Þegar bók verður fyrir því óláni að hljóta tilnefningu

Eins og eflaust fleiri lesendur og bókafólk, þá er ég alltaf frekar spennt að heyra hvaða bækur hljóta tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, sem Félag íslenskra bókaútgefanda veitir ár hvert. Þegar ég renndi augunum yfir hinar tilnefndu bækur í flokki barna og unglingabóka þetta árið vakti ein bókin strax athygli mína, aðallega fyrir þá sök að hér var um að ræða frumraun höfundar í sjálfsútgáfu. Þetta var bókin Ferðalagið – Styrkleikabók. Margar frumraunir eru auðvitað frábærar og sjálfsútgáfa höfunda gengur stundum ágætlega upp, en það er óvenjulegt að bók sem sameinar þetta tvennt skjótist beint inn í tilnefningar til helstu bókmenntaverðlauna landsins. Ég ákvað því að kynna mér málið.

Ferðalagið – Styrkleikabók er eftir Jakob Ómarsson sem gefur hana út undir merkjum eigin útgáfu, Af öllu hjarta. Þegar ég fékk bókina í hendur var ég á báðum áttum. Var þetta bók eða var þetta spil? Ferðalagið kemur í pappakassa og því fylgir landakort til að spila á, umslög með verkefnum og spjöld sem nota þarf til að leysa verkefnin. Ef Ferðalagið væri spil, þá væri sjálf Styrkleikabókin bæklingurinn, og við fyrstu sýn lítur hún nákvæmlega út eins dálítið ítarlegar spilaleiðbeiningar. Eftir að hafa skoðað innihald kassans hef ég þó á endanum komist að þeirri niðurstöðu að verkið sé bók með fylgihlutum, enda er ekki unnið mikið meira með spilavinkilinn, og greinilegt að höfundurinn lítur sjálfur á verkið sem bók.

Lífsleikni, styrkleikaorð og samtal foreldra og barns

Bókin er ætluð börnum sem hafa enn ekki náð hinu kaldhæðna ástandi gelgjunnar. Hún hefst á því að kynna sögumann, geimköttinn Akílu sem þarf hjálp barnsins við að komast aftur til sinnar eigin reikistjörnu. Þangað kemst hún ekki nema lesandinn ljúki við verkefnin sem fylgja köflum bókarinnar. Í kassanum með bókinni eru leiðbeiningar fyrir foreldra, enda er bókin hugsað sem samvinnuverkefni foreldra og barna. Þar er mælt með því að einn kafli sé lesinn í einu, enda mikið magn upplýsinga í hverjum þeirra. Ef ég ætti að reyna að taka saman umfjöllunarefni kaflanna, þá fjalla þeir um getu barnsins til að stjórna sínu eigin lífi, löngun okkar til að falla í hópinn, hverju barnið getur ekki stjórnað í eigin lífi, nauðsyn opinna samskipta og muninn á staðreyndum og skoðunum, leiðir til að hjálpa öðrum, mikilvægi jákvæðs hugarfars og svo umræða um styrkleika. Myndir bókarinnar sýna ýmist Akílu á ferð um ævintrýralegt landslag eða einhver af þeim dæmum úr daglegu lífi sem rædd eru í bókinni.

Það lætur næst að kalla þetta lífsleiknibók þar sem sérstök áhersla er lögð á að fá foreldra til að ræða við barnið sitt um flókin efni. Í hverjum kafla á lesandinn að opna reit í spilaborðinu til að nálgast umræðuspurningar úr kaflanum og tíu styrkleikaorð. Spjöldin með styrkleikaorðunum eru án vafa það besta við verkið, enda má segja að þau séu aðalmálið og bókin sjálf ekki annað en undirbúningur fyrir foreldri og barn til að nota þau. Hvert orð fær sitt spjald, framan á spjaldinu eru svo gefin upp þrjú samheiti, stutt útskýring og spekingsleg tilvitnun þar sem orðið er notað. Aftan á spjaldinu er dæmi um það hvernig þetta orð gæti verið notað í daglegu tali til að lýsa barni. Spjöldin eru vel heppnuð og góð leið til að auka orðaforða barna um leið og þau skapa umræður milli foreldra og barns. Ef ég ætti að gagnrýna eitthvað við spjöldin þá er það kannski helst að þar er nokkuð langt seilst í að gera lýsingarorð að nafnorðum. Orðin eru sextíu talsins og næstum öll eru nafnorð, en samt sem áður ólíkar gerðir af nafnorðum. Orðin verndari og skipulagshæfni eru til að mynda ekki sambærileg, allra síst ef barnið á að nota þau í setningunni Ég er …. eins og hvatt er til í bókinni. Líklega vildi höfundur forðast það vesen sem fylgir kynjuðum lýsingarorðum (skipulagður/skipulögð) en mér finnst þetta ekki alveg nógu þjált.

