Einlægur stöðugleiki á þessum fordæmalausu tímum

Við lesum ennþá

höfum lokað inni

orð sem gagnast fáum

orðið fellur framaf tungunni

fellur ofaní hyldýpið þar sem ránfiskar svamla um

og niðrí myrkrinu má sjálfsagt finna tilgang.

bls. 28, Orð, ekkert nema orð

Bubbi er sannarlega menningartákn Íslands. Hann hefur gert allt, hann hefur prófað allt, hann hefur sagt allt. Hann er afkastamikill tónlistarmaður, rithöfundur og ljóðskáld sem er alltaf efstur á baugi, alltaf á toppnum og hefur eitthvað til síns máls. Ólíkt mörgum nýjum höfundum reynir hann ekki að skrifa stórkostlega, prýða hvert orð og rigna yfir okkur háþróðum samlíkingum og myndhvörfum. Og ólíkt reyndum höfundum reynir hann ekki að hafa við fyrri verkum sínum, halda uppi ákveðinni ímynd eða vörumerki, því Bubbi neitar að vera skilgreindur. Hann áskilur sér rétt til að breytast og þróast en á sama tíma að vera hann sjálfur og deila með okkur orðum sínum, engu nema orðum.

Kviksjá geðshræringa, tilfinninga og forms

Þar sem kápan er þröskuldurinn að verki, þá skoðum við hana ítarlega: hún er hönnuð úr hlýju gulleituðu hráu gulli. Hvaða tilfinningar vekur hún? Hlýju, innri og ytri, ró og kannski von og kyrrláta gleði? Hvað þurfum við annað í miðjum (það líður eins og við séum meira en öld eða fleiri í) þessa fordæmalausa heimsfaraldurs?

Bókin skiptist í þrjá hluta. Sá fyrsti Ljóð er tileinkaður ást, náttúru og orðum. Lesandinn hittir ljóðmælanda einn morguninn þegar “jafnvel himinninn virðist taka þátt í gleðinni blár og heiður” (bls.5) og fylgist með honum í gegnum ár og árstíðir, bæði falleg og minna aðlaðandi. Auðvitað mætir ljóðmælandinn ástinni eins og í ævintýrinu þegar allt var einu sinni :

Auga gengur inní auga við áttum samtal

orð sem mætast og kveikja bál

svefnlausar nætur

fórum í bíó í kaffihús

ferðuðumst á vængjuðum hugsunum daganna

vorum eins og titrandi loftvog (bls.11)

Þessu fylgir morgun-, hádegis-, kvöld- og næturgleði, svo hægt og rólega fjarlægast karakterar, orðin skiptast á, bæði góð og slæm, og hrynjandi þögn tekur við stjórn. Einhvers staðar heyrist hvíslið.

Seinni hlutinn Nokkrar bláar nótur er tileinkaður þeim tónlistarmönnum sem Bubbi hefur kynnst á lífsleiðinni. Ég skal viðurkenna, kæri lesandi, að ég þekki ekki flest af þessu fólki (enda hefur ég kallað Ísland heima í aðeins fimm ár) og þurfti að gúggla það til að fá skýrari mynd, en það kom í ljós að þetta skipti engu máli. Það kemur ekki í veg fyrir að við finnum fyrir nostalgíu fyrir áttunda áratuginn, heyrum bassa og gítar grenja og öskra, hlustum á frábærar raddir ekki okkar kynslóðar eins Guðrún Á:

er hún söng gengu hjörtu fólks

út úr brjóstinu

og röðuðu sér í kringum hana

hún er sá það sem enginn annar sá

hún ein gat það sem enginn annar gat (bls.45)

rifjum upp sólarupprásir og sólsetur og finnum fyrir ljóðmælandans sársauka, gleði, spennu og reiði.

Síðasti hlutinn Prósar sem inniheldur 12 prósaljóð er frekar heimspekilegur og á sama tíma frekar dimmur, grimmur og angurvær partur um samtíð og framtíð:

Núna öfunda ég hrafninn og laxinn, maríuerlan á ekkert skjól lengur í augum mínum, núna er óttinn hið nýja frelsi sem umlykur allt og sannleikurinn reisir múra fyrir lygina. (bls.62)

Í þessum þætti veltir hann fyrir sér einnig eðli hlutanna, lífs og dauða (“ef einhver fræðilegur möguleiki  á því að endirinn verði góður, að þið gangið í ljósið sátt?” bls.54), fólksins og ofmetinnar lundarfars þess, köllunar skáldsins, faraldursins og lætur þá sem ráða  heyra í lokin nokkur sterklega krydduð orð.

 

Loforð um hamingju á sorgarstundum

Við erum öll útlendingar í fangi plágunnar (bls.61).

Ég hafði í rauninni engar væntingar við að taka þessa bók. En hún er furðu fjölbreytt og nær til margvíslegra radda af nokkrum kynslóðum, nær yfir margs konar efni og form. Tungumálið er ekki of flókið, heldur aðlaðandi, það er skarpt og yfirvegað og dofið stundum, streymir eins og illvígt flóð og rennur eins og lindarlæk á sama tíma. Bókin lesist mjúklega, hrynjandinn er ferskur og þó að það séu dimm augnablik í þræðinum, þá líður manni eins og þar sé á endanum loforð um hamingju á sorgarstundum. Sennilega eitthvað sem við þurfum öll á þessum fordæmalausu tímum.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...