Draugabók, ljóðabók

Penni: Rebekka Sif Stefánsdóttir

Önnur ljóðabók Brynjólfs Þorsteinssonar er nú komin út hjá Unu útgáfuhúsi. Brynjólfur vann ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2018 og fylgdi sigrinum eftir með fyrstu ljóðabók sinni, Þetta er ekki bílastæði. 

Nýja bókin ber heitið Sonur grafarans og er draugalegt ljóðverk sem fylgir nokkrum persónum sem eru kynntar til leiks í upphafi bókar. Þær eru sonur grafarans, Mutter (móðirin), Grafarinn (faðirinn), Evfemía (skófla), Gestur og ekki meira né minna en níuhundruð níutíu og sjö draugar. Bókinni er skipt í þrjá hluta, „moldarstrákur“, „í veggjum bernskuheimilis“ og „eftir mál“.

Launfyndin ljóð

Þetta er einstök ljóðabók en í henni er leikrænt ívaf en sum ljóð eru sett upp eins og leiktextar og sviðsetning bókarinnar leiðir auðvitað hugann að leikriti. Ég hef ekki lesið ljóðabók á við þessa áður en mér finnst ljóðformið henta prýðisvel fyrir þessa draugasögu. Jafnvel svo vel að bókin varð hálfgjörður skemmtilestur en ljóðin eru launfyndin og oft full af háði: „það er mér ánægjuefni hversu mjög flugur sækjast / í augu mín // ég sem hélt að ljósið / væri slokknað“ (bls. 16) Annað dæmi má sjá í ljóðinu „VII“: „evfemía: / skófla föður míns // ++ fegurst kvenna ++ // þegar móðir mín dó /átti evfemía loksins innangent // í svefnherbergi föður míns“ (bls. 17) En það er klárlega kómískt að faðirinn, grafarinn, þyki skóflan sín fegurst kvenna og dvelji nú í rúmi hans líkt og elskhugi.

Ljóðmælandi er lofthræddur, en það er „jarðtenging / holumokstur“ sem róar hann því „á botninum / er ekki hægt að detta // niður“ (bls. 19) En þessi fyrsti hluti bókarinnar fjallar einmitt um uppvöxt moldarstráksins, son grafarans, eins og kom fram innan í sviga fyrir neðan titil kaflans: „(sonur gafarans vex úr grasi kirkjugarðs – mannast loks á einu kvöldi)“

Draugarnir tjá sig

Í næsta kafla hlustar sonur grafarnas „á mál drauga nætur nætur næturlangt“ og fá draugarnir rödd og segja sína sögu eins og sjá má í ljóðinu „Við draugarnir“: „lífaldur drauga er hundrað og tuttugu ár // nægur tími / til að gera ýmislegt // hrella gamlar ekkjur / hrekkja gömul hús“ (bls. 37) og svo framvegis. Kómíkin er aldrei langt frá en draugarnir vilja söðul á hús svo þeir geti „farið á bak / og riðið út // þar til sólin kemur upp / og svitinn bogar af þeim / móðir draugar / sliguð hús“ (bls. 41). Þeir þurfa ekki að fara til tannlæknis, „tennurnar í draugum eru hvítar / ekki gular: hvítar / eins og lök á langri snúru / og það er logn“ (bls. 50) en „draugar fá ekki smáskilaboð til áminningar / þeir þurfa ekki að setjast í flókinn leðurstól / og þeim er ekki illt í tannholdinu eftir á“. (bls. 50) Og auðvitað er því „gott að deyja“. (bls. 50)

Í lokakafla bókarinnar er stök sena á milli sonar grafarans og gestsins og tvö ljóð, en kaflinn markar endalok hins fyrrnefnda: „þegar // raddir drauganna / eru skóflur / sem moka holu / í son grafarans / sjáum við að hann er fullur af járnsmiðum / það boðar víst ógæfu að stíga á þá“ (bls. 72).

 

 

Heildarmynd bókarinnar er mjög góð og virkar hún sem heildstæð frásögn. Lesandinn hrífst inn í myrkan og kaldhæðin heim ljóðmælanda með fjölbreyttum ljóðum sem vekja upp kátínu en einnig til umhugsunar.

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...