Vissir byrjendaörðugleikar

Umræðuspurningarnar sem fylgja hverjum kafla eru líka góð hugmynd, en of margar þeirra eru settar upp á þann hátt að það er hægt að svara þeim með jái eða neii. Svipað vandamál er í sjálfum texta bókarinnar, þar sem Akíla spyr barnið reglulega spurninga, en svarar þeim svo sjálf í næstu línu. Hvað bókina sjálfa varðar hefði hver kafli mátt fá mun meira pláss á blaðsíðunum. Umbrotið er ansi þétt og minn innri ritstjóri saknaði þess að hafa aðeins samræmdari uppsetningu á köflunum.

Ég spurði mig líka hvort ekki hefði mátt raða köflunum á annan hátt, til dæmis á efni kafla 1 og 3 vel saman hlið við hlið, sá fyrri fjallar um það við getum stjórnað í eigin lífi og sá seinni um það sem við höfum ekki stjórn á. Kafli 2, um það hvernig við lögum okkur að hópnum, truflar samfelluna þarna á milli. Minn innri ritstjóri, sem er ansi fúl týpa, lét það líka fara í taugarnar á sér að upphaf og endir bókarinnar ríma ekki saman. Í upphafi er Akíla að safna orkutáknum til að komast aftur heim til sín. Orkutáknin eru svo sýnileg í hverjum kafla, en ekki er unnið neitt áfram með þau í myndum eða frásögn, og undir lok bókarinnar er hvergi minnst á þessa heimferð sem titill bókarinnar, Ferðalagið, hlýtur jú að vísa til í aðra röndina. Þrátt fyrir þessa annmarka er líklegt að bókinni takist ætlunarverk sitt, að búa til áhugaverðar og lærdómsríkar samræður milli foreldra og barna. Höfundurinn hefur augljósa ástríðu fyrir efninu sem smitast yfir til lesenda.

Fíllinn í herberginu

Það sem að ofan stendur er það sem mér þætti hæfileg umfjöllun um fyrstu bók höfundar. Dálítið hörð en vonandi sanngjörn. En þetta er ekki lengur bara fyrsta bók höfundar í sjálfsútgáfu, þetta er ein þeirra fimm bóka sem tilnefndar eru til hinna íslensku bókmenntaverðlauna í sínum flokki. Þess vegna verð ég því miður að segja allnokkur orð til viðbótar og það ansi leiðinleg orð. Er einhver sanngirni í því, spyr ég mig? Ekki getur höfundur að því gert að hann sé tilnefndur til verðlauna? En, tilnefning þessarar bókar segir eitthvað alvarlegt um viðhorf til íslenskra barnabókmennta og því bara verð ég því miður að halda áfram.

Eins og sjá má af fyrri hluta þessarar umfjöllunar ætti það ekki að fara framhjá neinum að Ferðalagið ber þess merki að vera byrjendaverk, bæði hvað varðar texta og útgáfu. Það þurfa að sjálfsögðu ekki öll byrjendaverk að vera framúrskarandi, en ef bók er ekki framúrskarandi, þá á ekki að tilnefna hana til verðlauna. Texti Ferðalagsins er hrár og ekki er mikið um sköpun eða listræna útfærslu, lesandinn er að mestu mataður á fræðslunni og persónusköpun Akílu er engin. Hún er bara einföld málpípa höfundarins.

