Topp-5 rússneskra hinsegin bókmennta

Fyrirtæki og útgefendur hafa tekið eftir hinsegin markhópnum fyrir ekki svo löngu síðan, seint á áttunda áratug og snemma á níunda áratug tuttugustu aldar. Mannréttindahreyfingin og alnæmisfaraldurinn hafa skapað ákveðið samfélag innan samfélagsins, þarfir þess og vandamál urðu sýnilegri. Bókmenntir urðu einnig fyrir áhrifum af þessari þróun: hinsegin hillur fóru að birtast í venjulegum bókabúðum og útgefendur byrjuðu að ráða sérstaka stjórnendur til að selja hinsegin texta.

Tölfræðilega eru enn mun færri hinsegin bækur gefnar út en „gagnkynhneigðar bókmenntir“ eða einfaldlega bókmenntir, án viðbótarmerkja.

Í Rússlandi er ástand hinsegin bókmennta og flokkun þeirra í sérstakan flokk enn flóknara vegna stjórnmála og laga um bann við hinsegin áróðri. Í langan tíma hafa rússneskar hinsegin bókmenntir farið í hringi og leitað, ef ekki fullrar viðurkenningar, þá að minnsta kosti sýnileika. Hins vegar á þetta einnig við um hinsegin samfélagið sjálft í Rússlandi sem er lítið og sundrað.

Uppruna rússneskra hinsegin bókmennta má finna í upphafi tuttugustu aldar. Þá birtust í raun fyrstu innlendu hinsegin sögurnar og ljóðin í menningu sem auðvitað voru gefin út án slíkra merkja. Þó það væru líka fyrri tilraunir um miðja nítjándu öld, meðal annars má nefna Bernsku, æsku, ungdóm (1864) eftir Lev Tostoj, Eftirlíkingu af Arabísku (1835) (innblasin af Anthologie arabe: ou, choix de poésies arabes inédites, traduites pour la première fois en français, et accompagnées d’observations critiques et littéraires (1828)) eftir Alexandr Pushkin, Nætur á sveitasetrinu (1839) eftir Nikolaj Gogol.

En nýlega hefur ástandið farið að breytast – sérstaklega með virkum hætti í gegnum bókmenntir í flokki ungmennabókmennta (e.Young Adult). Aðalatriðið er að hlýða lögum: pakka öllum slíkum bókum inn í ógagnsætt plast og merkja við með 18+ spjaldi.

Hér að neðan má finna topp-5 mikilvægustu hinsegin bóka frá Rússlandi. (Listinn er eingöngu byggður á lestrarreynslu höfundar þessa pistilsins).

 

  1. Mikhail Kuzmin Vængir (1906)

Rithöfundur, skáld, tónskáld, þýðandi, bókarýnir, rússneski Wilde og „kóngur fagurfræðinnar“ svokallaðrar Silfuraldar rússneskra bókmennta Mikhail Kuzmin (1872-1936) gaf út fyrstu homoerótísku söguna Vængir árið 1906 í tímariti Vesy (Vogar). Það var sú skoðun meðal rússneskra módernista að „félagslegt óttaleysi“ Kuzmins ætti sér engin fordæmi í Evrópu, og það er vel hugsanlegt að einmitt þessi skoðun hafi verið hvatning til fordæmalausrar ákvörðunar ritstjóra Voga Valery Bryusov að tileinka allt nóvemberhefti skáldsögu Kuzmins. Hneykslismálið af völdum útgáfunnar færði Kuzmin frægð sem rússneska Wilde. Þó að rithöfundinum sjálfum hafi ekki líkað við þetta orðspor ættu menn að einu leyti að vera sammála áliti samtímamanna hans: eins og Oscar Wilde í Englandi, var Kuzmin í Rússlandi í raun brautryðjandi menningarhreyfingar í vörn og viðurkenningu samkynhneigðar.

