Bækurnar um Spæjarastofu Lalla og Maju eftir Martin Widmark og Helenu Willis eru núna orðnar sjö og nýjasta bókin sem hefur komið út á íslensku heitir Skólaráðgátan. Bækurnar eru gríðarlega vinsælar í heimalandinu Svíþjóð og hafa verið kvikmyndaðar og færðar yfir á leikhúsfjalirnar. Widmark er mjög afkastamikill barnabókahöfundur og Willis hefur myndlýst fjölda bóka og fengið mest lof fyrir myndlýsingarnar í bókunum um Lalla og Maju.

Alvarlegar ráðgátur

Í bókunum um Lalla og Maju leysa vinirnir ráðgátur sem oftar en ekki skilja lögregluyfirvöld eftir á gati. Lilja hefur áður skrifað um Múmíuráðgátuna sem kom út í desember árið 2018. Síðan þá hafa komið út þrjár nýjar bækur, Bíóráðgátan, Lestarráðgátan og Skólaráðgátan. Það má því treysta á að að komi út tvær Lalla og Maju bækur á íslensku á hverju ári. Þær eru orðnar nokkuð margar bækurnar á frummálinu og því má velta fyrir sér hvort ekki sé tilefni til að gefa þær örar út á íslenskum markaði, ekki síst vegna þess að íslensk börn eru mjög hrifin af bókunum og bíða spennt eftir næstu ráðgátu. Bækurnar eru léttlestrarbækur fyrir lesendur í fyrsta til fjórða bekk og það er hætta á að krakkarnir vaxi upp úr seríunni sé ekki nægt úrval af bókum fyrir þau. Að sjálfsögðu koma aðrar bækur sterkar inn, en krökkum finnst notalegt að geta lesið bókaseríu.

Christie fyrir byrjendur

Bækurnar eru í nær öllum tilvikum eins uppbyggðar. Lalli og Maja frétta af glæp eða lesa um ráðgátu í Víkurbæjarfréttum. Þau fara á staðinn til að rannsaka, hitta á lögreglustjórann sem er farinn að reiða sig töluvert á hina ungu spæjara. Því næst velta þau fyrir sér hver gæti hafa framið glæpinn og hver sé hvatninn á bak við hann. Oftar en ekki eru peningar í spilinu. Lalli og Maja rannsaka svo málið í þaula og komast að lausn gátunnar með skarpskyggni og góðum gáfum að vopni. Lalli og Maja eru nefnilega alveg afskaplega klárir og eftirtektarsamir krakkar. Í lok bókarinnar eru aðalpersónur sögunnar kallaðar saman eða glæpamaðurinn er leiddur í gildru. Síðustu kaflarnir eru alltaf mjög spennandi.

Myndlýsingarnar í bókunum eru mjög líflegar og persónurnar teiknaðar eins og staðalímyndir. Þannig eru Lalli og Maja gáfuleg, en lögreglustjórinn er svolítið feitur og kómískur. Glæpamennirnir eru þó sjaldnast glæpamannalegir, heldur minna sögurnar börn á að allir geta orðið svo örvæntingafullir að þeir leiðist út á glæpabrautina. Sekt hins seka kemur því oftar en ekki á óvart, ekki síst þar sem viðkomandi hefur áður logið upp í opið geðið á Lalla og Maju (ungum lesanda þótti lygarnar það allra versta sem glæpamaðurinn gerði).

Betra framboð, meiri lestur

Nýlega féll áhugi átta ára álitsgjafa Lestrarklefans á ráðgátubækur Lalla og Maju. Hann hefur lesið þær allar nema Múmíuráðgátuna og Bíóráðgátuna einfaldlega vegna þess að þær eru alltaf í útláni á bókasafninu. „Það er verst að það eru ekki til nógu margar bækur á bókasafninu,“ segir hann. Hann gefur þó bókunum góða einkunn og myndunum ekki síðri. „Ráðgáturnar eru svakalega spennandi og kaflarnir enda spennandi. Myndirnar eru mjög flottar. Þær eru skemmtilegar. Mér finnst samt eins og Lalli og Maja ættu að vera kanínur, þær líta þannig út í huganum mínum.“

Bækurnar eru léttlestrarbækur, skrifaðar á einföldu máli með stórum stöfum en inn á milli leynast flóknari og sérkennilegri orð sem álitsgjafi Lestrarklefans tekur eftir og flissar yfir en notar svo í setningu næsta dag. Þær eru því vel til þess fallnar að auka orðaforða, halda lesandanum vel og auka lestraráhuga. Myndlýsingarnar eru bráðskemmtilegar og mjög ríkulegar. Myndirnar eru vel fléttaðar inn í textann og hvergi er myndalaus síða, sem gerir lesturinn auðveldari og skemmtilegri.

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...