Nútímalegur og nýstárlegur tónn

Tanntaka er fyrsta ljóðabók Þórdísar Helgadóttur í fullri lengd. Áður hefur hún gefið út smásagnasafnið Keisaramörgæsir, og þrjú ljóðverk ásamt skáldsögunni Olíu með kollektívinu Svikaskáld. Þórdís hlaut einnig Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir magnaða ljóðið Fasaskipti.

Súrrealísk og óvænt

Tanntaka hefst einmitt á þessu sigurljóði sem inniheldur merkilegar og fallegar myndir þar sem móðir fylgist með börnum sínum leika sér að vetri til út um glugga heimilisins, „saltsleikt auga hússins.“ (bls. 5) Ljóðlínurnar hver á fætur annarri sýna skilin á milli tímans, lífs og dauða, öldrunar og ungdóms:  „Börnin en ekki ég treysta gljúpri himnunni yfir handanheiminum þar sem andardrátturinn rennur í öfuga átt.“ (bls. 5) Þar á ljóðmælandi við ísinn sem hefur lagt tjörnina þar sem börnin eru í leik.

Þórdís leikur sér með súrrealískar og óvæntar myndir sem eru stundum torræðar en vekja þá heldur einhverslags hughrif og ögra lesandanum. Hún er óhrædd að afmynda veruleikann og leika sér að honum, líkt og í ljóðinu „Jarteikningar“: „Lífið er að skilja ekkert / sífellt verr. Ég þarf annan munn / því minn er bæli, hreiður / úr þögn og bleikum bakteríum, // sem trufla hinn hreina tón.“ (bls. 36) Börnin og lífsgjöfin eru þráður í þessari bók og minni sem aldrei eru langt fjarri: „Forsendan fyrir manneskju er hnífur. / Milli hnakka og bógs, / húðar og tjalds, skógar og skála. / Til að skera á strenginn“. (bls. 37)

„…þá er lifandi líkami mykrakompa“

Upplifun kvenna, hið holdlega og blóðuga sem tengir þær saman, er til umfjöllunar í bókinni líkt og má sjá í ljóðinu „Tíðir“: „í lífi hverrar konu er að minnsta kosti þrjár rykugar götur. […]. Í gömlu timburhúsi skili ég eftir pissublautan staut undir pappírsvöndli í ruslafötunni. Það er vor og ég ætla ekki að sleppa burt blóðdropa framar.“ (bls. 10) Þessi ljóðlýsing er kunnug mörgum konum en það er einstakt hvernig skáldið kemur þessu í orð, einnig því slæma sem fylgir, „En það var sumar þegar ég vaknaði í húsi úr köldum flísum og lærin voru límd saman með rauðu.“ (bls. 11). Ljóðmælandi fagnar kvenleikanum og hann er fallegur og ljótur og allt þar á milli.

Í ljóðinu „Hryggjarstykki“ leiðir ljóðmælandi lesandann í gegnum líkamann sem tætist í sundur líkt og í flugslysi: „Og á fluginu þegar líkamarnir sprettust mjúklega í sundur flæddi inn í þá ljós / Það flæddi inn í þá ljós í fyrsta skipti“. (bls. 63) Hamfarirnar varpa ljósi á starfsemi og innviði líkamans: „Af því þegar þú hugsar út í það þá er lifandi líkami mykrakompa.“ (bls. 64) Á eftir fylgja lýsingar á striti líffæranna og að lokum þegar ljóðmælandi „rambaði á endanum á súluna“ (bls. 67), hryggjarsúluna sjálfa sem sjá má á kápu bókarinnar, „úthoggið skurðgoð með gogg og hvöss augu yfir og undir“ (bls. 76). Ljóðið er magnað þar sem það vegur salt á því hversdagslega, „Janúar er eins og vor, segja þau á næsta hlaupabretti / Í ræktinni, sko, / í hádeginu,“ (bls. 68) og ljóðræna, „Af öllu því efni sem alheimurinn geymi í ómæli sínu er jú flestallt bráðdrepandi“. (bls. 71)

 

Tónninn í Tanntöku er ferskur, nýstárlegur og uppfullur af hugvíkkandi myndum og líkingum. Bókin inniheldur sum ljóð sem betra er að skynja, frekar en skilja. Upplifa frekar en að kryfja til mergðar. Þó að það sé nú auðvitað líka hægt, eins og ég geri hér fyrir ofan, en gerið það frekar í öðrum eða þriðja lestri til að leyfa upplifuninni að flæða yfir ykkur, líkt og ljóðin sjálf gera, sem flæða og kvíslast í allar áttir.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...