The Name of the Wind – Betri hámlestur finnst ekki

Fyrir nákvæmlega tveimur árum var ég stödd í Svíþjóð að drepast úr leiðindum á meðan yndislegi kærastinn minn var í meistaranámi. Ég flutti með honum út en hafði lítið fyrir stafni í borg þar sem ég þekkti nánast engan. Góð vinkona mældi með The Kingkiller Chronicle bókaseríunni eftir Patrick Rothfuss og ég skundaði út í frábæra bókabúð sem heitir Science Fiction Bokhandeln og er einskonar Nexus Svía. Þar keypti ég fyrstu bókina í bókaflokknum, The Name of the Wind (2007), og þá var ekki aftur snúið…

Því miður hefur verið töluvert löng bið eftir þriðju bókinni.

Hámlestur eins og hann gerist bestur

Ég gjörsamlega lá yfir þessari bók og þrátt fyrir að hún væri yfir 600 blaðsíður var ég bara örfáa daga að háma hana í mig (enda þurfti ég ekki að sinna mörgum öðrum verkefnum). Á þeim tímapunkti sem ég kláraði hana vorum við farin til Aþenu í páskafrí þar sem ég gerði dauðaleit að annarri bókinni í flokknum, The Wise Man´s Fear (2011), án árangurs. Þrátt fyrir að vera algjör íhaldsinni sem les aldrei rafbækur keypti ég aðra bókina að lokum og las allar þúsund blaðsíðurnar á litla snjallsímaskjánum í þessu stutta fríi. Ég saknaði þess þó að finna bókalyktina og flétta blaðsíðum en ég var einfaldlega of spennt til að bíða angað til ég færi aftur til Svíþjóðar.

Þetta var í fyrsta skiptið síðan ég var unglingur sem ég datt svona svakalega í fantasíubókmenntir. Ég las töluvert af furðusögum í barnæsku en eftir að ég fór í menntaskóla og bókmenntafræðina dvínaði sá lestur, því miður.

Hér má sjá nýlegri kápur bókanna en vonandi kannast fólk við þessar úr bókabúðum.

Farandsöngvari, betlari og dúx í virtum galdraskóla

Eins og þú, kæri lesandi, gerir þér grein fyrir á þessu stigi málsins, þá mæli ég eindregið með þessum bókum. Þær fjalla um hinn merkilega Kvothe sem í upphafi bókanna býr í felum í smábæ og rekur The Waystone Inn. Þar gengur hann undir dulnefninu Kote en það kemst upp um hann þegar hann bjargar lífi manns sem kallar sig Chronicler, eða skrifarann. Chronicler biður Kvothe um að leyfa sér að festa sögu hans á blað, sem Kvothe að lokum samþykkir. Þannig hefst bókin með endurliti Kvothe til barnæsku sinnar og unglingsára. Stórmerkilegt lífshlaup hans heldur lesandanum við efnið og fer bókin yfir víðan völl. Hún fjallar um líf Kvothes sem farandsöngvara, sem betlara í hættulegri stórborg og að lokum sem illa liðnum nemanda í virtum galdraskóla.

Erfið bið eftir síðustu bókinni

Aðdáendur bókanna eru ekki kátir með hinn hægskrifandi Rothfuss

Það er eitthvað fyrir alla í þessum frábæru bókum en ég vil vara þau við sem hafa ekki lesið þær að þriðja bókin í þríleiknum, The Doors of Stone, hefur nú verið næstum áratug bígerð og ekki er enn kominn staðfestur útgáfudagur. Í millitíðinni gaf Patrick Rothfuss út bókina The Slow Regard of Silent Things (2014) sem er hliðarsaga út frá The Kingkiller Chronicle heiminum, sögð frá sjónarhorni einnar aukapersónunnar, Auri. Patrick Rothfuss hefur einnig gefið út töluvert af smásögum en aðdáendur bókaflokksins eru orðnir töluvert óþreyjufullir eftir síðustu bókinni. Þar á meðal ég…

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....