Afi sterki og skrímslin í Kleifarvatni

Það er áskorun að finna bækur sem vekja áhuga hjá ungum lesendum. Það getur verið leiðigjarnt að lesa stöðugt algjört léttmeti án söguþráðs. Því fylgir viss léttir þegar barnið kemst yfir erfiðasta hjallann í lestrarnáminu og getur farið að lesa bækur sem eru ögn meiri áskorun og með safaríkum söguþræði. Þó verður að gæta þess að bókin sé ekki of flókin.

Áður hefur verið fjallað um bækur úr Ljósaseríu Bókabeitunnar hér á Lestrarklefanum og ríkt hefur almenn ánægja með þá útgáfu. Hægt að skrá börnin í áskrift að bókum úr Ljósaseríunni, nokkuð sem ég mæli heilshugar með fyrir unga lestrarhesta. Bækurnar eru miklir gæðagripir, vandaðar, fallegar, spennandi og hæfilega þungar fyrir þau börn sem þrá eitthvað ögn safaríkara að lesa. Bækur úr Ljósaseríunni er mjög auðvelt að lesa til skiptis eina málsgrein í einu – barnið les eina og foreldri næstu.

Vorum límd við síðurnar

Jenný K. Kolsöe skrifar sögurnar um Afa sterka  og Ömmu óþekku og Bergrún Íris Sævarsdóttir myndskreytir. Í bókunum um Afa sterka fara afi og Aron Magni og lenda í ævintýrum saman. Þriðja bókin úr þeirri seríu er Afi sterki og skrímslin í Kleifarvatni, þar sem afi og Aron Magni fara saman í útilegu á Bedfordinum að Kleifarvatni. Þar lenda þeir í jarðskjálfta sem kemur öllu stöðuvatninu á ferð og flug. Aron Magni drukknar nærri en það versta af öllu er að afi fótbrotnar og ógnvænleg skrímsli úr Kleifarvatni ógna tilveru langfeðganna.

Nærri hver einasti kafli býr yfir svo æsilegum endi að það er ómögulegt að hætta í miðri bók og líklega er það ætlun Jennýar – að halda barninu föstu við söguna. Og henni tókst það svo sannarlega, því það var ómögulegt að hætta að lesa. Hvorki ég né sonurinn vildum hætta að lesa og áður en við vissum af vorum við búin með bókina og komið langt fram yfir háttatíma.

Það sem vakti athygli mína í bókinni er hve útsjónasamur Aron Magni þurfti að vera. Hann var hræddur, en líkt og þegar fólk lendir í erfiðum aðstæðum þá þurfti hann að takast á við erfiðleikana og óttann. Þótt maður gráti og er hræddur þá er hægt að vera hugrakkur og standa uppi sem hetjan í lok dags. Það er ágætis boðskapur í bók. Þá geta börnin glöggvað sig ögn á skyndihjálp í bókinni og hver veit nema einhver börn verði að björgunarsveitarfólki eða lögregluþjónum í framtíðinni vegna áhuga sem þessi bók kveikti.

 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...