Ættarfylgjan : fortíðardraugar og fylgifiskar

Ættarfylgjan eftir Ninu Wähä birtist heima hjá mér fyrir nokkrum mánuðum þar sem ég er áskrifandi að bókaklúbb. Ég verð að viðurkenna að ég lét hana bíða ferlega lengi í himinháa staflanum af bókum sem ég á eftir að lesa. Það var eitthvað sem var ekki alveg að fá mig til að lesa hana og ég hafði heldur aldrei heyrt neitt um bókina né höfundinn. Ég las svo bókina nú í ágúst og get ekki sagt að ég sjái eftir því.

Nina Wähä er fædd árið 1979 í Svíþjóð og gaf hún út fyrstu bók sína árið 2007. Ættarfylgjan kom út árið 2019 í Svíþjóð en árið 2020 kom hún út hér á landi í íslenskri þýðingu Tinnu Ásgeirsdóttur. Bókin hefur fengið góðar viðtökur í Svíþjóð sem og hér á Íslandi. Nina er gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík nú í ár. 

Harðstjórn fjölskylduföðurs

Bókin fjallar um Toimi fjölskylduna sem samanstendur af Siri og Pentti Toimi og 14 börnum þeirra en 12 þeirra eru á lífi þegar sagan gerist, snemma á níunda áratugnum í Tornedal í Finnlandi. Faðirinn, Pentti, er skapþungur maður sem hefur alla tíð stýrt fjölskyldu sinni með andlegu og jafnvel líkamlegu ofbeldi. Móðirin er svo aftur á móti undirlæg og hefur alltaf gert allt til að halda friðinn en er jafnframt tilfinningalega lokuð gagnvart börnunum sem eru á lífi, mögulega því hún syrgir enn börnin sem ekki lifðu. Sagan hefst á því að Annie, elsta dóttirin, kemur heim til að eyða jólunum með fjölskyldu sinni og er því sagan sögð frá hennar sjónarhóli til að byrja með. Systkinin koma þó eitt af öðru heim en sum búa nálægt, önnur aðeins fjær, og færist sagan því einnig yfir á þau þar sem við fræðumst um þeirra líf og sögu. 

Í ljós kemur að þó flest börnin séu orðin fullorðin, eða svo gott sem, þá stýrir faðir þeirra þeim sem og móður þeirra enn með sinni þrúgandi nærveru. Elstu börnin vilja knýja fram breytingar því ekki sé hægt að láta móðurina né yngstu börnin lifa við slíkar aðstæður lengur. Það verður til þess að margslungin og spennandi flétta verður til sem leiðir til uppgjörs.

Vönduð persónusköpun

Ég upplifði blendnar tilfinningar við að lesa þessa bók. Mér fannst hún góð, hún hélt mér allan tímann og kom á óvart en það var aftur á móti erfitt að lesa hana. Allt þetta andlega ofbeldi, þessi þrúgandi stjórnun föðursins ýtti við mér á óþægilegan hátt svo vægt sé til orða tekið. Ég þurfti að leggja hana frá mér á köflum en það jákvæða var þó að sjá Siri rísa upp úr öskunni og taka loks stjórn á sínu eigin lífi. Það sem mér finnst hinsvegar algjörlega gera bókina er hæfileiki Ninu í persónusköpun og hvernig hún segir frá lífi hverrar persónu fyrir sig. Hver einasti fjölskyldumeðlimur fær sögu sína sagða og hún gerir það einstaklega vel. Maður annað hvort hrífst með þeim og fer í þeirra lið eða gjörsamlega þolir þau ekki. Að því sögðu þá var endirinn þó smá vonbrigði. Akkúrat þegar leysa á úr þeirri frábæru fléttu sem höfundur hefur skapað, þá gerist það á frekar klúðurslegan og óspennandi hátt. Endirinn verður ekki þessi snyrtilega, spennandi samantekt, heldur frekar slappur og skilur mann eftir með spurningar frekar en einhverja lokun.

Ættarfylgjan er grípandi saga fjölskyldu sem glímir við fortíðar drauga ættmenna sinna sem og sína eigin. Hún vekur upp blendnar tilfinningar en er jafnframt hrífandi og fær mann mögulega til að líta ögn inn á við.

Lestu þetta næst

Blæðir þér?

Blæðir þér?

Í kvöld heiti ég Sara. Pabbi minn, sem kom með mér í leikhús, heitir líka Sara. Sama gildir um...

Er hægt að vera svona?

Er hægt að vera svona?

Nú í mars mánuði kom út hjá bókaútgáfunni Björt bókin Verity eftir Colleen Hoover í íslenskri...

Harry var einn í heiminum

Harry var einn í heiminum

Í janúar kom út ein stærsta ævisaga síðari tíma. Bókin seldist í bílförmum út um allan heim því...