Ástir og örlög hins ógurlega herra Z

Ég hef áður skrifað hér um Töfrafjallið eftir Thomas Mann og hvernig bókin hafði einhvernveginn meiri og meiri áhrif á mig eftir því sem leið á. Sú þróun hefur haldið áfram og er ég nú farinn að hafa vaxandi áhuga á ævi höfundar, sem er ævintýraleg og óvenjuleg á margvíslegan hátt. Raunar er stundum erfitt að trúa því að annað eins hafi gerst, að þessi höfundur hafi náð öðrum eins árangri eins og hann náði — þetta var maður sem tilheyrði að mörgu leyti annarri öld en var samt í nánum tengslum við sína eigin samtíð (og raunar framtíð), maður sem skrifaði mjög opinskátt um sig sjálfan en samt trúði enginn að hann væri einlægur, maður sem var algjörlega á öndverðum meiði við ríkjandi siðferði en endaði samt ævina sem einhver virtasti maður sinnar þjóðar.

Mann fæddist inn í auðuga kaupmannafjölskyldu í Lübeck árið 1875. Lübeck var þá sjálfstjórnarborg innan hins nýja þýska keisaradæmis, auðug verslunarborg með stórum kaupskipaflota. Faðir Manns var kaupmaður af gamla skólanum, fígúra frá Hansa-tímanum; móðir hans var hins vegar frjáls andi frá Brasilíu, og þessi blanda af þungbúnum lúterisma föður Manns og æsilegum kaþólisisma móður hans var eitthvað sem Mann sjálfur virðist hafa talið grunninn að eigin karakter.

Heimili Mann-fjölskyldunnar í Lübeck (“Buddenbrookhaus”), nú safn tileinkað Mann.

Faðir Manns dó árið 1891, fjölskyldufyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta og eftirlifandi Mann-fjölskyldan fluttist til München. Þar bjó Mann nær samfellt til 1933 ef frá er talin örlagarík ferð sem hann fór til Ítalíu árið 1895, þá tvítugur. Út frá dagbókum Manns er talið að hann hafi þar í fyrsta sinn gert sér almennilega grein fyrir hneigðum sínum til karlmanna.

Thomas Mann á yngri árum.

Hér er vert að benda á að þetta er gömul saga og ný. Norður-evrópski efristéttarlistamaðurinn sem flýr fábreytilega grámygluna í heimalandinu, kynnist æsandi nautnalífi og gullfallegum ungum mönnum í Ítalíu eða Grikklandi og uppgötvar þar nýjar dýptir listsköpunar sinnar og kynhneigðar — þetta er klisja sem tíðkaðist alla 19. öldina og fram eftir þeirri tuttugustu; af þeim sem fóru í viðlíka ferðalag má nefna Byron lávarð, Oscar Wilde, André Gide, H. C. Andersen og — á ég að þora að segja það? — Halldór Laxness.

Þessar uppgötvanir Manns um sig sjálfan á Ítalíu voru hinsvegar í anda hans tíma en ekki okkar. Í skáldverkum Manns er Ítalía eða Suðrið/Austrið tengt samkynja ástum (ofar öllu ástum á ungum piltum) órjúfandi böndum, en líka dekadensi, rotnun og glötun. Aðalsöguhetjur Manns eru oftar en ekki misskýrar eftirmyndir af honum sjálfum — ábyrgum, bældum, evrópskum, listhneigðum manni sem berst við, og jafnan tapar, baráttunni við aðra hlið sem dvelur innra með honum, hneigðina til drengja, til lista og til dauðans. Þetta er ekki beint hómófóbískt hjá Mann — hann skammaðist sín ekki fyrir hneigðir sínar — en í hans heimsmynd bar að halda þessum hneigðum, og raunar flestum hneigðum, í vissum skefjum innra með sér. Þannig giftist Mann eiginkonu sinni Katiu Pringsheim árið 1905 og eignaðist hvorki fleiri né færri en sex börn með henni. Hneigðir hans til karlmanna fengu aðeins útrás undir ofurvarlegri stjórn listsköpunar Manns, og endrum og eins í lífi hans, en þá undir þrengstu formerkjum. Mann lét sér að því er virðist yfirleitt nægja að ná auga einhvers pilts og horfa á hann, stundum bauð hann þeim upp á ís, en lengra virðist hann ekki hafa viljað ganga. Raunar var þessi sjálfstjórn hans svo ofboðsleg að mann fer að gruna hana um að vera raunar einhvers konar form af blæti, masókískri nautn.

Mann-fjölskyldan. Hamingjan skín af hverju andliti.

