Fyrsta alvöru íslenska nútímaskáldsagan sem ég las sem unglingur var Þar sem Djöflaeyjan rís eftir Einar Kárason og upp frá því hefur hann ávallt verið einn af mínum uppáhalds rithöfundum. Mér hefur alltaf þótt hann orðheppinn, persónusköpunin sannfærandi og samtölin einstaklega húmorísk. Nýja bókin hans Þung ský kemur af sama meiði og síðasta skáldsaga hans Stormfuglar.

Hinn þögli og sterki karlmaður

Þung ský er hörmungarsaga byggð á raunverulegum atburðum, þegar flugvél Flugfélags Íslands fórst í Héðinsfirði árið 1947 ásamt öllum farþegum og áhöfn.  Einar lætur söguna þó gerast mun síðar eða á sjötta áratugnum, hann fer frjálslega með staðhætti og fléttar saman fleiri flugslysaatburðum.  Bókin er hetjusaga, líkt og Stormfuglar, hetjan er unglingur að nafni Theodór sem vinnur þrekvirki við björgun þeirra sem lifðu af sem og líkum þeirra er létust. Theodór er skrýtinn, kúnstugur eins og bændurnir í sveitinni hans komast að orði. Og manni skilst fljótlega að í nútímanum hefði þessi drengur verið greindur á einhverfurófinu. Einar fer afar vel með lýsingu og meðferð á þessari sögupersónu sinni. Hann er næmur á þau einhverfueinkenni sem myndu flokkast sem dæmigerð, skortur á tilfinningalegri gagnkvæmni, skortur á tjáskiptum, einkennileg málnotkun, áráttuhegðun, Theódór sýnir þetta allt. Bændurnir í sveitinni eru svo þessir týpísku karlmenn sem finna má í bókum Einars. Þessi hörkulegi og karlmannlegi sem brotnar saman í hljóði og í felum, þessir lotnu en jafnframt skynsamlegu karlmenn og svo þessir sem telja það veikleika að sýna tilfinningar, segja sem minnst og horfa í hina áttina. Karlmenni sem telja það eðlilegt að fiska upp heilan sígarettupakka úr vasa látins manns á vettvangi og kveikja sér í rettum. Allt er þetta afar kunnuglegt. Svo ekki sé minnst á ljósmóðurina Ethel sem er hörkutól, höstug og hvöss í málrómi, lítil, grannvaxin, karlmannleg dettur manni í hug og hún blæs á þunglyndi sem aumingjaskap. „á þessari stundu áttaði ég mig á því að það hafði aldrei verið neitt að mér. Þetta var bara þunglyndi“. Einar er svolítið fastur í því að karlgera þær kvenpersónur sem einhver dugur er í. Það er eins og kvenkyns hörkutól geti ekki haft kvenlega eiginleika einnig.  Stundum finnst mér því jaðra við að hann tali niður til kvenna.

Magnaður sagnamaður

Þessar persónur eru allar kunnuglegar, ég hef hitt þær áður, í eyjabókunum, bókunum um Killian fjölskylduna og í Stormfuglum.  En burtséð frá því þá nær Einar að fanga andrúmsloftið, maður nánast finnur lyktina af brunninni vélinni, af blóðinu. Eða manni finnst það allavega, ég hef sem betur fer aldrei upplifað slysstað af neinu tagi.  Að því sögðu þá hélt þessi bók mér, hún er dramatískari en annað sem ég hef lesið eftir Einar, dramatískari en Stormfuglar sem þó var hádramatísk á köflum, stórslysabækur báðar tvær. En ég hefði viljað aðra lýsingu á ljósmóðurinni.

Þegar  öllu er á botninn hvolft er Einar magnaður sagnamaður og sagan er hnitmiðuð, falleg og skemmtilega sögð. Þung ský er bók sem situr eftir í lesandanum lengi eftir að hún hefur verið lesin en ég mæli ekki með henni í fríið, allavega ekki ef fríið inniheldur flugferð.

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...