Hundurinn með hattinn er fyrsta bókin sem gefin er út undir formerkjum nýs áskriftarklúbbs fyrir börn, Ljósaseríuklúbbsins á vegum Bókabeitunnar. Bókin er skrifuð af Guðna Líndal Benediktssyni og myndskreytt af Önnu Baquero. Það sem einkennir bækur úr Ljósaseríunni er leikandi léttur texti, gott línubil, stærri stafir og stuttar málsgreinar. Allt gerir þetta nýjum lesendum auðveldara fyrir að sökkva sér í bókina og fyllast ekki örvæntingu yfir stórum textahlemmum. Hundurinn með hattinn er hér engin undantekning.

Spori er klárasti hundurinn í hverfinu. Hann er nokkurs konar Sherlock Holmes gæludýranna. Bókin byrjar á því að fylgja eftir Tása, litlum kettlingi sem gjörsamlega dýrkar Spora. Tási er á leiðinni á fund sem Spori hefur kallað til, þar sem hann ætlar að afhjúpa sökudólgana í nýjasta sakamálinu. Svolítið eins og Poirot gerir iðulega í lok hvers sakamáls. Tási veit að Spori getur leyst öll sakamál! Spori veit það hins vegar ekki og þegar hann tapar hattinum sínum missir hann móðinn. Spori heldur að gáfurnar búi í hattinum, en með hjálp Tása reynir hann að komast til botns í  einni flóknustu og snúnustu gátu sem komið hefur upp í hverfinu.

Guðni er með frábæran húmor og hann skín vel í gegn í sögunni um Spora og Tása. Myndir Baquero ýta svo enn frekar undir grínið (uppáhaldsmyndin mín er af chihuahua og pug í sápubaði). En það er alvarlegri undirtónn í sögunni líka. Bæði Tási og Spori þurfa að takast á við erfiðleika í gegnum lausn gátunnar. Tási fæddist með snúna löpp og á því stundum erfitt með að klifra og er strítt af því og Spori heldur að hann sé einskis nýtur án hattsins. Boðskapurinn í bókinni er sá að maður á að treysta og trúa á sjálfan sig. Við getum oft miklu meira en við höldum.

Okkur mæðginum fannst sagan skemmtileg. Ráðgátan sem þarf að leysa er stór og mjög dularfull: Hvernig gátu öll rúm, teppi, tuskudýr og hattar horfið á sömu nóttu á sama tíma!? Ofan á þetta bætist svo dularfullt hvarf eldri tíkur. Persónurnar í sögunum (hundar, kettir, refir, mýs, fuglar) eru allar stórskemmtilegar. Í sérstöku uppáhaldi er yogaiðkandi tík, lærimeistari Spora, sem uppfull af æðri visku segir Tása einmitt að maður þurfi að treysta á sjálfan sig.

Að sjálfsögðu komast Spori og Tási til botns í ráðgátunni, en lausnin kemur duglega á óvart. “Ég hélt ég væri búinn að leysa gátuna strax í byrjun, en svo var það ekki lausnin. Bókin er með góða ráðgátu,” segir Theodór Leví, 9 ára, um bókina.

Hundurinn með hattinn er bráðskemmtileg bók, uppfull af húmor, fyndnum persónum, óvæntum fléttum og góðum boðskap. Hún hentar vel börnum frá 5-10.

 

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...