Tilfinningaþrungin og persónuleg saga

Eftir endalokin eftir Clare Mackintosh kom nýverið út í þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur. Bókin gerist í Birmingham á Englandi og segir frá hjónunum Max og Pip Adams sem eru samhent og samkvæmt flestum mælikvörðum hamingjusamlega gift. Ungur sonur þeirra, Dylan, er þungt haldinn af langvarandi veikindum og þegar þau þurfa að taka ákvörðun um líf hans eru þau í fyrsta sinn ósammála um hvaða leið skuli fara.

Þungt umræðuefni

Ég las spennusögu Mackintosh Mín sök  í fyrra án þess að vita neitt um höfund eða bókina og var mjög hrifin af henni. Ég var því spennt að lesa það nýjasta úr smiðju höfundarins. Bókin hefst á réttarhöldum þar sem verið er að úrskurða um framtíð Dylan, hvort krabbameinsmeðferð verði haldið áfram eða hvort hann fari á líknandi meðferð, lesandinn veit því að á einhverjum tímapunkti leiðir sagan lesandann þangað. Næstu kaflar eru svo í hefðbundinni tímalínu að segja frá málsatvikum upp að þessum tímapunkti. Þá kynnist lesandinn Pip og Max og hefur rithöfundurinn lagt mikið í persónusköpun þeirra og baksögu. Bókin er tilfinningaþrungin og ef til vill ekki klassísk sumarlesning þar sem um ansi sorglegt viðfangsefni er að ræða. Einn gagnrýnandi sagði að aðdáendur Jodi Picoult (sem skrifaði meðal annars My Sister’s Keeper myndu hrífast af bókinni og tek ég undir það þar sem um þungt umræðuefni er að ræða og kaflarnir í bókinni eru sagðir frá mismunandi sjónarhornum þeirra Max, Pip og Lailu (lækni Dylan).

Kemur á óvart í seinnihlutanum

Heilt yfir er bókin góð saga um sorgarferli og hvað geta komið upp erfiðar aðstæður í hjónabandi. Mér fannst áhugavert að fá mismunandi sjónarhorn og þar á meðal læknisins, en fannst stundum eins og væri verið að eyða púðri í smáatriði eins og ástarlíf læknisins. Hins vegar kom fyrir að slík smáatriði kæmu við sögu síðar. Ég átti ansi erfitt í fyrstu með að festast í lestrinum sem var mjög sorglegur og þegar ég var hálfnuð með bókina fannst mér hún orðin ansi flöt en þá kemur höfundur lesandanum heldur betur á óvart með framvindu sögunnar. Án þess að fara allt of mikið út í smáatriðin náði seinni helmingur bókarinnar mér betur en sá fyrri en hann sýnir hvað lífið getur farið í mismunandi áttir en á sama tíma hvað sumt er skrifað í skýin. Mér fannst fyrri partur bókarinnar ansi ólíkur stílnum í Mín sök og því fannst mér ég loksins vera komin í ritheim Mackintosh þegar í ljós kemur í seinni hluta bókarinnar hvernig hún ætlar að segja þessa sögu.

Persónuleg bók

Ég vissi lítið sem ekkert um bókina þegar ég hóf lestur og því kom það mér á óvart að í eftirmálanum sagði höfundur frá því að hún byggði bókina á persónulegri reynslu, en eftir á að hyggja voru lýsingarnar á ferlinu og tilfinningum mjög raunsæjar. Það jók líka virðingu mína fyrir því hvernig Mackintosh lauk sögunni enda undirstrikaði það hve erfitt er að taka svona ákvarðanir. Bókin hefði mátt vera aðeins styttri að mínu mati en ég tel að aðdáendur Jodi Picoult og tilfinningaþrunginna bóka geti svo sannarlega notið þess að lesa þessa persónulegu bók.

Lestu þetta næst

Íslenska kakóköltið

Íslenska kakóköltið

Guðrún Brjánsdóttir kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2020 þegar hún vann handritasamkeppni...

Of flöt frásögn

Of flöt frásögn

Violeta er nýjasta skáldsaga Isabel Allende sem kom út á síðasta ári og stuttu síðar í íslenskri...

Blæðir þér?

Blæðir þér?

Í kvöld heiti ég Sara. Pabbi minn, sem kom með mér í leikhús, heitir líka Sara. Sama gildir um...

Er hægt að vera svona?

Er hægt að vera svona?

Nú í mars mánuði kom út hjá bókaútgáfunni Björt bókin Verity eftir Colleen Hoover í íslenskri...