Mikilvægar og áhrifamiklar birtingarmyndir

Barnabækurnar Morgunverkin og Háttatími komu út rétt fyrir jól í útgáfu Samtakanna 78. Bækurnar eru eftir Lawrence Schimel og myndskreyttar af Elina Braslina í þýðingu Þorbjargar Þorvaldsdóttur og Bjarndísar Helgu Tómasdóttur

Þessar litríku bækur eru ætlaðar allra yngstu börnunum og eru harðspjalda. Það sem vekur athygli mína í fyrstu eru virkilega fallegar myndskreytingar Elinu en þær eru skýrar og grípandi, litaðar sterkum litum.

Bækurnar sýna báðar fjölbreyttar fjölskyldur. Það er að segja fjölskyldur með samkynja foreldrum. En það er birtingarmynd af fjölskyldu sem hefur ekki komið fram nógu víða í barnabókmenntum og þá sérstaklega ekki fyrir allra yngstu kynslóðina. Þessar bækur hafa verið þýddar víða um heim. 

Bókin Morgunverkin fjallar um ungan dreng og köttinn hans og tíma þeirra við dagrenningu. Drengurinn á tvær mömmur, og jú systur líka, sem sofa rótt á meðan hann læðist fram og hittir þar kisa sem fer með honum inn í eldhús. Þar gæða þau sér á ýmsum morgun-kræsingum. Það góða við textann er að hann er fallega smíðaður og því ekki þreytandi fyrir foreldra að lesa aftur og aftur. Stílbragðið er leikandi rím sem gefur mikla möguleika til að leika sér með rytma í lestri.

Með-gagnrýnandi minn og lestrarfélagi, hin eins árs gamla Freyja, hefur þó mestan áhuga á dýrum akkúrat þessa stundina svo að áhugaverðast að hennar mati er að tala um köttinn, og jú smjörið sem kötturinn borðar eintómt. 

Bókin Háttatími er mjög keimlík Morgunverkum. Enda eru þær systra-bækur. Þar í aðalhlutverki er lítil stelpa, sem á hund og tvo pabba. Við fylgjum henni eftir þegar hún er að fara að hátta og búa sig undir svefn. En hundurinn óþekki vill heldur leika áfram. Pabbarnir reyna að hafa stjórn á hundinum og verða uppgefnir við eltingaleikinn.

Það er gott að staldra reglulega við og hugsa hvaða birtingarmyndir það eru sem við sjáum í dægurefni barnanna okkar, og einnig í okkar eigin dægurefni. Þær eru sem betur fer alltaf að verða fjölbreyttari og fleiri –  en barnabækur á íslandi hafa verið nokkuð einsleitar. Og þá sérstaklega má nefna einn ríkjandi húðlit og að sjaldan er hægt að finna persónu með einhvers konar fötlun. Birtingarmyndir í bókmenntum, kvikmyndum og öðru dægurefni eru gríðarlega mikilvægar. Þær normalisera ákveðinn veruleika. Og því er nauðsynlegt að hafa efni í boði sem að býður börnum upp á að kynnast veruleika okkar samfélags sem fyrst. Hversu fjölbreytt lífið er, og hversu ólík við getum verið í útliti og að uppruna. 

Morgunverkin og Háttatími sýna börn í hinsegin fjölskyldum. Fjölskyldur sem eru eðlilegar og eiga eðlilegt líf. En þær hafa þegar vakið einhverja andúð, meðal annars með kæru á bókabúð í Ungverjalandi. Einnig hafa útgefendur í einhverjum löndum, eins og í Rússlandi, þurft að merkja þær sem efni fyrir fullorðna til að forðast kæru. Bækurnar eru þvi með öðrum gríðarlega mikilvægur áfangi í réttindabaráttu hinsegin fólks og því mikilvægar fyrir okkur öll sem samfélag. Þær eru andófs-bókmenntir en einnig eru þær, og upphaflega ætlaðar, sem skemmtilegur fögnuður á litskrúðugu lífi. 

Það er skrítið að segja það, þetta eru jú bara litlar harðspjalda bækur fyrir lítil börn. Krúttlegar sögur um börn og dýr. Og okkur flestum þykir þær ekkert athugaverðar, bara ósköp eðlilegar. Eða hvað? Börnum er ennþá strítt í skóla hér á landi fyrir að eiga samkynja foreldra, það er ennþá hatur til staðar. Oft lúmskt en þrífst víða. En það eru einmitt svona birtingarmyndir, svona bækur sem munu gera það að verkum að þessar fjölskyldur verða ekki lengur álitnar öðruvísi fjölskyldur. Þær verða bara hluti af menginu fjölskyldur, án nokkurra athugasemda. Án þess að nokkur þurfi einu sinni að vekja á því athygli. Með tíð og tíma. Það er oft hið ósköp hversdagslega, eins og það að lesa ákveðna sögu fyrir barnið sitt, sem myndar heimsmynd þeirra og okkar allra. 

Bækurnar eru í raun að brjóta ákveðið þak og eru ótrúlega áhrifamiklar í sínum einfaldleika.

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....