En hvernig vitum við allt þetta um innra líf og hneigðir Manns, gæti einhver spurt? Staðreyndin er sú að Mann sjálfur kom því í kring. Ekki aðeins hélt hann hárnákvæmar dagbækur mestalla sína ævi sem hann passaði upp á alla tíð og fyrirskipaði að skyldu útgefnar að honum dauðum, heldur var skáldskapur hans, eins og áður sagði, mjög sjálfsævisögulegur. Og þar eru hneigðirnar til karlmanna ekki faldar heldur þvert á móti. Það er undarlega sjaldan á það minnst, en þessi frægasti þýski rithöfundur 20. aldarinnar (mögulega fyrir utan Brecht) skrifaði hinsegin bókmenntir, og er raunar einhver áhugaverðasti hinsegin höfundur síns tíma. Það þarf aðeins að minnast á hina víðfrægu smásögu Mann, Dauðann í Feneyjum, til þess að sýna þetta. Sagan fjallar um rithöfund sem er alveg nákvæmlega eins og Thomas Mann. Rithöfundur þessi hittir ókennilega veru í mannsmynd í kirkjugarði í München og við það eitt að sjá veruna fyllist hann óróa og ferðaþrá. Hann ferðast til Feneyja þar sem hann sér pólskan unglingspilt að nafni Tadzio og fellur í stafi yfir fegurð hans; hann eltir hann um Feneyjar, sveittur og másandi, og þótt hann viti að plága sé á leiðinni yfir borgina getur hann ekki slitið sig frá drengnum. Eins og titillinn bendir til endar sagan á dauða rithöfundarins á feneyskri strönd, starandi á freistinguna banvænu, Tadzio.

Úr kvikmyndinni Dauðinn í Feneyjum eftir Luchino Visconti frá 1971. Thomas … afsakið, von Aschenbach starir á Tadzio.

Þessi smásaga kom út árið 1912 og ofangreint plott er ekki á neinu rósamáli, hér er talað beint út. Og við vitum út frá bók sem eiginkona Manns gaf út eftir dauða hans að þetta er sannsögulegt; Mann varð einmitt ástfanginn af unglingspilti í Feneyjum ári áður en smásagan kom út (en þessar hneigðir Manns nutu skilnings, jafnvel stuðnings, frá eiginkonu hans). Árið 1912 var það ólöglegt í flestum ef ekki öllum löndum Evrópu að sofa hjá manneskju af sama kyni og fólk sem hneigðist til slíks var almennt fyrirlitið. Aðeins 17 árum fyrr hafði Oscar Wilde verið sakfelldur fyrir samkynja kynlíf og ástir í víðfrægasta réttarhaldi síns tíma. Engu að síður endaði Dauðinn í Feneyjum ekki feril Manns — langt í frá. 17 árum síðar fékk Mann Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Hvernig má þetta vera?

Skýringin hlýtur ofar öllu að liggja í höfundarödd Manns, sem er afskaplega sérstæð. Það er eins og sögumaðurinn í hans frægustu bókum tali ofan af háum tindi íróníunnar með hæðnisblik í auga. Sögurnar sem hann segir eru ennfremur svo þrungnar af fágun, gáfum og sjálfstjórn að lesandinn setur sig ósjálfrátt í ákveðnar undirgefnar stellingar. Maður þorir ekki að gefa sér neitt. Þótt lesandinn sjái að rithöfundurinn von Aschenbach í Dauðanum í Feneyjum sé alveg eins og Thomas Mann, þá þorir hann ekki að leggja þá túlkun beint fram, því það gæti verið rangt, og maður sér fyrir sér það ískalda, hæðna augnaráð sem Mann myndi leggja á hvern þann sem orðaði slíkan misskilning. Maður hreinlega dirfist ekki að gefa sér að hlutirnir séu sjálfsævisögulegir, þótt Mann raunar leiki sér að því að láta það blasa við.

Þetta er áhugaverður kontrast við sannsöguhefð dagsins í dag, þar sem Karl Ove Knausgaard og fleiri skrifa hárnákvæmt um eigin ævi, og fara ekki í neinar grafgötur með það — þar til einhver bendir á hinn siðferðislega vanda á bak við það að taka fólk úr eigin ævi og nota það sem persónur í bók. Þá skyndilega ber höfundurinn jafnan fyrir sig að þetta sé skáldskapur, og reynir þannig að bæði eiga kökuna og éta hana. Þessi hræsni er ekki til staðar hjá Mann: Hans vörn felst í því að skrifa hátt og skýrt um eigin ævi, en að láta stílinn búa til vegg milli sín og sögunnar.

