Æsispennandi dönsk/ensk ráðgáta

Stúlkurnar á Englandsferjunni er frumraun danska höfundarins Lone Theils. Hún kom fyrst út árið 2015 en hefur slegið í gegn víða um heiminn og kom út í íslenskri þýðingu Þórdísar Bachmann árið 2017.

Sagan gerist bæði á Englandi og í Danmörku og segir frá danska blaðamanninum Nóru Sand sem finnur fyrir tilviljun ljósmynd af tveimur stúlkum í gamalli ferðatösku sem hún kaupir á fornsölu í strandbæ á Englandi. Fljótlega kemur í ljós að myndin tengist hvarfi tveggja danskra stúlkna á leið til Englands árið 1985. Blaðamannanefið kemur svo Nóru á slóð fjöldamorðingja sem hefur setið inni um dágóðan tíma.

Á slóð fjöldamorðingja

Maður vill ekki láta of mikið í ljós um söguþráð bókarinnar en óhætt er að fullyrða að bókin er mjög spennuþrungin og erfitt að leggja hana frá sér á meðan lesandinn eltir Nóru á slóð fjöldamorðingjans. Lone Theils vann lengi sem fréttaritari dönsku blaðanna Politiken og Berlingske Tidende í London og nýtir vel þekkingu sína bæði af Lundúnarborg og Bretlandi, sem og af blaðamennskuheiminum, til að draga fram trúverðuga frásögn. Raunar er tilfinningin lesandans á tíðum eins og maður gæti verið að fylgja blaðamanni eftir slóð sannra sakamála.

Stúlkurnar á Englandsferjunni er fínasta afþreying og er góð samblanda af sögu aðalpersónunnar þar sem auðvitað Amor kemur til sögunnar og Nóra þarf að gera upp minningar úr æsku sinni, sem og spennandi glæpasögu sem drífur bókina áfram. Það er ýmislegt sem kemur á óvart í bókinni og fannst mér frumlegt að staðsetja skandinavískan krimma í Bretlandi. Það má þó vara lesendur við að hún er í grófari kantinum og hentar því ekki lesendum sem eru hrifnari af morðum bakvið luktar dyr, líkt og hjá Agöthu Christie.

Lone Theils hefur skrifað fleiri bækur um Nóru, meðal annars Konu bláa skáldsins sem kom út á íslensku árið 2018 og því geta aðdáendur fyrstu bókarinnar fylgt henni eftir í fleiri málum.

Lestu þetta næst

Stormasamt hjónabandslíf

Stormasamt hjónabandslíf

Gift eftir Tove Ditlevsen er minningarbók sem segir frá hjónabandslífi danska rithöfundarins sem...

Ótrúlegt aðdráttarafl

Ótrúlegt aðdráttarafl

Sú hefð hefur skapast á mínu heimili að enda daginn alltaf á að lesa. Kvöldlestur er hluti af...

Ameríka er líka blekking

Ameríka er líka blekking

Fólk var hneppt í þrældóm frá mismunandi svæðum í Afríku nýlendutímans. Það var flutt í gegnum...

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...