona verður að velja“

„Kona verður að velja“

Leikritið Ungfrú Ísland var frumsýnt í Borgarleikhúsinu föstudaginn 17. janúar síðastliðinn. Um er...

Segulmagnaður einleikur

Segulmagnaður einleikur

Ífigenía var dóttir Agamemnon konungs í grískri goðafræði. Samkvæmt sögunni var henni fórnað af...