Hundurinn með hattinn – Ráðgátan við herrasetrið

Guðni Líndal Benediktsson sendi frá sér aðra bók um spæjarahundinn Spora og aðstoðarköttinn hans Tása nú í lok sumars. Hundurinn með hattinn 2 er beint framhald af ævintýrum Spora og Tása sem lesendur fengu að kynnast í fyrri bókinni Hundurinn með hattinn. Líkt og í fyrri bókinni myndlýsir Anna Baquero bókina og hún er gefin út í Ljósaseríu Bókabeitunnar.

Ráðgáta við herrasetrið

Spora og Tása dauðleiðist. Engin ráðgáta hefur komið upp í langan tíma og Spori og Tási eru eiginlega orðnir vissir um að allar ráðgátur séu endanlega leystar. Þá kemur Gulla gæs, mesta slettireka bæjarins, og tilkynnir þeim að glæpur hafi verið framinn á bænum Staðarhúsum skammt frá. Gulla gæs segir þeim að mjóhundur sé grunaður um að hafa hrint púðluhundinum Prinsi ofan í straumharða á. Púðluhundurinn var ósyndur og drukknaði. Það hefur því verið framið morð og Spori er ekki lengi að setja upp hattinn og halda að Staðarhúsum með Tása til að rannsaka málið.

Á herragarðinum er ekkert sem sýnist. Spori og Tási þurfa að yfirheyra öll dýr bæjarins; snaróða geit, risastóran hest, drýgindalegan kött, hinn grunaða mjóhund og að sjálfsögðu systur hins myrta – Perlu. Það kemur fljótt í ljós að allir höfðu horn í síðu Prins, sem var síður en svo huggulegur við samferðadýr sín. Margir höfðu tilefni til að losa sig við Prins og því eru margir grunaðir. En með klækjum og kunnáttu leysir Spori málið og afhjúpar lausn ráðgátunnar með alla grunaða í einu herbergi – rétt eins og í sögum Sir Arthur Conan Doyle og Agöthu Christie.

Húmor í bland við grafalvarlega atburði

Guðni hefur skemmtilegan stíl og skapar fyndnar persónur sem fanga krakka við lesturinn. Spurningin um hver myrti Prins er ekki síður grípandi. Lesendurnir einfaldlega verða að komast að því hver hrinti Prins í ána. Það verður svo fljótt auðsýnilegt að nær öll dýrin ljúga einhverju, sem er ákveðið sjokk fyrir unga lesendur. „En það er svolítið eins og það er í raunveruleikanum,“ sagði einn lesandi eftir að hafa lesið bókina. Sami lesandi sagði líka að endirinn á bókinni hafi komið honum duglega á óvart. Glæpamaðurinn var allt annar en hann grunaði. Hann bar bókinni líka góða sögu, sagði hana spennandi, skemmtilega og fyndna.

Guðni hefur einstakt lag á að koma húmor að í bókunum sínum. Öðrum lesanda var tíðrætt um hve fyndin Gulla gæs var þar sem hún blaðraði frá sér allt vit og öllum leyndarmálum annarra dýra. Hann gat líka hlegið lengi yfir einstökum vinskap Eyjólfs geitar og Léttis hests. Það er gott jafnvægi á milli alvarleika og húmors. Guðni nikkar í átt til Sir Conan Doyle í bókinni. Spori er auðvitað með hatt svipaðan einkennishatti Sherlock Holmes. Söguþráður bókarinninnar minnir líka örlítið á The Hound of the Baskervilles. Í báðum sögum hefur verið framið morð, hundur er hinn grunaði og það eru spor sem eru helstu vísbendingarnar. En það lýkur samanburðinum.

Hitti í mark

Myndlýsing Önnu Baquero er bráðskemmtileg og einnig hún nikkar örlítið til Sir Conan Doyle í teikninum sínum, eins og sést vel á kápu bókarinnar. Setrið minnir óneitanlega á stóran enskan herragarð. Það er mikill húmor í teikningum hennar sem ljær bókinni léttari blæ, þótt umræðuefnið sé grafalvarlegt. Ég hefði viljað sjá skemmtilegri titil á bókinni. Hugsanlega hefði verið hægt að bæta við undirtitli, mér finnst ósköp óspennandi að hafa tölustaf í titli bókar.

Hundurinn með hattinn 2 er bráðskemmtileg bók um mjög dularfulla og hræðilega atburði. Hún er grípandi, skrifuð á skemmtilegu máli og myndlýst á kíminn hátt. Báðir álitsgjafar Lestrarklefans gáfu bókinni góða einkunn.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...