Eru myndir aukaatriði í barnabókum?

Myndirnar í bókinni eru svo allt annar handleggur og kannski helsta ástæða þess að ég skrifa þennan seinni hluta. Það er algjör brandari að bók með þessum myndum hafi verið tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna, nema hvað ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Höfundur Ferðalagsins hefur útvistað teikningunum í bókinni, þær eru teiknaðar af tveimur erlendum teiknurum en hinn íslenski höfundur er skráður sem rétthafi þeirra. Þetta þýðir að teiknararnir fá engin höfundarlaun, bara staðgreiðslu og svo þakkir í lok bókar. Að nýr og reynslulaus höfundur í sjálfsútgáfu hafi nýtt sér þessa leið til að gera bókina sína að veruleika, ókei. Það er að sjálfsögðu ódýrara að gera þetta svona og teikningarnar eru ekkert allt of slæmar, þó þær bæti litlu öðru við bókina en hvíld frá þéttum texta.

En að dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna skuli tilnefna svona vinnubrögð hlýtur að teljast … ja hvað? Eitt gígantískt fokkjúmerki í andlit myndhöfunda? Það getur ekki hafa farið framhjá neinum sem hefur áhuga á íslenskum barnabókmenntum að íslenskir myndhöfundar standa í ströngu við að fá framlag sitt metið að verðleikum og til launa. Þrátt fyrir það er ótrúlega mikið af hæfileikaríkum myndhöfundum á Íslandi og það var gengið framhjá þeirra verkum þegar þessar myndir, og viðskiptamódelið á bak við þær, voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Fræðslugildi og úrelt viðhorf til barnabókmennta

Ég get ekki annað en spurt mig hvernig stendur á þessu vali. Í rökstuðningi dómnefndar stendur: „Bókin er skemmtileg lesning og hvetur til aukins tilfinningaþroska. Aukaefni fylgir bókinni sem útskýrir efni hennar og nýtist við lesturinn. Framsetning bókarinnar gerir hana að einstakri frumraun.“ 

Fyrir það fyrsta þykir mér þessi umsögn ansi stutt og snubbótt. „Skemmtileg lesning“ hlýtur að vera einhvers konar lágmarks krafa til bókargæða, eða hvað? Það vekur athygli mína að barna- og unglingabækurnar fengu töluvert styttri umsagnir en þær bækur sem tilnefndar voru í öðrum flokkum þetta árið. Hvað þá ef maður ber umsagnirnar saman við rökstuðning Fjöruverðlaunanna. Ef litið er á tilnefningar í barna- og ungmennaflokki í heild sinni, þá vekur það athygli mína að allar bækurnar mætti á einhvern hátt kalla fræðandi.

Það er það sem ég held að hljóti að skýra tilnefningu Ferðalagsins til þessara verðlauna, þessi áhersla á tilfinningaþroska. Þrjár af hinum bókunum sem voru tilnefndar geta talist hafa fræðslugildi um fortíðina og sú fimmta „kemur inn á mörg samfélagsleg málefni,“ samkvæmt rökstuðningi dómnefndar. Nú er ég ekki að leggja neinskonar mat á hinar bækurnar fjórar, en ef þetta er rétt ágiskun hjá mér, þá finnst mér það vafasamt gildismat dómnefndar. Er það mælikvarði á góða bók hvort hún hafi fræðslugildi? Eða er það bara mælikvarði á barnabækur? Fórum við allt í einu hundrað ár aftur í tímann í viðhorfi til barnabóka? Og hversu hættulegt er það í samfélagi dagsins í dag, þegar nýleg rannsókn (sem ég heyrði bara um í útvarpinu, og nei, ég get ekki vitnað til heimilda) leiddi í ljós að flestir unglingar tengja íslenskuna við skólakerfið og enskuna við skemmtiefni?

Við getum aldrei keppt við enska málheiminn í framleiðslu á sjónvarpsefni fyrir börn og unglinga, en getum við vinsamlegast haldið áfram að skrifa, myndlýsa og verðlauna barna- og unglingabækur sem eru fyrst og fremst frábærlega skemmtilegar?

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...