Í jarðholu nokkurri bjó hobbiti. Svona byrjar þessi frábæra saga. Það er afar sjaldgæft að fyrsta setningin í bók dugi til að fanga algjörlega athygli mína en það var það sem gerðist þegar ég las Hobbitann.
Englendingurinn J.R.R Tolkien er einn þekktasti rithöfundur heims og hefur stundum verið kallaður faðir nútíma furðusagna. Hann á þann titil réttilega skilið enda hafa verk hans verið gífurlega vinsæl og veitt fjöldamörgum listamönnum innblástur. Bókin kom fyrst út árið 1937 og hlaut strax talsverða athygli. Tolkien skrifaði Hobbitann fyrir sín eigin börn, og bókin hefur selst í milljónum eintaka um allan heim. Nýsjálenski leikstjórinn Peter Jackson gerði þrjár bíómyndir eftir bókinni sem voru frumsýndar á árunum 2012 til 2014. Ef til vill var það of mikið í lagt að gera þrjár myndir eftir 360 blaðsíðna bók enda var hellingur af atriðum í bíómyndunum sem ekki voru í upprunalegu sögunni. Innra með mér togast á tvö sjónarmið hvað þetta varðar. Mér finnst bíómyndirnar ekki ná því markmiði að færa bókina á hvíta tjaldið eins og ég vildi sjá hana. Hinsvegar, ef horft er á myndirnar óháð bókinni, þá eru þetta virkilega vandaðar og flottar fantasíukvikmyndir. Tolkien hefur skrifað fjölda annarra bóka svo sem Hringadróttinssögu og einnig hafa verið gerðar kvikmyndir eftir þeim. Ég viðurkenni að ég hef ekki lesið þann bókaflokk en myndirnar finnst mér alveg svakalega góðar.
Yndislegt ævintýri
Tilvera hobbitans Bilbó er fábrotin og róleg. Einn daginn breytist hins vegar allt þegar galdrakarlinn Gandálfur bankar uppá. Með galdramanninum eru þrettán dvergar sem hafa það helst fyrir stafni að endurheimta fjarsjóð sem stolið var frá þeim. Heimakæri hobbitinn dregst inn í stórfenglegt ævintýri þar sem hann og vinir hans lenda í ýmsum hremmingum og hitta meðal annars tröll, risaköngulær og dreka. Mér finnst ágætt þegar atburðarás í bókum er tiltölulega hröð því þá heldur bókin athygli minni, þetta á einmitt við um Hobbitann. Hver kafli er vel afmarkaður og persónurnar eru bæði áhugaverðar og skemmtilegar.
Klassískt bókmenntaverk
Ég las Hobbitann í fyrsta sinn í ensku í menntaskóla og það var hápunkturinn af lestrarbókunum það árið. Ég veit ekki hvort ennþá er verið að kenna hana í menntaskóla en ég vona það innilega. Uppáhalds kaflinn minn heitir Gátur í myrkri en þar fara Bilbó og Gollrir með gátur í leik sem er upp á líf og dauða. Þegar ég las bókina fyrst þá spændi ég svo hratt í gegnum kaflann að ég þurfti að byrja upp á nýtt og lesa hann aftur til að passa að ég hefði ekki misst af neinu. Fyrir þá sem njóta þess að lesa ævintýri þá er þetta saga sem skilur mann eftir með góða tilfinningu og þörf til að byrja strax á næstu ævintýrabók.
Samkomubann undanfarinna vikna hefur dregið fram minn innri hobbita, ef svo má að orði komast, enda hef ég eytt mestum tíma heima í rólegheitunum með nægan mat við höndina og gengið berfætt um íbúðina. Hobbitinn er alger klassík og eitt af meistaraverkum J.R.R Tolkien. Hún er einstök og eiginlega skyldulesning enda ein af ástsælustu bókum síðustu aldar. Ég skemmti mér alltaf jafnvel hvort sem ég er að lesa bókina eða horfa á bíómyndirnar. Samt verð að segja að eins skemmtilegt og það er að sjá þetta ævintýri lifna við á hvíta tjaldinu þá finnst mér bókin betri.