Ævintýri, þjóðsögur og fortíðin í bland

Hildur Loftsdóttir kynnti íslenska lesendur fyrir sögupersónunum Ástu og Kötu í fyrra í bókinni Eyðieyjan – Urr, öskur, fótur og fit. Þar ganga systurnar inn í álfahól og þurfa að bjarga lífi afa síns í fortíðinni. Afi Jaki leiðir stúlkurnar á nýjar slóðir í bókinni Hellirinn – Blóð, vopn og fussum fei.

Nýr heimur í nýrri bók

Ásta og Kata heillast af ævintýrabók, en það var kannski ekki alveg ætlunin að fara sjálfar inn í ævintýrin. Það er þó það sem gerist. Ásta vaknar upp við þann vonda draum að hún er ekki lengur heima hjá sér, heldur í einhvers konar ævintýraheimi þar sem eru kastalar og prinsar og illir riddarar. Hún kynnist konungssyninum Hlyna sem veit ekkert betra en að segja sögur. En það er ólöglegt að segja sögur og við því liggur mikil refsing.

Stuttu eftir að Ásta fellur yfir í ævintýraheiminn birtist Kata systir hennar. Á sama tíma  hverfur prinsinn. Konungurinn heitir hverjum þeim sem finnur Hlyna hálfu ríkinu og fullt af peningum. Ásta og Kata líta á þetta sem frábært tækifæri, fyrir utan það að þær vilja gjarnan bjarga Hlyna. Þá hefst ævintýrið sem leiðir stelpurnar meðal annars að tröllahelli og ýmsum hættum, töfrakúlur og skessuhor koma við sögu og einstakt sverð.

Þjóðsögur og ævintýri í bland

Hildur blandar saman þjóðsögum og gömlum ævintýrum í bókinni. Það er skemmtilegt að sjá hvernig blanda af þessum tveimur tegundum af sögnum koma saman í bókinni. Gamli torfbærinn við hliðina á höllinni til dæmis.

Það var nokkuð óljóst hvar stelpurnar eru í raun eða hvernig þær komust þangað. Þær trúa því sjálfar að danakonungur hafi fyrirskipað bann við sögum. En á sama tíma ríkir undirkonungur hans á Íslandi. Og allt er skógivaxið og hindir eru í skóginum. En samt eiga stelpurnar að vera á Íslandi? Þannig er lesandinn í hálfgerðu limbói um hvar þær eru í raun og veru og allt eins líklegt að þær séu bara alls ekkert á Íslandi heldur í einhvers konar hliðarheimi þar sem allt er svolítið öðruvísi. Það hefði þó mátt koma betur fram í sögunni. Einnig eru óræðar augnagotur frá Afa Jaka ekki nægilega skýrar til að gefa til kynna að hann standi á bak við flutning þeirra systra yfir í annan heim.

Þjóðleg spenna

Söguþráðurinn í ævintýrinu sjálfu er þó bráðskemmtilegur og líflegur. Stelpurnar láta ekkert stoppa sig og eru óhræddar og sjálfstæðar. Sögunni vindur hratt fram og er spennandi og fyndin. Heimur Hildar er skemmtileg blanda af gamla Íslandi, þjóðsögum og evrópskum ævintýrum og hentar án efa vel fyrir unga lestrarhesta á aldreinum 8-13 ára sem vilja húmor, spennu og eitthvað þjóðlegt í bókunum.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...