Þannig var fyrsta skáldsaga Manns, Buddenbrooks, augljóslega saga hans eigin fjölskyldu. Sagan fjallar um fjórar kynslóðir Buddenbrooks-fjölskyldunnar í borg sem aldrei er nefnd en er auðvitað Lübeck og býr í húsi sem aldrei er nefnt en er greinilega hús Mann-fjölskyldunnar. Fjölskyldan rekur fjölskyldufyrirtæki sem er nauðalíkt fyrirtæki Mann-fjölskyldunnar og rís og fellur alveg eins og það. Thomas Mann sjálfur birtist ljóslifandi undir lokin, í fjórðu kynslóðinni, í hinum list- og samkynhneigða Hanno Buddenbrooks — sem að sjálfsögðu deyr undir lok bókar. Buddenbrooks telst til sígildra þýskra bóka og er það ótrúlegt til þess að hugsa að hún kom út strax árið 1901 — þegar Mann var 25 ára. Og að Mann hafi verið farinn strax þá að skrifa um dauða karakters sem var byggður á honum sjálfum sýnir líka hversu mikinn áhuga og hvílíka þráhyggju hann hafði fyrir dauðanum allt frá unga aldri.

Þessa dauðafixasjón, auk samkynhneigðarinnar, erfðu börnin hans. Uppáhald Manns var elsta barnið, dóttirin Erika. Hún, sem og næstelsta barnið, sonurinn Klaus, voru hinsegin; bæði ólust upp með listamannadrauma, hvött áfram af fjarlægu og köldu fordæmi föður síns. Þau kölluðu Mann jafnan „Z“, sem stóð fyrir der Zauberer — „Töframaðurinn“. Þetta er vísun í meistaraverk hans, Töfrafjallið (1924), en líka eitthvað meira: Þau litu á hæfileika föður síns sem eitthvað allt að því yfirnáttúrulegt, sem þau gátu ekki annað en staðið í skugganum af. Auk þess kallar þetta upp mynd af aflokuðum seiðkarli í turni, sem kann að vera raunsönn lýsing á fjölskyldulífinu. Mann lokaði sig af til að skrifa mestallan daginn og krafðist þagnar á meðan. Börnin læddust um húsið og leyfðu göldrunum að gerast.

Klaus og Erika Mann. Harmræn systkyni og eitursvöl.

Erika og Klaus voru afar náin systkyni. Þau fluttu til Berlínar þegar þau höfðu aldur til og gerðust þar leiðandi bóhemar í merkustu listasenu Weimar-lýðveldisins. Erika lék í kabarettum en Klaus gerðist rithöfundur, þótt það væri raunar vonlaust verkefni fyrir son Thomasar Mann að láta taka sig alvarlega á því sviði. Í menningariðu Berlínar sváfu Erika og Klaus hjá hálfri listasenu borgarinnar (áfram þau!) og lifðu hátt, en sáu líka betur og betur í hvað stefndi í Þýskalandi þegar leið á fjórða áratuginn og nasistar sóttu stöðugt í sig veðrið.

Mann sjálfur, einn frægasti maður Þýskalands eftir Nóbelsigurinn og gríðarlegar vinsældir Töfrafjallsins, var hinsvegar undarlega blindur á þá hættu sem stafaði af nasistunum. Mann var raunar ekki ofarlega á lista nasistanna yfir höfunda sem skyldu bannaðir og bækur þeirra brenndar. Þótt þeim líkaði alls ekki þemu Dauðans í Feneyjum og viðlíka bóka þá var þeim ágætlega við afstöðu Manns í Fyrri heimsstyrjöldinni, þar sem hann hafði predikað stórundarlega trú sína á siðmenntunarverkefni Þýskalands yfir heiminum og réttlætt þannig stríðið. Stríðsskrif Manns eru svartur blettur á hans höfundarferli en voru einmitt af þeim sökum líkleg til að bjarga honum frá nasistum, þrátt fyrir samkynhneigðina og þá staðreynd að kona Manns, Katia, var gyðingur. Nóbelsverðlaunahafar eru ekki auðdrepnir. En börn Manns náðu seint og um síðir að sannfæra hann um að taka nasismann alvarlega og fór Mann að skrifa gegn honum undir það síðasta. Þegar nasistar tóku yfir árið 1933 varð það því skýrt að Mann þurfti að flýja land.

Þá gerðist stórundarlegur atburður á æviskeiði Manns: Þegar nasistar tóku völdin var Mann fyrir tilviljun staddur utan Þýskalands, í Sviss. Dagbækur hans, hinsvegar, voru eftir í húsinu hans í München. Þetta er hreint út sagt ótrúlegt, því eins og fyrr segir draga dagbækurnar ekkert undan. Í einni alræmdri færslu segir Mann t.d. frá því þegar hann horfði á ungan son sinn, Klaus, nakinn og fann fyrir kynferðislegri þrá í hans garð; sem og allar augngoturnar við myndarlega menn, ískaupin og órarnir. Mann skrifaði sjálfur í dagbókarfærslu eitt sinn að nasistarnir væru líklegir til að birta þetta alltsaman í áróðursriti sínu Völkischer Beobachter ef þeir kæmust í dagbækurnar. En svo tók hann þær samt ekki með sér þegar hann fór til Sviss, þótt það ætti að vera hverjum manni ljóst að nú stefndi í óefni. Sonur Mann, Golo, var fenginn til að laumast inn í yfirgefið húsið í München, opna þar peningaskápinn sem dagbækurnar voru faldar í og fara með þær yfir landamærin til pabba gamla, með því skilyrði að hann læsi ekki dagbækurnar á leiðinni.

