Dulið líf hinnar heillandi Evelyn

Hollywood stjarnan gullfallega og leyndardómsfulla Evelyn Hugo er komin til ára sinna og er loksins tilbúin að segja frá ævi sinni. Hún ákveður því að boða Monique Grant, blaðamann hjá tímaritinu Vivant, heim til sín undir fölsku flaggi um viðtal um uppboð á kjólum Evelyn. Óljóst er hvers vegna Evelyn hefur valið Monique, sem er enn að vinna sig upp sem blaðamaður, til að skrifa æviminningar hennar. Þær tengjast strax sterkum böndum en fljótt kemur í ljós að líf þeirra tengjast á ófyrirsjáanlegan hátt.

Hver var stóra ástin?

Evelyn, sem var þekkt fyrir bæði leiklistarhæfileika sína og mikla fegurð, sagði skilið við leiklistarferilinn og Hollywood á hápunkti frægðarinnar fyrir nokkrum áratugum og hefur ekkert opnað sig áður um líf sitt. Fljótlega kemur hins vegar í ljós að þrátt fyrir titil bókarinnar var stóra ástin í lífi hennar ekki einn eiginmannanna, heldur leikkonan Celia St. James. Hún er loksins tilbúin að segja frá þessu opinberlega og frá því hvernig var að þurfa að fela þetta samband.

Bókin er stórskemmtileg og spennandi og því erfitt að leggja hana frá sér. Sagan hefst frá sjónarhorni Monique sem er 35 ára gömul, á barmi skilnaðar, og er ennþá að vinna sig upp sem blaðamaður. Bæði hún og ritstjóri hennar eru hissa á því að Evelyn hafi beðið um að Monique taki við hana viðtal, þar sem allir þekktari blaðamenn tímaritsins voru í boði. Eftir fyrsta fund þeirra Evelyn breytist sjónarhornið og fylgja kaflar þar á eftir um líf Evelyn í gegnum ferilinn og hvert hjónaband, sagt frá hennar sjónarhorni, og svo samskipti þeirra Monique í ritunarferlinu. Inn á milli kaflanna eru svo blaðaúrklippur úr fortíðinni sem sýna hversu langt frá sannleikanum fyrirsagnir geta verið.

Stúdíókerfið sem átti fólk

Hollywood á gullöldinni er frábært sögusvið fyrir skáldsögu, stúdíókerfið fól í sér að einkafyrirtæki áttu nánast leikaranna, þau gátu stjórnað starfsferli þeirra sem og persónulegu lífi. Sögusviðið er því sérstaklega áhugavert fyrir sögu hinsegin persónu á tímabili þar sem samkynja sambönd voru ekki samfélagslega samþykkt. Persónusköpunin er góð, sérstaklega hvað varðar Evelyn, hún er flókin persóna sem hefur ekki alltaf valið rétt, en þó skín í gegn vilji til að skilja vel við í ævilok. Flestar persónur bókarinnar eru ekki svartar og hvítar heldur að takast á við lífið í þessu flókna Hollywood umhverfi. Mér fannst maður fá aðeins minni innsýn inn í Monique. Hún er á barmi skilnaðar sem henni þykir leiðinlegt, en það er ekki eins skýrt hvað hefur drifið hana áfram í lífinu og Evelyn.

Heilt yfir er óhætt að mæla með bókinni, þetta er mikil saga og henni er vel púslað saman með tímaflakki. Bókin er skáldsaga en maður getur ekki annað en hugsað til þeirra fjölda Hollywood leikara gullaldarinnar sem fengu ekki að lifa lífi sínu eins og þeir vildu, sem þurftu að fela kynhneigð sína og lífstíl. Það er von að nú sé þeim kafla lokið.

Lestu þetta næst

In memoriam

In memoriam

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur (úr...