Rithornið: Eyja

Eyja

Eftir Jennýju Kolsöe

 

Hún hét Eyja, konan sem fikraði sig eftir illa lýstri götunni í átt að bryggjunni. Það var haustnótt, dimmt yfir bænum og tunglið óð í skýjum.
Hún var klædd svartri ökklasíðri ullarkápu með svarta leðurhanska og svartan ullarklút bundin þétt um höfuðið með stórum hnút undir hökunni. Höfuð hennar ofurlítið álútt eins og til að sjá fram fyrir hnútinn undir hökunni.
Axlirnar signar og handleggirnir hengu máttleysislega niður með síðunum eins og viljalaus verkfæri.
Augu hennar leituðu tánna á svörtu leðurstígvélunum sem gægðust fram undan kápunni við hvert skref, hægri, vinstri, hægri, vinstri, hægri vinstri.
Í hvert skipti sem skótá birtist létti henni. Hún óttaðist að líkamsminnið hætti að virka og þá stæði hún eins og saltstólpi á miðri götu.
Týnd og myrkrinu gefin.

Hugur hennar var orðin dimmur og þurr sem eyðimörk og hver hugsun sem þangað leitaði varð sem stjarna á himnafestingu eitt augnablik.
En svo kom hið óumflýjanlega.
Stjörnuhrapið!
Stórkostlegt stjörnuhrap með neistaslóð sem eyddi og brenndi allt sem á vegi þess varð.
Þannig söfnuðust örin upp í heila hennar.
Svarthol sem allt gleyptu. Engar hugsanir geta fest rætur á svona dimmum og ófrjóum stað.
Hugsanir þurfa mjúkan vef, rakan og frjóan svo þeim líði vel og fari ekki burt.
Inní henni var þungur grámi, tálmi sem lét öll skilaboð misfarast.

Þegar hún vaknaði eftir síðdegisblundinn var hún með kristaltæra hugsun og hún hélt dauðahaldi í hana. Andaði ótt og títt grunna öndun svo ekkert raskaðist. Nú var tækifærið og ekkert mátti fara úrskeiðis.
Hún skildi eftir bréf til dóttur sinnar. Fallegt bréf um ást og sorg. Hún sagði henni að í dimmunni finnist ekkert, þar væri ekkert ljós og þaðan rataði engin til baka.
Örin sáu fyrir því, þau voru vegvísir villunnar. Hún hafði séð mömmu sína færast inní myrkrið og verða tóma, ljóslausa, algjörlega myrkvaða eins og borg þar sem stríð hefur geisað.

Hún horfði einbeitt niður fyrir fætur sér. Hægri, vinstri, hægri, vinstri.

Skóhljóðið breyttist þegar trébryggjan tók við, varð holara, en hún lagði enga merkingu í það, fetaði sig bara áfram skref fyrir skref.
Það dró fyrir tunglið og myrkrið varð algjört, skriðhljóð skrefa hennar og öldugjálfur var það eina sem heyrðist.
Svo staðnæmdist hún, stóð ofurstillt í nokkur augnablik eins og hún væri að hugsa sinn gang. En svo héldu fætur hennar áfram göngunni. Hægri, vinstri, hægri, vinstri.

Um leið og ískaldur sjórinn umlukti hana kviknaði á fleiri skilningarvitum. Hún leit upp þaðan sem hún flaut á sjónum og sá tunglið birtast. Eitt augnablik datt henni í hug að troða marvaðann, en sú hugsun varð að stjörnuhrapi.
Þykk ullarkápan lagðist þétt að henni. Þung og blaut umvafði hún hana eins og leg móður. Ullarklúturinn lá votur og mjúkur við vanga hennar og smá saman dró þessi kaldi heimur hana niður og hún fagnaði. Fangaði því sjá tunglljósið brjóta sér leið í gegnum sjóinn og inn í vitund hennar og kyssa hana blíðlega.

[hr gap=“30″]

 

Jenný Kolsöe er höfundur vinsælu bókanna um Ömmu óþekku og Fanneyju Þóru, og svo Afa sterka og Arons Magna, sem lenda í allskonar ævintýrum á Íslandi. Tröll og álfar koma þar við sögu í báðum seríum.

Jenný er gift og orðin amma sem hún er skæslega ánægð með.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...