Í hendur mínar rataði lítil bók, fagurlega hönnuð og eitthvað svo viðkvæm að mér þótti næstum synd að opna hana og aflaga fullkomnar blaðsíðurnar. En ég gerði það samt, því hvers virði er bók ef maður getur ekki opnað hana og lesið? Smáa letrið eftir Lindu Vilhjálmsdóttur er sjöunda ljóðabók hennar. Linda fékk einróma lof gagnrýnenda fyrir ljóðabókina Frelsi sem kom út árið 2015 og hlaut nýverið “European Poet of Freedom” verðlaunin fyrir pólska þýðingu á þeirri bók. Án þess að vita mikið um ljóðabækur, þá grunar mig samt að Smáa letrið eigi eftir að vekja athygli í bókmenntaheiminum á næstu vikum. 

Ég er ekki vön því að lesa ljóð, hef satt að segja sjaldan gert tilraunir með það. En þarna var komin í hendur mínar þessi fallega, og einhvern veginn viðkvæma, bók. Svo ég lét vaða. Strax á fyrstu síðum bókarinnar náði Linda að fanga mig með orðum sínum. Ljóðin eru ótrúlega feminísk og beitt. Þau lýsa óréttlæti, viðkvæmni, móðurástinni en fyrst og fremst styrk og þrautseigju kvenna fyrr og nú. Linda fer vítt og breytt í sögu íslenskra kvenna og nær að fylla lesanda af eldimóði og baráttugleði. Stundum fylltist ég samt vonleysis yfir annarri endavitleysi sem Linda lýsir á sinn einstaka hátt.

Og þegar bókin var búin, lagði ég hana varlega frá mér. Eins viðkvæm og hún er, en samt full af kvenlegum byltingarljóðum. Eins og kona. Viðkvæm en samt svo sterk. Ég var uppfull af nýjum hugsunum um konur, formæður mínar,  og vissunni um að ég muni lesa fleiri ljóð á minni ævi.

 

sé langömmur mínar fjórar

á flækingi um landið ævina á enda

með börnin sín öll

 

þau sem þær áttu

þau sem þær misstu

og þau sem þær þurftu að sleppa af hendinni

 

(Höf. Linda Vilhjálmsdóttir)

Úr bókinni Smáa letrið (2018)

 

Lestu þetta næst

Drekar, dauði og erótík

Drekar, dauði og erótík

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man...

Bækur inn um lúgu

Bækur inn um lúgu

Það er eitthvað fallegt við að fá póstsendingu inn um lúguna. Þá meina ég ekki auglýsingabæklinga...

Það er húmor í lauginni

Það er húmor í lauginni

Sund í Tjarnarbíó Klórlyktin gýs upp þegar maður gengur í salinn og ber augum glæsilega sundlaug...

Bumba er best

Bumba er best

Bekkurinn minn er sería barnabóka sem gerast í íslenskum veruleika eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur og...