Vísindaskáldsögur fyrir börn eru ekki á hverju strái. Að minnsta kosti ekki á íslensku. En þó hefur ein serían ratað á íslenska tungu, þökk sé Erlu E. Völudóttur og bókaútgáfunni Bókabeitunni. Serían er Kepler62 eftir rithöfundana Timo Parvela og Bjørn Sortland og myndhöfundinn Pasi Pitkänen. Fjallað var um fyrstu þrjár bækurnar í Lestrarklefanum árið 2018, skömmu eftir að þriðja bókin kom út. Parvela og Sortland eru báðir kennarar að mennt en lögðu krítina frá sér og fóru að skrifa barnabækur eftir að hafa sinnt kennslu í þó nokkur ár. Báðir hafa sent frá sér ógrynni af barnabókum sem hafa vakið mikla athygli í heimalöndum þeirra; Finnlandi og Noregi. Pitkänen er helst þekktur fyrir teikningar sínar fyrir fyrirtækið Rovio, en hann myndskreytir bækur um Angry Birds.

Fyrstu þrjár bækurnar heilluðu strax.

Hörkuspennandi dystópía

En aftur að vísindaskáldsögunum. Fyrir tveimur árum kynntumst við mæðginin Kepler62 og kynnin voru ást við fyrstu sýn. Sá ungi var mótþróafullur til lesturs, vildi frekar gera hvað sem er annað, en Kepler62 sýndi honum fram á að lestur getur verið skemmtilegur ef rétta bókin er til staðar.

Bækurnar gerast í fjarlægri framtíð þegar mennirnir hafa gengið duglega á allar auðlindir jarðar. Allt er komið í þrot og mannkynið berst í bökkum. Yfir öllu hangir þrúgandi nærvera hinnar sameiginlegu Ríkisstjónar. En tölvuleikur sem á að vera ósigrandi gengur á milli barna. Bræðurnir Ari og Jonni komast yfir leikinn, sigra hann og þá upphefst dularfull atburðarrás sem endar í Area 51 í Bandaríkjunum þar sem þeir kynnast öðrum börnum sem líka sigurðu leikinn. Öll börnin eru útvalin til þess að fara til sólkerfisins Kepler62. Þau eru síðasta von mannskyns. Sjónarhorn bókanna skiptist svo á milli Ara og Jonna annars vegar og Maríu hins vegar.

En það er ekki allt eins og það sýnist. Ferðin til Kepler reynist erfið. Þótt plánetan sé lík jörðinni er ýmislegt sem er mjög frábrugðið og þegar kemur í ljós að líf er á Kepler62 fer allt í háaloft. Hvort á að treysta Hvíslurunum eða Gnámunum? Hver er leynifarþeginn? Má treysta Ólivíu?

Mikið myndskreyttar

Bækurnar eru gríðarlega dularfullar og spennandi. Lesandanum fær nær aldrei allar upplýsingarnar í einu, myndirnar tala sterkt og segja ýmislegt sem textinn segir ekki. Andrúmsloftið í bókinni er spennuþrungið og lesandinn les hraðar af ákafa til að komast að svörunum við öllum spurningunum sem brenna á honum. Myndir Pitkänen skapa heilarmynd af spennunni og örvæntingunni sem krakkarnir í sögunni þurfa að ganga í gegnum. Myndirnar eru í raun það margar í bókunum að stundum eru þær eins og myndasögur. Hver einasta bók endar mjög spennandi. Það er eiginlega ógerningur að halda ekki áfram strax á næstu bók og ég veit til þess að krakkar sem lesa bókina keppast um að komast í næstu. Það var mjög erfitt að bíða eftir útgáfu bókanna, en Bókabeitan kom þeim þó út hratt og örugglega.

Það er frískandi að fá bækur af þessari tegund á barnabókamarkaðinn. Þær eru ekki hræddar við að ofbjóða krökkum, það er svolítið ofbeldi í þeim (þó alls ekki mikið), krakkarnir lenda í raunverulegri lífshættu, sumir deyja. Þetta er hinn harði raunveruleiki, eða eins raunverulegur og hann getur orðið í dystópískri vísindaskáldsögu. Það er þó alltaf von og bjartsýni og einhvern veginn hefur lesandinn alltaf á tilfinningunni að hið góða muni sigra að lokum. Myndskreytingin í bókinni er svo af allt öðrum toga en við megum venjast úr íslenskri útgáfu. Þær eru margar, segja söguna til jafns við textann og bókin er prentuð í lit. Það er vel lagt í þessar bækur.

Næsta sería?

Fyrsta serían af Kepler62 er sex bækur og þær hafa allar verið þýddar núna. Vonandi seljast þær nægilega vel til að bókaútgefandinn sjái sér hag í því að þýða þessar fimm bækur sem komnar eru út í næstu seríu. Því saga Ara, Jonna og Maríu er ekki búin. Hvað gerist næst á Kepler62?

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...