Stutt smásagnasafn í sumarfríið

Smásagnasafnið Samhengi hlutanna eftir Eygló Jónsdóttur kom út hjá Björt bókaútgáfu í byrjun sumars. Bókin er frekar stutt, aðeins 112 blaðsíður. Eygló hefur áður gefið út tvær ljóðabækur og barnabókina Ljóti jólasveinninn (2017). Þetta er fyrsta smásagnasafn Eyglóar en hún starfar sem framhaldsskólakennari og hefur lokið meistaranámi í ritlist.

Óvænt lesning

Bókin kom mér á óvart, af einhverjum ástæðum bjóst ég við hversdagslegum og raunsæjum smásögum en sögurnar voru súrrealískar og tóku óvæntar stefnur. Það eru aðeins fimm sögur í bókinni og svo fjórar örsögur, eða þættir, úr lífi Jónasar. Sameiginleg þemu sem má sjá eru vinskapur kvenna, áráttukenndar hugsanir, hörmungar og skáldskaparlistin.

Í fyrstu sögu bókarinnar „Glæpasaga í E-dúr“ ferðast lesandinn inn í höfuð Sigríðar sem fer í sumarbústað með vinkonum sínum. Sigríður er að berjast við myrkar og kvíðablandnar hugsanir og er sannfærð um að hugsanir hennar valdi öllum þeim ógöngum sem henda þær í bústaðnum. Hugsanir Sigríðar eru myrkar og ókennilegar, eins og þegar vinkona hennar er að skera salat: „Hvað ef hún missir vitið og æðir um með hnífinn og við þurfum að berjast fyrir lífi okkar og ég rétt næ að bjarga Jarþrúði frá bráðum bana með því að stökkva fyrir hnífslagið og fórna lífi mínu … Nei, nei, nei, svona má ég ekki hugsa.“ (bls. 16) Sagan endar á dramatískan hátt og slær sterkan tón fyrir bókina.

Framúrstefnulegar sögur

Í sögunni „Bókabragð“ kynnumst við einnig konu sem á við andleg vandamál að stríða. Hún virðist hafa áráttu- og þráhyggjuröskun en hún vill finna bók til að lesa fyrir bókaklúbbinn sem hún og vinkonur hennar ætla að stofna. En bókum sem er ekki í raðað í rétta litaröð eru henni ekki að skapi. Sagan tekur óvænta og furðulega stefnu, konan læsist inni á bókasafni og byrjar að endurraða bókunum í litaröð og bragða á þeim.

Hinar sögur bókarinnar fjalla einnig um einhvers konar geðveiki og óstabílt fólk; kona missir vitið í jarðarför, kona sem er við það að ganga í sjóinn hittir á stórskáld og kemst að tilgangi skáldskaparins, og vinahópur kemur upp um grunsamlegan forstjóra á heilsuhæli. Síðustu þættirnir sem fjalla um líf Jónasar eru stuttar og framúrstefnulegar dæmisögur. Heildarmynd safnsins er góð og sögurnar passa vel saman. Ég hefði þó viljað lengri bók.

 

Samhengi hlutanna er stutt lesning sem fer með lesandann á óvæntar slóðir og vekur kátínu. Sögurnar eru kómískar og innihalda töluvert af gálgahúmor. Smásagnasafnið hefði mátt vera mun lengra og hefði verið gaman að fá að sjá nokkrar lengri sögur, en allar smásögurnar eru fremur stuttar.

 

 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...