Sagan er skrifuð á impressjónískan hátt sem var nýjung fyrir rússneskar bókmenntir á þeim tíma, þó að uppbygging hennar hermi augljóslega eftir fornum mynstrum – heimspekilegum þroskasögum átjándu aldar á borð við Candide eftir Voltaire. Sagan fjallar um Vanya Smurov, nemanda í Sankti Pétursborg frá efri Volgu-héraði sem virðist laðast að kennara sínum, Larion Shtrup, hálfenskum og mjög Wilde-líkum. Shtrup sem sannur fegurðarheimspekingur innrætir unga manninum listdýrkun fyrri alda, en ástarsagan mætir raunveruleikanum þegar Vanya uppgötvar gufubað – fundarstað samkynhneigðra í húsi Shtrups og finnur til öfundar þegar hinn ofan nefndi skiptir við aðra menn. Til að jafna sig snýr Vanya aftur til efri Volgu-svæðisins, þar sem hold þorpskvenna og predikanir þeirra um nauðsyn þess að njóta líkama þeirra í anda Myndinnar af Dorian Gray  ýta Smurov í átt að Shtrup aftur. Eftir boð grískukennara síns fer Vanya til Ítalíu. Af tilviljun hittir Vanya Shtrup í Flórens og byrjar samskipti við hann á ný. Larion býður Smurov samband og ber saman viðurkenningu á samkynhneigð sinni við vængi sem eftir „eitt átak enn“ muni vaxa á baki Vanya líka. Vanya þarf að ákveða hvort hann samþykki þetta boð eða ekki.

Í meginatriðum er skáldsagan lífsprógramm nútímahomma. Verkefnið um fagurfræðilega umbreytingu lífsins sem Vanya tileinkar sér smám saman, er mótað af Shtrup og vinum hans og hefur þrjá meginþætti: í fyrsta lagi byggist nýja lífið sem skapast á eflingu skynjunar og reynslu; í öðru lagi er það hellenskt líf viðvíkjandi klassískum dæmum um fegurð, og í þriðja lagi felur það í sér hið klassíska homoerós sem tengir mann við dreng, kennara við nemanda, visku við fegurð.

 

Sagan er aðgengileg í enskri þýðingu Hugh Aplin og var gefin út af Hesperus Press árið 2007.

 

  1. Lydia Zinovieva-Annibal Þrjátíu og þrjú viðundur (1906)

Í Vyacheslav Ivanovs Turninum, bókmenntastofu sem starfaði á árunum 1905-1909 í Sankti Pétursborg við Tavricheskaya-stræti, var eiginkona hans Lydia (1866-1907) dýrkuð og kölluð Diotíma eftir hetjunni í Samdrykkju Platons vegna ótrúlegrar fegurðar og visku. Þegar hún kom fram þögnuðu deilur, en þó tilbúnar að blossa upp á ný, og augnaráð þátttakenda beindist að henni, enginn vildi missa af því sem hún, „himneski búandinn“ sagði.

Fulltrúi þess besta á Silfuröld rússneskra bókmennta gagnrýndi  „sálfræði sem veldur aðeins skjálfandi taugaflaut“, Zinovieva-Annibal dreymdi um „áræðisraunsæi“ sem myndi hjálpa „við að gleyma öllu, lesa og endurlesa bókina sem myndi taka lesandann upp með bylgju af því besta eins og blúndufroðu, og viðeigandi eins og ígrundaður sannleikur lífsins, list“.

Fyrsta lesbíska saga í rússneskum bókmenntum Þrjátíu og þrjú viðundur (1906) olli slíku hneyksli að öll útgáfan var bókstaflega handtekin. Handtökunni var aflétt í mars 1907, sex mánuðum áður en höfundurinn lést. Sagan endurspeglar meðal annars ástarsamband höfundarins og eiginmanns hennar, Vyacheslav Ivanov, við listakonu og skáld Margaritu Sabashnikova.

Í Þrjátíu og þremur viðundrum eru þemu um ást, sköpunargáfu, fegurð, sektarkennd, kraft, fórnfýsi og despotisma samtvinnuð. Aðalhugmyndin er sú að afneitun hinnar despotísku meginreglu í ástinni, höfnun á tilkalli til einokunareignar á annarri manneskju, viljinn til að yfirgefa ástvininn styrki ekki ástarsambandið. Kvenhetja skáldsögunnar ákveður að láta unnustu sína fara í „heiminn“ og leyfir henni, til að staðfesta ákvörðun sína, að færa útlit sitt á striga þrjátíu og þriggja listamanna. Útkoman var hræðileg! Klofning fegurðar hinnar útvöldu hennar í þrjátíu og þrjár myndir, á engan hátt eins og hin upprunalega; sem býður aðeins upp á prósaíska, dónalega, lostafulla hversdagslega útfærslu á frumritinu, eyðileggur trú um möguleikann á að varðveita fegurðina og ást í raunveruleikanum. Orðin hennar verða forsjón: „Allt, jafnvel það æðsta, er ekki stöðugt“.

