Björk Jakobsdóttir, sendir frá sér sína fyrstu bók í ár – bókina Hetja. Á kápunni má sjá svartan hest ösla gegnum snjó með óbeislað íslenskt hálendi í bakgrunni. Kápan gefur staðfastlega til kynna að hún fjalli um hest, en hún fjallar líka um Björgu.

Mannaforingi og folald

Björg og Hetja eru óaðskiljanlegar. Allt frá því Hetja fæddist hefur Björg átt hana, séð um hana og lesanda verður mjög fljótt ljóst að á milli þeirra eru órjúfanleg tengsl. Björg býr í borg og í sveit. Í borg á veturna, þegar hún þarf að fara í skóla og foreldrar hennar sinna vinnu, og í sveit á sumrin þar sem hún blómstrar með hestum og hundum.

Björg er náttúrubarn og hún elskar að vera í kringum hestana, sem hún skilur mikið betur en mannfólkið. Dag einn þegar litla fjölskyldan kemur í sveitina er Hetju hvergi að finna. Björg finnur strax á sér að eitthvað hefur gerst, en hún veit líka að Hetja er ekki dáin.

Til skiptis fær lesandinn að sjá sjónarhorn Hetju og Bjargar. Þannig veit lesandinn að Hetja var flutt burt í flutningabíl, langt í burtu frá stóðinu sínu. Hetja er hrædd, óviss og skilur lítið í því sem er að gerast. Hún þarf að berjast fyrir lífi sínu og fyrir því að komast aftur heim í stóðið og til mannasystur sinnar Bjargar.

Ótrúleg næmni og frásagnargáfa

Björk þekkir greinilega vel til hesta og hestamennsku. Það er af ótrúlega mikilli næmni sem hún lýsir tilfinningum Hetju. Ég hafði mikla samúð með hestinum, sem þráir ekkert heitar en að komast aftur heim. Að sama skapi kennir maður í brjóst um Björgu sem á mjög erfitt með að vita ekki hvað varð af Hetju.

Bókin tekur lesandann í rússúbanareið tilfinninga. Það er hægt að hlæja að nöfnunum sem Hetja gefur mannfólkinu í kringum sig, til dæmis Rúllubagginn og Girðingastaurinn. Maður fyllist ótta með Hetju, er kvíðinn, hræddur og áhyggjufullur með Björgu. Svo er maður spenntur að komast að því hver örlög Hetju verða.

Sinnaskipti

Bókin er svo einlæg og falleg og rígheldur lesandanum við lesturinn. Björk nær á töfrandi hátt að vekja samúð lesandans með öllum lifandi verum í bókinni, án þess að manngera dýrin eins og stundum er gert. Hestur er enn hestur þótt honum séu gefnar hugsanir og orð. Eðli hestsins er alltaf það sem ríkir. Að sama skapi skyggnist lesandinn inn í hugarheim Bjargar, sem er einstök á sinn hátt. Maður fyllist lotningu yfir krafti veðursins, ógnum hálendisins og er minntur óþyrmilega á þá farartálma sem stóru jökulárnar voru hér áður fyrr.

Maður gerir ráð fyrir að markhópur bókarinnar sé hestafólk. En sjálf er ég mjög andsnúin hestum, skil þá ekki og hef aldrei fyrirgefið hrossinu sem sparkaði í bróður minn fyrir margt löngu síðan. Öllum þessum neikvæðu tilfinningum í garð hesta gleymdi ég og bókin hefur sett hesta á vissan virðingarstall í huga mér. Ég skil þá líka betur. Ég mun aldrei líta þá sömu augum og áður.

Hetja er bók sem situr lengi í lesandanum og spilar á allan tilfinningaskalann. Bókin er verðug lesning fyrir alla aldurshópa.

 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.