Grípandi og óvenju opinská ævisaga

Eins og við fjölluðum um á dögunum eru bækur sem verða í jólabókaflóðinu í ár að koma úr prentun og hægt að fara að kynna sér væntanlega titla. Sum okkar eru þó ennþá að lesa sig í gegnum bækurnar sem stóðu upp úr í jólabókaflóði síðasta árs og lauk ég á dögunum við eina þeirra, Óstýriláta mamma mín … og ég. Ég vissi lítið um þessa bók og höfund hennar þegar ég tók hana upp og ákvað að gefa henni séns. Bókin kom mér skemmtilega á óvart, bæði efnistökin og hvað hún var spennandi. Ég las hana nánast í einum rykk og get ekki annað en dáðst af þeim heiðarleika sem umlykur efnið, það er sjaldan sem ævisagnaritari, hvað þá barn manneskjunar sem um ræðir, getur skrifað um persónuna og samband sitt við hana af slíkri einlægni og á jafn opinskáan máta.

Húsavík, New York og ástandið

Óstýriláta mamma mín … og ég eftir Sæunni Kjartansdóttur sálgreini kom út á síðasta ári. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar Sæunn hér um móður sína, Ástu Bjarnadóttur, og samband þeirra. Ásta var níunda í röð fimmtán systkina, fædd 1922 og dáin 2007. Hún lifði því á umbrotatímum hér á landi og var jafnframt á undan sinni samtíð og var litríkur persónuleiki sem átti viðburðarríka ævi. Hún var fædd og uppalin á Húsavík en fór ung til Reykjavíkur. Átján ára gömul eignaðist hún barn utan hjónabands sem hún fól foreldrunum og fór aftur til höfuðborgarinnar þar sem hún tók þátt í „ástandinu.“ Hún elti kærasta sinn, 30 árum eldri ofursta til New York og dvaldist þar um tíma. Seinna giftist hún Íslendingi sem einnig var í Bandaríkjunum og flutti með honum heim og stofnaði fjölskyldu og heimili með honum. Hún varð þó ung ekkja með fjórar dætur og gekk brösulega að takast á við afleiðingar þess og ábyrgðina á dætrum sínum; hún glímdi bæði við alkóhólisma og lenti iðulega upp á kant við þá sem þótti vænt um hana.

Mikilvæg úrvinnsla

Þekkjandi ekki nafn Ástu og aðeins með þá vitneskju að Sæunn Kjartansdóttir væri sálgreinir sem skrifaði oft um börn í fjölmiðlum velti ég því fyrir mér hvernig þessi bók kom til. En einmitt því svarar Sæunn strax í upphafi bókarinnar í kafla rituðum árið 2018 þar sem hún fer yfir hvers vegna hún hafi skrifaði sögu þeirra mæðgna. Hún nefnir að ritunin hafi verið mikilvæg úrvinnsla fyrir sig, hún hafi viljað halda minningu mömmu sinnar á lífi og loks hafi verið „löngun til að segja sögu af áhugaverðri manneskju, hvernig umhverfið mótaði hana og hvernig bjargráð hennar unnu ýmist með henni eða á móti. Hvorki í einkalífi né starfi hef ég kynnst annarri manneskju jafn náið og mömmu.“ (bls. 9) Þessi opnun á bókinni dró mig inn í viðfangsefnið og gerði mig strax að forvitnum lesanda. Bókina byrjaði Sæunn að skrifa árið 2010 og lauk við árið 2014 en formálan skrifar hún ekki fyrr en árið 2018 og því er ljóst að hún tók sér dágóðan tíma í verkið. Það sést á lokaafurðinni en bókin er vandlega ígrunduð blanda af áhugaverðri ævisögu konu sem lifði sögulega tíma hér á landi, og sálgreiningu á Ástu, sem og sambandi þeirra Sæunnar.

Svelti sig í hel

Sæunn byrjar að segja frá lífi móður sinnar á dapurlegri stund árið 2007 þegar hún er 85 ára gömul og finnst hún ekki hafa neitt til að lifa fyrir lengur, hún ákveður að hætta að borða til þess að deyja. Á einlægan hátt lýsir Sæunn því að henni hafi ekki einungis fundist vit í þessu fyrir mömmu sína heldur henni til skelfingar fann hún sjálf til feginleika yfir þessu. Ég held ég hafi aldrei lesið ævisögu sem byrjar á svona erfiðum nótum, en upphafskaflarnir setja tóninn fyrir það sem koma skyldi á ævi Ástu. Næstu kaflar eru mun glaðlegri og þar fer Sæunn yfir ættartréð sitt og upp er dregin mynd af ungu og ævintýragjörnu Ástu sem þó fann alltaf fyrir minnimáttarkennd gagnvart systkinum sínum og sambandi þeirra við móður hennar. Þegar hún flytur ung til Reykjavíkur fer hún eins og margar jafnöldrur sínar í „ástandið.“

Mér fannst einna áhugaverðasti kafli bókarinnar óbirt viðtal við Ástu frá 1990 um þennan tíma þar sem enga skömm er að finna fyrir að hafa átt erlenda vonbiðla og kærasta heldur einmitt lýsingar á því hversu skemmtilegur þessi tími var.

Meðan maður nýtur þess að lesa um uppvöxt og ævintýri Ástu veit maður að handan við hornið eru erfiðir tímar og hélt Sæunn ekki aftur af sér að lýsa erfiðum stundum í bland við þær góðu í sambandi þeirra mæðgna sem og sambandi Ástu við hinar dætur sínar.

Heilt yfir er bókin einstök ævisaga sem í hnotskurn snýst um dóttur sem reynir að skilja móður sína. Bókin er vel sett upp, með dass af húmor í bland við erfiðar frásagnir og mér fannst færast mýkt yfir lýsingar Sæunnar á móður sinni þegar á leið, sérstaklega þegar Ásta lá sína löngu banalegu. Sæunni tekst að segja sögu móður sinnar og af þeirra sambandi á heiðarlegan og opinskáan hátt og er nærgöngul við sjálfan sig þegar hún kryfjar minngarnar. Ég held að þessi bók geti náð til flestra lesenda, nema þeirra sem alfarið eru á móti ævisögum, en ég held að hún geti sérstaklega höfðað til kvenna sem munu eflaust spegla samband sitt við mæður sínar á meðan á lestri stendur.

Sæunn fór í fjölmörg viðtöl í kringum útgáfu bókarinnar, og hér má sjá eitt þeirra við hana í Íslandi í dag

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...