Vyacheslav Ivanov leit á þetta verk sem sögu um harmleik lífslistamanns sem er blekktur af hlut listar sinnar en hann kaus að taka ekki eftir undirtextanum sem tengdist honum beint. Verkið er tileinkað Ivanov eins og viðvörunarspá um hugsanlega niðurstöðu tilrauna hans á erótíska sviðinu. Og það var alls ekki hlutlæg rökhugsun um eðli sköpunar og ástríðu, þó að það hljómaði eins og mótmæli gegn kúguninni – kúgun mannlegra tilfinninga sem þróuð var af lífi siðmenntaðs samfélags.

Bókin er aðgengileg í enskri þýðingu S.D.Cioran í The Silver Age of Russian Culture gefin út af Ardis Publishers árið 1975.

 

  1. Marina Zvetaeva Vinkona (1914-1916)

Rússneska ljóðskáldið, prósahöfundurinn, leikskáldið og þýðandinn Marina Ivanovna Tsvetaeva (1892-1941) lifði erfiðu lífi, mörg ljóða hennar eru sjálfsævisöguleg. Ljóðaleikhús Tsvetaevu er beint framhald af textum hennar sem hafa eiginleika dramatískra verka: skerpu, átök, skírskotun til forms einleiks og samræðna, endurholdgun í mörgum búningum.

Árið 1914 kynntist Marina skáldinu og þýðandanum, hinni rússnesku Saffó – Sofiu Parnok. Tsvetaeva tileinkaði henni ljóðasafnið sitt Vinkona.  

 

 

Eruð þér hamingjusöm? – Þér munið ekki segja það! Varla!

Enn betra – látið það vera! –

 

Þannig hefst fyrsta ljóðið úr safninu Vinkona. Ljóðasafninu sem inniheldur 17 ljóð, sem flestir kjósa að þegja um, og ef þeir tala, tala þeir yfirborðslega, eða það sem verra er, gefa sjálfum sér rétt til að líta á lífstímabil Marinu Tsvetaeva frá 1914 til 1916 sem mistök æskunnar. Allt er auðvitað mögulegt. En aðeins ljóðin sem skáldkonan skrifaði á þessum tíma (og sköpunargáfan sem er spegilmynd raunveruleikans) fá mann til að hugsa um einlæga vináttu og ást sem kom upp á milli hennar og Sofiu Parnok. Annars hefði Tsvetaeva ekki skrifað eins og hún skrifaði.

Fyrsta ljóðið var skrifað 16. október, það er í upphafi sambandsins við Parnok, og er helgað lýsingu á henni. Hún virðist vera „ung hörmungarkona“, „breiðennapúki“, sorgmædd, örmagna en samt „kaldhæðin og brennandi“. Ljóðmælandinn stríðir Sofiu, lýsir með lifandi orðum og þérar hana.
Í fimmtánda og ljóði ljóðasafnsins blessar ljóðmælandinn einu sinni ástkæru til að fara „í allar fjórar vindáttir“. Mastrið á skipinu, reykurinn úr lestinni segir okkur að ljóðmælandinn blessar hana að eilífu. Tsvetaeva lauk við að skrifa  6. maí 1915 með ljóði sem var gjörólíkt þeim sextán á undan hvað hugmyndafræði og framkvæmd varðar. Tsvetaeva reynir að brjótast út úr hringiðu „kaldhæðnislegs sjarma“ samskipta við S. Parnok og biður alla um að yfirgefa hana:

 

Hættu að elska mig, hættið þið allir að elska!

Gættu mín ekki á morgnana! –

 

Og heldur áfram:

 

… Öll höfuð eru mér kærari

Eitt hár af höfðinu á mér.

Svona eigingirni lýkur hundrað prósent altrúískri ástarsögu. Augljóslega reyndi Tsvetaeva af öllu hjarta að gleyma skyndilegu þráhyggjunni sem spratt þegar hún hitti Parnok. Eftir að hafa loksins slitið sambandinu við hana í febrúar 1916 lofaði hún sjálfri sér að hittast aldrei aftur. Og svo mun það gerast.

Ljóðasafnið hefur verið þýtt mörgum sinnum á mismunandi tungumál. Þekktustu þýðingar á ljóðum Tsvetaeva á ensku tilheyra Mary Jane White sem birti þær í The American Poetry Review, Willow Springs og Poets Translate Poets.

