Mamma, má ég segja þér? er þriðja ljóðabók Eyrúnar Óskar Jónsdóttur. Hún hefur áður gefið út bækurnar Í huganum ráðgeri morð og Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa.  Fyrir síðast nefndu bókina fékk hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.

Ljóðabókinni er skipt í þrjá hluta sem tengjast lítið, í rauninni er um að ræða þrjú mismunandi ljóðverk.

Augljós ádeila

Fyrsti hluti ljóðabókarinnar heitir „Stríð, friður og skæru-velgjörðir“ og gagnrýnir harðlega stefnu íslenskra stjórnvalda að senda flóttabörn og -fjölskyldur úr landi. Í fyrsta ljóði bókarinnar er dregin upp mynd af stúlku sem líkt er við Önnu Frank, eina frægustu flóttastelpu seinni heimstyrjaldarinnar. Hún er á leikvelli í Reykjanesbær og hangir á hvolfi í klifurgrind en „árla morguns / í fjólubleikri maíbirtu / bankar lögregla upp á / og vísar kærleikanum úr landi.“ (bls. 7) Þessi hluti ljóðabókarinnar er augljós ádeila og liggur hún öll á yfirborðinu, ljóðmælandi vill koma því skýrt til skila að þessar aðgerðir gegn flóttafólki eru siðferðislega rangar: „Bara plís! / Getum við í hamingjunnar bænum sammælst um að vera góð við börn?“ (bls. 12)

Ljóðmælandi er friðarsinni, fæddur á friðardegi Sameinuðu þjóðanna, 21. september. Ljóðmælandi vill „gera byltingu / hjartabyltingu“ og segir að „Hjartað er sá staður / sem baráttan fyrir heimsfriði / verður að fara fram.“ (bls. 26).

Kærleikurinn liggur í náttúrunni

Annar hluti ljóðabókarinnar ber heitið „Berum kærleikanum vitni“ og er meginþemað náttúran og myndræn upplifun á henni: „Þegar ljós brotnar / flæða regnbogar / fæða liti /anda skrúði /djúpu skæru hreinu rjóðu skrúði / litrófið / í geislabrotunum / tifandi skínandi / dýrð.“ (bls. 32). Ljóðmælandi virðir fyrir sér landið okkar, gengur á fjöll, ferðast og virðist finna hamingjuna í umhverfinu, „hér drýpur kærleikur / af hverju strái.“ (bls. 53)

Hversdagsleg ást og barnsleg einlægni

Þriðji hluti ljóðabókarinnar heitir „Silfurbjöllur og regnbogar“ og inniheldur ljóðabálk þar sem ástin og rödd barns er í fyrirrúmi. Eyrún Ósk fékk sérstaka viðurkenningu fyrir ljóðið sitt „Mamma má ég segja þér“ sem birtist í þessum tiltekna kafla og er titilljóð bókarinnar.

Bálkurinn hefst á ljóðum sem fjalla um ástina. Hversdagslegri ást er lýst, ást sem allir geta tengt við „Ég elska þig í búð / við brauðrekkann / er við tökumst á um / hvort kaupa skuli / fínt eða gróft.“ (bls. 63) Ástin er auðvitað samofin hversdeginum og nær ljóðmælandi að lýsa þessari fallegu venjulegu ást á sannfærandi máta.

Í seinni hluta bálksins virðist rödd ljóðmælanda færast yfir í barn sem reynir sitt besta að lýsa ást sinni á móður sinni. Barnsleg endurtekning er áberandi í ljóðunum ásamt hreinni einlægni barnshugans. Bókin endar á þessu fallega erindi:

Mamma má ég segja þér?
Það eru lítil hús í hjartanu mínu
full af fólki sem ég elska
elska, elska, elska
Mamma má ég segja þér?
Mamma, veistu að ég elska þig?
Mamma, ég elska þig í hjartanu mínu
í hjarta húsinu mínu.
Mamma má ég segja,
má ég segja
að ég elska þig?

(Mamma má ég segja þér? Bls. 76)

Þrír bálkar í einni bók

Mamma, má ég segja þér?  er í rauninni þrjár ljóðabækur í einni eða heldur þrír ljóðabálkar í einni bók.  Ádeilan í fyrsta bálkinum fannst mér mögulega of mikið á yfirborðinu en henni hefði mátt flétta betur inn í táknmyndir og óræðara myndmál. Náttúruljóðin voru fögur og hægt var að gleyma sér í þeim. Hrifnust var ég þó af síðasta bálkinum en tilfinningarnar þar voru djúpar og endurtekningin taktföst og áhrifarík.

Hits: 92