Þessi saga er svo undarleg að ég fæ mig varla til að trúa því að Mann hafi raunverulega gleymt að taka þær með, heldur sé þetta annar liður í þessum leik hans að fela sig fyrir opnum tjöldum. Það er eins og áhættan hafi verið æsandi fyrir hann og að hann hafi haft einhverja afhjúpunarlöngun, þótt það myndi þýða að ferill hans yrði líklega fyrir bí. En svo fór sem fór. Mann flutti til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til Los Angeles, þar sem hann bjó í kostulega amerísku setri eins og maður sér oft í Hollywood-myndum — pálmatré, eftirmyndir af Venusi di Milo, fals-rómverskar súlur, sundlaug og sólhlífar. Erika fékk ekki vegabréfaáritun til að komast frá Evrópu og greip þá til þess ráðs að ganga í málamyndahjónaband með W.H. Auden, hinu samkynhneigða enska skáldi, og fá þannig enskan ríkisborgararétt. Öll komst Mann-fjölskyldan til Bandaríkjanna að lokum en bóheminn Klaus hélt sig í listasenunni í New York fjarri föður sínum, sem hann var farinn að hata meira og meira. Klaus sökkti sér ofan í eiturlyf, lenti í stöðugt meiri fjárhagsvandræðum og framdi að lokum sjálfsmorð árið 1949. „Z“ mætti ekki í jarðarförina.

Hús Thomasar Mann í Los Angeles. Hérna bjó æðstipáfi evrópskrar hámenningar.

Í stríðinu flutti Thomas Mann pistla gegn nasistum í ræðu og riti og varð almennt táknmynd fyrir þýsku intelligentsíuna í útlegð — eins konar „samviska Þýskalands“. Árið 1952, eftir að hafa verið hrakinn frá Bandaríkjunum undan McCarthyismanum (McCarthy vildi meina, þótt fáránlegt kynni að virðast, að Mann væri kommúnisti) sneri Mann aftur til Evrópu og settist að í Sviss. Hann fór stundum í ferðir til Þýskalands til að lesa upp eða flytja fyrirlestra og var tekið sem hálfguðdómlegri veru í Vestur-Þýskalandi (ekki svo mjög í Austur-). Hann var einn af fáum þýskum lista- og menntamönnum sem hafði farið það sem margir töldu hinn gullna milliveg: Hann hafði ekki fylgt nasistum að máli, eins og sást á útlegð hans, en var jafnframt andstæðingur kommúnista — ólíkt t.d. Brecht. Þannig var hann gagnleg táknmynd fyrir Vestur-Þýskaland, landið sem hafnaði bæði kommúnismanum í austri og nasismanum í eigin fortíð. Mann vildi hinsvegar aldrei aftur búa á þýskri grundu; líklega var landið orðið sársaukafullur staður fyrir hann eftir allar sviptingarnar, og kannski þótti honum þessi dýrkun á sér óverðskulduð.

En eitt hafði hann þó enn í Þýskalandi. Í einni af ferðum sínum dvaldi hann um stund í München og kolféll, 75 ára að aldri, fyrir ungum þjóni á veitingastað. Í dagbókum sínum lýsir hann þrunginni ást og barnslegri hrifningu á manninum: „Heimsfrægð skiptir mig svo sem litlu máli, en hversu miklu minna vægi hefur hún samanborið við eitt bros frá honum, augnatillit hans, mjúka rödd hans … Ég sofnaði út frá hugsunum mínum um elskuna mína“, ritaði hann í dagbækur sínar.

Mann á efri árum. Ekki alveg dauður úr öllum æðum.

Mann lést árið 1955 og skipaði svo fyrir í erfðaskrá sinni að dagbækurnar skyldu gefnar út 30 árum eftir dauða sinn. Við það var staðið og varð uppi fótur og fit í Þýskalandi. Raunar er enn yfirstandandi uppgjör Þjóðverja við dagbækur Manns og þá skyndilega óumflýjanlegu staðreynd að Mann var hinsegin höfundur, höfundur sem raunar gerði þá staðreynd augljósa, en enginn trúði honum samt. En margt var undarlegt við ásthneigðir herra Z. Skömmu eftir útgáfuna var haft uppi á þjóninum unga, seinustu ást Thomasar Mann, og þetta allt borið undir hann. Hann kom af fjöllum. Mann hafði ekki gert neitt meira með honum en að fara í göngutúra og kaupa handa honum ís.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.