 

  1. Sergei Khazov-Cassia Öðruvísi bernska (2014)

 

Sergei Khazov-Cassia er sérfréttaritari Radio Svoboda síðan 2015. Hann er fæddur árið 1980 í Leníngrad, útskrifaðist frá blaðamannadeild Lomonosov-háskóla í Moskvu, starfaði sem fréttaritari fyrir tímaritið The New Times. Verðlaunahafi European Press Prize árið 2013 og Samkeppni ungra alþjóðlegra blaðamanna árið 2014 á vegum rússneska alþjóðamálaráðsins.

Þrátt fyrir alla frekar fávitalega viðleitni löggjafarþinga í Rússlandi var ljóst að þetta bann við hinsegin áróðri frá 2013 var ekkert. Smám saman fóru að birtast lesendur sem komust að því að hinsegin bókmenntir snúast ekki um hefðbundna marsbúa heldur þá sem búa í nágrenninu. Um vini okkar, kunningja, um okkur sjálf. Hins vegar, árið 2013, hafði stóra rússneska hinsegin skáldsagan enn ekki verið gefin út. Þó að bókin sem hefði getað orðið að slíkri hafi þegar verið skrifuð. Árið 2014 var höfundurinn í austurhluta Úkraínu.

Árið 2014 undirbjó blaðamaðurinn Sergei Khazov-Cassia skýrslur úr skotlínunni í Donbass fyrir tímaritið The New Times og Radio Svoboda. Nokkrum árum áður hafði hann snúið aftur til Moskvu frá París, þar sem hann bjó með eiginmanni sínum og vann að fyrstu skáldsögu sinni, sögu sem fjallar um ungling sem varð ástfanginn af bekkjarfélaga. Hann sendi tölvupóst til rússneskra útgefenda, reyndi að gefa út bók. En þar þögðu þeir annaðhvort eða svöruðu að bókin væri góð, en passaði ekki við trú okkar og staðla. Almennt séð skildu útgefendur ekki hvers vegna við Rússar þurfum slíkar bækur. Allt þetta umræðuefni – LGBT, hinsegin fólk – snýst ekki um Rússland.

Bókin Öðruvísi bernska var engu að siður gefin út af indie forlaginu Kolonna publications. Að vísu var bókin aðeins til í þúsund eintökum og höfundurinn þurfti að úthluta 200.000 rúblum fyrir þessa dreifingu úr eigin sjóðum. Árið 2018 var skáldsagan endurprentuð en endurútgáfan fór ekki yfir 300 eintök því stórar bókakeðjur neituðu að prenta hana út. Svo var bókinni dreift á netinu, í Falanster versluninni, í Gogol Center bókabúðinni og í Indigo LGBT- versluninni. En það var nóg til að vekja athygli á skáldsögunni: hún varð metsölubók á Ozon-gáttinni og komst inn á langan lista yfir „National Bestseller“.

Bókin inniheldur tvo hluta. Þeir eru ekki tengdir hver öðrum af persónum en þeir líta á sama efni frá mismunandi sjónarhornum: sonarins og móðurinnar. Öðruvísi bernska er skáldsaga um dreng sem dreymir sem barn um að verða ekki lögreglumaður eða slökkviliðsmaður heldur drottning – klæddur fallegum kjólum, skartgripum svo að hugrakkir riddarar myndu berjast fyrir hjarta hans. Hann þarf að halda áhugamálum sínum leyndum því snemma fór hann að finna til að það væri skakkt, að eitthvað væri að honum. En á sama tíma gerir hann það ekki að sérstöku vandamáli. Maður veit aldrei hver hefur hvaða áhugamál, ha? Móðir hans giskar á eitthvað, spyr leiðandi spurninga, grunar eitthvað. Artyom (hetjan) elst upp við aðstæður misskilnings ástvina, einmanaleika og vanhæfni til að deila reynslu sinni með neinum. Við förum með honum þessa leið, frá átta ára aldri og endum með útskriftartímanum.  „Móðir“-þátturinn er játning móður sem komst að því hver unglingssonur hennar var. Hún neyðist til að fórna hagsmunum sínum, halla sér aftur í vinnuna, leita að einhverju trikki til að fæða sjálfa sig, aldraða móður sína, uppreisnargjarnan son sem reyndist vera „í öðru liði“. Vanhæfni til að skilja, löngun til að krefjast þess að breyta eðli barnsins, jafnvel sjálfum sér til skaða, leiðir til harmleiks. Sagan gerist á Sovéttímanum þegar gott orðspor í augum nágranna var meira virði en lífið.

