Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja byrjar með hvelli. Lesandinn situr með Alexander í skólastofunni og kennarinn hellir sér sér yfir hann, öskrar á hann með frussi og dónaskap. Að lokum rífur kennarin af Alexander legókubbana sem hann notar sér til aðstoðar við stærðfræðiútreikningana. Samnemendur Alexanders sitja hjá skelfd, augljóslega ekki í sama liði og kennarinn. Mjög svo stuðandi byrjun sem hefur vakið upp umræður innan skólasamfélagsins um birtingarmyndir kennara í barnabókum. Ég held að flestir séu sammála um að þetta sé ekki jákvæð birtingarmynd, en meira um það síðar.

Rán Flygenring er myndhöfundur bókarinnar. Myndirnar eru glannalega teiknaðar pennateikningar, togaðar og teygðar og minna lesandann þannig á hugarheim einhvers sem er alltaf á fjórum stöðum í einu. Myndirnar ná þannig að fanga tilfinninguna sem lesandinn hefur fyrir Alexander, sem er aldrei kyrr.

Ofurkrafturinn ADHD

Bannað að eyðileggja fjallar um Alexander sem er með mjög mikið ADHD. Hann á pabba sem vinnur  mikið og er pólskur innflytjandi. Mamma hans er íslensk en hún er farin frá þeim feðgum. Í bókinni er Alexander fylgt eftir á mjög viðburðaríkum fjórum dögum, frá föstudegi til mánudags. Þetta er helgin sem hann kynnist Sóleyju Pakpao (hálf-taílensk) og lærir um sjálfan sig. En mest af öllu fær lesandinn að fylgjast með Alexander glíma við ADHD. En það er hvergi daufur kafli í bókinni. Hvar sem drepið er niður auga mun textinn grípa lesandann og draga hann inn í líf Alexanders – jafnvel þótt Alexander gleymi sér stundum við að horfa á kött.

Gunnar Helgason er kanóna í íslenskum barnabókum. Hér skrifar hann af ótrúlegri næmni um ADHD, innflytjendasamfélagið á Íslandi, Breiðholtið, börn og skólakerfið. Tónn textans er umvafinn hlýju og virðingu gagnvart viðfangsefnum bókarinnar. Það er magnað að fylgjast með hugsanagangi Alexanders, þegar hann hoppar úr einu í annað. Hugsanakeðja sem manneskja sem er ekki með ADHD á stundum erfitt með að fylgja eftir. En Alexander hefur sinn ofurkraft, stærðfræðina! Já, og auðvitað fótboltann.

Gagnrýni á skólakerfið?

Gunnar lagðist í ítarlega heimildavinnu fyrir gerð bókarinnar. Til dæmis tók hann viðtöl við einstaklinga, fullorðna og börn, með ADHD til að gera bókina og persónu Alexanders trúanlegri. Sjálf efaðist ég um að persóna hans væri eins og ADHD er í raun og leitaði mér því staðfestingar á að þetta væri raunin. Er það virkilega svona að  vera með ADHD (manneskjan er líka búin að lesa bókina)? Og svarið var jú! Sirka svona er þetta. En Alexander er vissulega með mikið ADHD. Sjálfri fannst mér dýrmætt að fá þessa innsýn í heim sem er mér algjörlega fjarlægur, að mestu leiti.

Það er ekkert launingarmál að skólar í dag eiga erfitt með að taka á ýmsum málum nemenda sinna. Skóli án aðgreiningar í þeirri mynd sem hann er í núna hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur og gagnrýndur fyrir að vera alls ekki í stakk búinn til að taka á vandamálum fjölda barna. Má þar nefna einangrunarherbergi sem notuð eru til að leyfa börnum að róa sig. Og er þá ekkert talað um börnin sem eftir sitja í stofunum, í áfalli yfir því sem hefur gengið á. Í gegnum söguna má lesa þetta ráðaleysi kennara og skólakerfisins gagnvart þessum börnum. Í bókinni eru tvö mjög umdeild atriði þar sem kennari beitir Alexander ofbeldi. Í lok bókarinnar segir Gunnar lesandanum að þetta séu því miður sannar sögur og það er svo sorglegt. Það þarf hæfan höfund til að koma alvarlegum málefnum til skila eins og Gunnar gerir. Sagan er öll sögð í gamansömum tón, en á sama tíma er hún hispurslaus, beinskeytt og gagnrýnin. Því það þarf að taka betur á móti börnum með ADHD, kvíða og önnur frávik innan skólakerfisins. Mér finnst Gunnari takast vel að koma þessari gagnrýni til skila og sem foreldri barna á grunnskólaaldri fagna ég henni. Við getum gert svo mikið betur fyrir börnin okkar.

Fögnum fjölbreytileikanum!

Þá eru einnig til umræðu innflytjendamál. Pabbi Alexanders talar litla íslensku, vinnur sem rafvirki við nýbyggingar og á aldrei frídag. Það skín í gegnum textann að pabbinn er álitinn minna virði af því hann talar ekki fullkomna íslensku og svo kemur meira að segja í ljós að hann vann fyrir of lágt kaup. Þetta er raunveruleiki Íslands í dag og mér finnst gleðilegt að sjá þessi málefni ávörpuð á eins hispurslausan hátt og Gunnar gerir hér. Sóley Pakpao lifir í kvennaheimi þriggja kynslóða taílenskra kvenna á Íslandi (sem er mjög skrautlegt samfélag). Heima hjá Sóley er töluð taílenska, heima hjá Alexander er töluð pólska. Í bókinn eru því töluð fjögur tungumál; íslenska, pólska, taílenska og enska. Bókin endurspeglar þannig á skemmtilegan hátt íslenskt fjölþjóðasamfélag. Það er frískandi og mjög þarft að fá pólsku krakkana í barnabækurnar, svo ekki sé talað um önnur þjóðarbrot.

Bannað að eyðileggja er bók sem fjallar um alvarleg málefni sem sagt er frá á hispurslausan hátt með stórum skammti af húmor og æðruleysi. Á sama tíma er borin virðing fyrir viðfangsefninu, í textanum er ógrynni af hlýju, næmni og kímni. Því þótt viðfangsefnin séu alvarleg þá er aldrei langt í grínið og glensið. Aðdáendur bókanna um Stellu ættu ekki að láta þessa framhjá sér fara.

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...