Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttur fékk afbragðs góðar viðtökur í síðasta jólabókaflóði, hlaut  Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 og tilnefningu til Fjöruverðlaunanna. Bókin er stutt en skilur mikið eftir sig og er einstaklega einlæg frásögn af því þegar sorgin tekur yfir með alvarlegum afleiðingum.

Aprílsólarkuldi er fyrsta bók Elísabetar sem ég les, en hún hefur gefið út á þriðja tug bóka og hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín, meðal annars Fjöruverðlaunin, og verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Bókin er ef til vill sú persónulegasta sem Elísabet hefur gefið út en um er að ræða sjálfsævisögulega sögu sem gerist frá apríl 1978 til september 1979. Elísabet greindi frá því í Kiljunni að hún hefði verið áratug að skrifa bókina og átt í erfiðleikum með að ákveða formið. Að lokum ákvað hún að segja söguna eins og hún upplifði hana á þessum tíma en breytti nöfnum persónanna og sagði söguna í þriðju persónu.

Föðurmissir, ást og hass

Í bókinni fylgjum við eftir Védísi, tvítugri, einstæðri móður, sem missir óvænt föður sinn. Stuttu síðar bankar ástin á dyr og tekur yfir líf hennar sem fer að innihalda reglulegar hassreykingar, en samtímis veikist Védís á geði. Bókin, sem er í nóvelluformi, hefst á því að Elísabet segir lesandanum frá kjarna sögunnar.

Þessi saga er um unga stúlku á norðurhveli jarðar sem missir pabba sinn og atburðina í kjölfar þess. (bls. 7)

Elísabet undirstrikar með þessu að sorgin er áhrifavaldurinn í sögunni. Lesandinn veit frá byrjun hvað mun gerast á næstu blaðsíðum en það skiptir ekki máli.

Bókin skiptist í fjóra kafla sem hver og einn er með mismunandi fókus, í þeim fyrsta er farið yfir áfallið um andlát föðursins, í öðrum kafla hefst stormasamt ástarsamband Védísar og Kjartans, í þeim þriðja reynir Védís að komast í rútínu en fljótt rennur það út í sandinn og í fjórða og síðasta kaflanum nær höfundurinn miklu flugi í að lýsa maníu Védísar sem að lokum tekst að stöðva.

Ranghugmyndir í Reykjavík

Lesandinn fylgir Védísi á hennar ferðalagi og tekst Elísabetu að lýsa á mjög aðgengilegan hátt hvað hún gekk í gegnum andlega á þessum tíma áfalla í sínu lífi. Flest höfum við upplifað missi og sorg sem því fylgir, og því er ekki erfitt að setja sig í þau spor. Færri hafa upplifað andleg veikindi og að fyllast miklum ranghugmyndum. En Elísabetu tekst listarlega að lýsa því, sér í lagi þegar Védís er farin að æða út um alla Reykjavík vegna merkja sem hún sér alls staðar og er sannfærð um að hún þurfi að komast í Sjónvarpið.

Aprílsólarkuldi er einstök bók. Höfundurinn notar nóvelluformið vel til að miðla því á tilfinningaríkan hátt hvernig er að upplifa geðhvörf. Elísabet sagði í viðtali við Víðsjá að hún nálgaðist umfjöllunarefni bókarinnar sem ákveðna rannsóknarvinnu, en hún vildi vita hvers vegna hún veiktist. Bókin virðist því ákveðið uppgjör við þennan tíma en samtímis er um að ræða vel skrifaða frásögn sem heldur taktfast áfram og auðvelt er að tapa sér við lesturinn á einni kvöldstund.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.