Í bili er bókin ekki aðgengileg á öðrum tungumálum. Brot úr sögunni þýtt yfir á ensku af Arch Tait má finna á vefsíðu openDemocracy – https://www.opendemocracy.net/en/odr/different-childhood/

 

  1. Oksana Vasyakina Sár (2021)

Oksana Vasyakina (1989) er rússneski rithöfundur, skáld og feministi. Þátttakandi í ljóðahátíðum og slam í Novosibirsk, Perm, Vladimir, Moskvu. Hún birti ljóð í Vozdukh tímaritinu, YSHSHOODNA dagblaðinu, Snob, Colta.ru, TextOnly og Polutona netútgáfum. Fyrsta ljóðabókin Kvennaprósi kom út árið 2016. Árið 2017 skrifaði hún ljóðasafn Wind of Fury sem AST gaf út árið 2019 (Kvennaraddir-serían).

Söguþræði skáldsögunnar má auðveldlega lýsa í einni setningu. Sár er skáldsaga um hvernig rithöfundurinn (sögumaðurinn) jarðaði móður sína og bar ösku sína með flugvélum og rútum frá suðri til austurs Rússlands: frá borginni Volzhsky í steppunni, þrjátíu kílómetrar frá Volgograd, til heimalands hennar í Úst-Ilimsk í norðurhluta Irkutsk-svæðsins. En það þarf hvert orð í þessari hreinskilnu, nákvæmu og undarlega gleðiríku bók til að komast í gegnum þetta ferðalag. Sár er saga um hvernig sárin geta gróið. Til að ná þessu þarf maður að finna fyrir þeim, átta sig á þeim og tala um þau. Þetta er ekki bara mögnuð skáldsaga, einstaklega hreinskilin, einstaklega nákvæm og ákaflega ávanabindandi, heldur kannski einmitt bókin um hamingjuna sem allir sem búa í samtíma-Rússlandi þurfa í dag.

Þetta er texta-athugun, texta-spurning til sjálfs sín. Hann er ótrúlega lífeðlisfræðilegur og bókstaflega fullur af vísbendingum um líkama, líkamssjúkdóma, limlestingar, skyldleika líkama. Þar sem eitt af söguþræðinum er kynþroski kvenhetjunnar, lesbíuhneigð hennar, leiðin til að samþykkja eigin kynvitund, kemur líkaminn sannleikanum á framfæri stundum áður en maður hefur tíma til að átta sig á því, með bletti á nærbuxunum, skömm og löngunarspennu. Það er eitthvað eins og andlegt afrek í þessari fullkomnu hreinskilni. Hún minnist líkama móðurinnar með brjóstið afskorið eftir krabbamein og minnist heilagrar Agathíu, eða Agötu, þar sem brjóst hennar voru skorin af til að þvinga hana að afneita Kristi. Á striga endurreisnarmeistaranna var Agötu sýnt á bakka þar sem afskorin brjóst hennar lágu – „snyrtilega, eins og postulínsminjagripir“. Hið líkamlega leiðir til hins andlega, pyntingar leiða til heilagleika, leið þjáninganna leiðir til ljóss. Þetta er einmitt það sem gerist í Sár.

Sár er ekki bara vel skrifuð skáldsaga, þó að orðaleikurinn skipti hér miklu máli því nauðsynlegt er að koma hverju einasta orði til skila. Hún gefur okkur tilfinningu um órjúfanleika, endalausa tengingu við örlög einhvers annars, rússneska landafræði eða fjölskyldusögu. Allt þetta snýst að lokum um hvert og eitt okkar. Það gefur okkur heim án aðgreiningar –  Vasyakina gerir ekki greinarmun á milli hins hinsegin og eðlilega, þó að hún sjálf sé hinsegin, skrif hennar bjóða ekki upp á nein viðmið : til að deila reynslu sinni geturðu verið hvað sem þú vilt. Að lokum veitir Sár okkur bjartsýni – þegar allt kemur til alls er þetta saga um hvernig maður jafnar sig eftir stórt áfall.

Bókin er ekki aðgengileg á öðrum tungumálum í bili. Ensk þýðing er væntanleg, þýðandinn og forlagið verða tilkynnt seinna.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...