New York! New York! eftir Stefán Jón Hafstein kom út árið 1993 og veitir lesendum einstaka innsýn í ys og þys í lífi Kristinns Jóns Guðmundssonar ólöglegs innflytjenda og sendils í stóra eplinu á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.
Kristinn Jón flutti til New York árið 1986 í leit að ævintýrum og snéri ekki aftur til Íslands fyrr en þrjátíu árum síðar. Bakgrunnur bókarinnar er sá að Kristinn Jón rakst á Stefán Jón Hafstein úti á götu í stórborginni árið 1987 og hittust þeir af og til um vorið sama ár. Fimm árum síðar barst Stefáni Jóni bréf frá Kristni Jón sem hann kallaði Ameríkuannál sinn. Stefán Jón var svo uppnuminn af frásögn Kristins Jóns að hann fór til New York til að kynna sér líf hans þar og skrifaði svo bókina í kringum Ameríkuannálinn.

Dópistar, spámenn, betlarar og guðsbörn í stóra eplinu

Fyrstu kaflar bókarinnar geyma frásögn Stefáns Jóns af hittingi þeirra Kristinns Jóns og ástæðu þess að bókin var skrifuð en síðan veitir hún innsýn inn í ákvörðun Kristinns Jóns að flytja til New York borgar og greinir frá helstu ævintýrunum á fyrstu árum hans þar. Kristinn Jón flutti yfir hafið aðeins 24 ára gamall þar sem honum hugnaðist ekki framtíðin á Íslandi. Hann lagði í hann til stóra eplisins með lítinn pening en mikla útþrá í farteskinu og bjó á gistiheimili í skuggahverfi og fór að vinna sem flugritadreifari og síðar sendill og lenti í ýmsum hrakföllum sem og ævintýrum. Það sem skín í gegnum bókina er hvað hann er góðhjartaður og vill allt fyrir samferðafólk sitt gera, en sumir íbúar í New York nýta sér það óspart og fær hann fljótt viðurnafnið Bankinn. Kristinn Jón er vinur allra og skreyta litríkar persónur blaðsíður bókarinnar, þeirra á meðal dópistar, spámenn, betlarar og guðsbörn.

Öðruvísi ævisaga

Bókin er ólík flestum ævisögum sem ég hef lesið sem spanna marga áratugi og stundum heilu æviskeið fólks. New York! New York! er í styttri kantinum og spannar innan við áratug í lifi Kristinns Jóns. Þetta er engu að síður ótrúleg bók en það sem mér þótti svo merkilegt við lestur bókarinnar var hvað Kristinn Jón varð fljótlega samþykktur meðal innfæddra, samferðafólk hans lýsir honum sem ekta New Yorkeri, og gefur því einstaka sýn í daglegt líf innfæddra í New York borg. Uppbygging bókarinnar er skemmtileg og öðruvísi; Kristinn Jón er einlægur í pistli sínum en einnig er mikill húmor í textanum hans, svo er oft gaman að bera saman lýsingar Kristinns Jóns úr annál sínum og svo upplifun Stefáns Jóns af sömu manneskju eða stað. Bókin er í senn saga Kristinns Jóns fyrstu árin í New York, ferðasaga um New York, og upplifun Stefáns Jóns af stóra eplinu og samferðafólki Kristinns Jóns. Persónulýsingarnar eru dásamlegar og eru ýmsar sannar sögur alveg hreint ótrúlegar. Það er mikill fókus á ástarlíf Kristinns Jóns í bókinni og hvernig hinar ýmsu konur, elskan hans María Pagan, nornin Miss Curry, næturdrottningin í Harlem Dionne og trúaða eiginkona hans, settu svip á það. Ég hefði þó viljað kynnast áhugamálum Kristinns Jóns og daglegu lífi í ennþá meira mæli.
New York! New York! er fljótlesin en ansi skemmtileg ferða/ævisaga. Við lok bókarinnar langaði mig til að lesa um hvað gerðist í lífi Kristinns Jóns næstu tvo áratugana í New York, en hann varð áfram ólöglegur innflytjandi þar þangað til árið 2016. Eflaust mun mörgum lesendum líða eins, Kristinn Jón var í viðtali í Kastljósinu við heimkomu en hér má lesa frétt tengda því sem veitir örlitla innsýn í það sem gerðist í lífi hans eftir útgáfu bókarinnar.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.