Mörg okkar hafa eflaust orðið vör við teiknimyndaþættina Eldhugar sem sýndir hafa verið á RÚV í vetur. Þeir voru gerðir eftir margverðlaunaðri bók franska myndasagnahöfundarins Pénélope Bagieu. Bók Pénélope hefur nú verið gefin út í íslenskri þýðingu Sverris Norlands en hann þýddi einnig þættina fyrir RÚV. Bókin heitir Eldhugar: konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu og er gefin út af AM forlagi.

Bókin inniheldur þrjátíu sögur um konur. Sögur sumra þeirra þekkjum við kannski nú þegar en aðrar höfum við kannski lítið eða ekkert heyrt af en sögur þeirra eiga samt sem áður erindi við okkur öll. Fjölbreytileiki kvennanna er mikill en þær koma frá ýmsum stöðum og eru uppi á mismunandi tímum mannkynssögunnar. Staða þeirra er líka mismunandi, þær eru allt frá því að vera stríðskonur og glæpadrottningar til geimfara eða leikkvenna. Allar eiga þær það þó sameiginlegt að hafa, eins og titillinn segir, gert það sem þær vildu og barist fyrir því sem skipti þær máli.

Sjónarhóll kvenna

Eins og áður hefur komið fram þá eru ekki allar konurnar sem eru viðfangsefni bókarinnar heimsþekktar. Í mínu tilviki þekkti ég ekki rúmlega helming kvennanna sem er ólíkt upplifun minni af öðrum bókum sem einblína á sögur kvenna og þótti mér það auka enn meir á lestrarupplifun mína. Saga hverrar konu í bókinni er knöpp, einungis nokkrar síður hver en þrátt fyrir það ná konurnar til manns á ótrúlegan hátt. Með litríkum og ítarlegum teikningum sínum og texta nær Pénélope að segja svo mikið á fáum síðum en það besta er að hún skefur ekkert af hlutunum þegar hún segir sögu kvennanna. Hún hvorki fegrar hlutina né talar undir rós. Það er nauðsynlegt að við, hin fullorðnu, og börnin okkar fáum að læra um hversu illa var komið fram við sumar kvennanna og hversu grimm örlög sumra þeirra voru. Allt því þær voru að berjast fyrir því sem þær töldu mikilvægt sem oft á tíðum var einfaldlega barátta fyrir sjálfsögðum mannréttindum.

Kveikur að umræðum

Það að Pénélope skuli skrifa sögurnar á þennan hispurslausa hátt má kannski rekja til þess að sögurnar voru upphaflega skrifaðar fyrir fullorðna en þær eiga engu að síður erindi til allra aldurshópa. Ég las bókina ásamt 7 og 9 ára dætrum mínum, við lásum hana saman en einnig í sitthvorulagi og eigum við allar okkar uppáhalds sögur í bókinni. Það sem bókin hinsvegar gaf mér tækifæri til sem foreldri er að ræða erfiða hluti og útskýra af hverju fólk kom svona illa fram við konurnar og einnig af hverju þær þurftu að berjast fyrir hlutum sem við tökum sem gefnum í dag. Það var sérstaklega áhugavert að sjá viðbrögð dætra minna við sögum kvenna sem eru enn lifandi, sögur sem gerðust fyrir ekki svo löngu síðan. Má þar nefna söguna um Sonitu Alizadeh, fædd 1996 í Afganistan og átti að neyða hana í hjónaband þegar hún var um 10 ára sem hefur verið í kringum 2006. Að útskýra fyrir þeim að þetta hafi gerst örfáum árum áður en þær fæddust og að svona viðgangist því miður enn var áhugavert og sorglegt í senn. Einnig má nefna sögu Cheryl Bridges, afrekskonu í íþróttum sem fæddist 1946 og þurfti að berjast fyrir því að mega keppa í hlaupi. Hversu absúrd er það fyrir börn fædd á þessari öld að konur hafi ekki mátt keppa í hlaupi fyrir “kortéri” síðan?

Útgáfu bóka þar sem sögur kvenna eru í aðalhlutverki hefur aukist talsvert undanfarin ár og því ber að fagna. Ég sem kona og móðir fjögurra stúlkna á aldrinum 7 til 20 ára get ekki annað en glaðst yfir því og hef ég safnað flestum þeirra sem komið hafa út á íslensku í bókaskáp fjölskyldunnar. Þetta er því ekki í fyrsta sinn sem á heimilið kemur bók með safni af sögum um konur en þó verð ég að segja að þessi er með þeim betri. Samspil teikninga og texta Pénélope, þýðingar Sverris og hvernig textinn er skrifaður bæði í prent- og skrautskrift gerir lestrarupplifunina einstaka. Lesandinn, hvort sem hann er barn eða fullorðinn, nær að lifa sig inn í sögurnar og tengjast persónunum þó sögurnar séu stuttar en einnig vekja þær upp spurningar og kveikja oft umræður sem þarft er að taka. AM forlag er þekkt í mínum kreðsum fyrir að gefa ávallt út fallegar og mjög vandaðar bækur og er engin breyting þar á við útgáfu þessarar bókar.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.