Ný ljóðabók eftir Guðrúnu Hannesdóttur kom út hjá Partusi núna í haust. Bókin ber heitið Spegilsjónir og er áttunda ljóðabók Guðrúnar en hún vann Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2007. Einnig hefur hún gefið út fjölda barnabóka og vann Íslensku barnabókaverðlaunin árið 1996.

Orðin gaumgæfilega valin

Orðin eru það sem dregur lesandann inn í þessa ljóðabók. Þau eru valin gaumgæfilega, eru oft óvænt og óhefðbundin en textinn er á verður þessvegna tær og fallegur. Ljóðin eru fjölbreytt og umfjöllunarefnið vítt, því er líklegt að í bókinni munu ljóðaunnendur finna eitthvað sem talar til sín.

Náttúran spilar aðalhlutverk í mörgum ljóðunum og eru náttúrulýsingar Guðrúnar einstaklega fallegar. Loftslagsváin er henni einnig ofarlega í huga eins og má sjá í ljóðinu hér fyrir neðan:

ósamin ljóð um jökla

þeir hreyfðu sig svo ofurhægt
ég varaði mig ekki á því

hopuðu
skáskærir

varfærir

með létta byrði
sorfinna steina
frosin frjókorn
stjörnusalla

logandi sóleyjarblað

innan tíðar verður
ekkert eftir
nema fagurhvít tíbrá
í augum þínum

hvikul eftirmynd á himni
fegurri en nokkru ljóði

Spegilsjónir, bls. 20

Myndræn og töfrandi ljóð

Nákvæmar ljóðmyndir standa eftir í huga lesandans við lestur ljóðanna, eins og í ljóðinni erindi þar sem fylgst er með ferð loftbóla stíga upp af botni: „liðast upp lóðrétt / í hljóðlausri tindrandi röð / stækka þegar nær dregur yfirborðinu / rétt eins og þær eigi ákveðið erindi // springa síðan / með lágu undrandi hljóð / eins og deplað sé bláu barnsauga“ (bls. 22) Það er eitthvað töfrandi við þessa lýsingu og þá sérstaklega viðlíkinguna við bláa barnsaugað.

Í ljóðabókinni er aðeins eitt prósaljóð, M., en það vakti sérstaka athygli í samanburði við hin ljóðin þar sem þessi stíll hentar skáldinu einnig einstaklega vel: „getur líka með léttum leik falið meinfýsið glott sitt og jökulkaldar þagnir í ljúfum andardrætti þínum / falið sína draugfrosnu sál undir þínu meinlausa hversdagsgæfa fasi“ (bls. 35). Orðavalið stendur enn og aftur upp úr þar sem línur eins og „jökulkaldar þagnir“ og „draugfrosin sál“ vekja upp sterk viðbrögð og hugrenningartengsl.

„eitt alelda sekúndubrot“

fróm ósk fjallar um þá ósk skáldsins að „[dvelja] í kyrrðinni / eins og kínverskt ljóðskáld til forna“ en „ókyrrðin í höfðinu“ kemur í veg fyrir að skáldið ná einhverri hugarró. Skáldið rifjar að lokum upp sögu „af endalokum skálds / sem steyptist kófdrukkið / á höfuðið ofan í hafið / og drukknaði af einskærri löngun / til að faðma að sér spegilmynd mánans“ (bls. 28). En meira er fjallað um andlega líðan í ljóðabókinni, þar á meðal í ljóðinu elding þar sem ljóðmælandi þráir jafnvægi, að vera eðlileg manneskja: „því aðeins / að slægi niður í mig eldingu / gæti ég virst / birtingarmynd / heilsteyptrar manneskju / eitt alelda sekúndubrot“ (bls. 42)

Spegilsjónir er heillandi ljóðabók, einhverveginn töfrandi. Ljóðskáldið nær að draga lesandann inn í heim ljóðanna með fallegum, og stundum snúnum, myndum. Sum ljóðin náðu betur til mín en önnur vegna fjölbreytileika umfjöllunarefnisins en heilt yfir er þetta fáguð ljóðabók skrifuð af mikilli næmi.

Lestu þetta næst

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...

Gratíana fullorðnast

Gratíana fullorðnast

Benný Sif Ísleifsdóttir stimplaði sig rækilega inn á rithöfundasenuna á Íslandi við útgáfu fyrstu...

Héragerði yfir páskana

Héragerði yfir páskana

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er líklega best þekkt fyrir bráðfyndnar og beint-í-mark myndasögur. Til...

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin Teddi og Nanna eru ákaflega samheldin refasystkin og búa saman í Stóru borg, þar sem öll...

Edinborg í aðalhlutverki

Edinborg í aðalhlutverki

Nú er farið að líða að aðventunni og því tilvalið að taka því rólega, búa sér til heitt súkkulaði...