Íslensk sveitasaga með dass af töfraraunsæi

Kynslóð fyrsta skáldsaga Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur er ferskur andblær í jólabókaflóðið í ár. Meirihluti skáldsagna sem koma út hér á landi gerast á höfuðborgarsvæðinu eða fjalla um Reykvíkinga sem álpast út á land. Hér er ekki um slíka sögu að ræða heldur alvöru sveitasögu sem er sögð frá sjónarhorni persóna sem eru fæddar og uppaldar í sveitinni.

Harpa Rún Kristjánsdóttir er bókmenntafræðingur og bóndi og býr sjálf í sveit á Suðurlandi. Hún vakti verðskuldaða athygli árið 2019 þegar hún hreppti Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabók sína, Eddu. Ljóst er að ljóðskáld er að baki orðanna í Kynslóð en textinn er afar lipur.

Anna á krossgötum

Bókin segir frá hinni tvítugu Maríönnu, eða Önnu, sem vinnur í Skálanum í plássinu, og á kærastan Andra Má og bestu vinkonuna Anítu. Hún virðist sátt með einfalda tilveru sína og virðist lítið skorta. Hún er náin ömmu sinni og afa sem hún aðstoðar við bústörfin, en sömu sögu er ekki að segja um unglingsmóðurina Helgu eða helgarpabbann Örvar. Fólkið í kringum hana er þó farið að vænta þess að Anna fari út fyrir byggðarsvæðið og Ransí á Giljum sér breytingar í bollunum sínum. Daglega lífið tekur svo óvæntum breytingum þegar nýr strákur Natan fer að vinna með henni í Skálanum.

Náttúrulaugadjamm og heitar loftslagsumræður

Harpa Rún sagði í samtali við Egil Helgason í Kiljunni að hún hefði vísvitandi staðsett söguna í sveit nálægt sjávarplássi enda er ekki meiningin að um sé að ræða ákveðið svæði á landinu. Kynslóð gefur innsýn í lífið á landsbyggðinni óháð staðsetningu: sveitarböll eru fyrirferðarmikil, fréttir berast skjótt manna á milli og kröftugar samræður þróast gjarnan í kringum loftslagsmálin. Þær vinkonurnar Anna og Aníta eiga ekki greiðan aðgang að miðbænum eða Laugum Spa en halda þess í stað á hvítvínskvöld ríðandi að náttúrulaug sér til skemmtunar, sem mér finnst persónulega hljóma mun meira spennandi!

Persónurnar í sögunni eru fjölbreyttar og má meðal annars lofa það að bókin inniheldur þónokkrar hinsegin persónur. Bókin státar af góðum stíl í frásögn af tveimur kynslóðum, Önnu og móður hennar Helgu. Höfundur flakkar fram og til baka í tíma milli kafla til að segja söguna frá sjónarhorni þeirra beggja. Sagan er að mestu leyti sögð á hefðbundinn hátt en þó koma fyrir kaflar um spádóma og huldufólk sem minnir einna helst á töfraraunsæi suður-amerískra bókmennta. Þetta var kærkomin viðbót fannst mér sem kryddaði bókina eilítið.

Heilt yfir hreyfst ég af Kynslóð og naut þess sem fyrr segir að lesa íslenska sögu með öðru sögusviði og sjónarhorni en ég er vön. Ég átti smá í erfiðleikum með að skilja endalok sögunnar en það er eflaust eitthvað sem má leysa úr í samræðum við aðra sem hafa notið þess að lesa þessa fínu frumraun.

 

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...