Íslenskar skáldsögur vinsælli í faraldrinum

Öllum takmörkunum vegna COVID-19 faraldursins var aflétt í liðnum mánuði og nú sér vonandi fyrir endann á heimsfaraldrinum sem hefur sett svip á líf okkar allra síðustu tvö árin. Í tilefni þess lögðum við á dögunum könnun fyrir fylgjendur okkar til að kanna hvernig lestrarhegðun þeirra hefði breyst á tímabilinu. Vert er að nefna að margt annað hefur átt sér stað á síðustu tveimur árum sem gæti hafa mótað lestrarhegðun hvers og eins, en gaman er þó að rýna í breytingu á tímabilinu.

Íslenskar skáldsögur og hljóðbækur eru í sókn, og COVID hefur í sumum tilfellum haft óvænt jákvæð áhrif á lestur eins og einn lesandi sagði okkur frá: Níu ára gamall ömmustrákur minn var hjá mér í nokkrar vikur í upphafi faraldurs. Þegar hann fór vorum við hálfnuð með bók og hittumst á Facetime á kvöldin til að klára bókina. Núna tveimur árum síðar lesum við ennþá saman á kvöldin, búin með fjölda bóka. Allt covid að þakka!

Hér fyrir neðan má skoða helstu niðurstöður könnunarinnar.

Flestir lesa jafn mikið

Því ber að fagna að lestur hefur ekki dregist saman í faraldrinum hjá þeim sem tóku þátt í könnuninni. Flestir sögðust lesa jafn mikið og áður eða 48,5%, en næstum jafn margir, eða 43,6% sögðust lesa meira en áður. Mun færri sögðust lesa minna en áður (6,9%) og einungis einn sagðist nánast ekkert hafa lesið í faraldrinum samanborið við áður. Einn lesandi bætti við að hann hafði lesið minna fyrra ár faraldursins, en meira seinna árið. Annar sagðist lesa færri bækur oftar en einu sinni, fleiri nýjar á móti.

Langflestir sögðust lesa jafn langar bækur nú og fyrir faraldurinn (81,2%), en 11,9% sögðust lesa lengri bækur og færri (6,9%) sögðust lesa styttri bækur.

 

 

 

 

Erlendar skáldsögur vinsælastar fyrir faraldur

Það vakti athygli okkar að breyting varð á hvaða bókaflokkar voru vinsælastir meðal þeirra sem tóku þátt í könnuninni. Erlendar skáldsögur voru oftast valdar sem sá bókaflokkur sem var mest lesinn fyrir faraldurinn (hægt var að merkja við marga bókaflokka í senn), 66,3% völdu þær, en íslenskar skáldsögur (64,4%) og glæpasögur (58,4%) voru einnig vinsælar. Ungmennabækur fylgdu þar á eftir og svo ástarsögur.

 

 

Íslenskar skáldsögur og ástarsögur í sókn

Íslenskar skáldsögur voru vinsælastar í faraldrinum en 74% sögðust hafa lesið þær mest í faraldrinum (tæplega 10% aukning). Þetta eru gleðileg tíðindi en mikil gróska var í íslenskri útgáfu á síðustu tveimur árum og einn lesandi tók fram að hún væri gríðarlega þakklát fyrir alla okkar frábæru íslensku rithöfunda. Vinsældir erlendra skáldsagna jukust líka og lásu 73% þátttakenda þær í faraldrinum en færri eða 55% lásu glæpasögur.

 

Vinsældir ástarsagna jukust einnig, fyrir faraldurinn lásu 32,7% þær mest en í faraldrinum lásu 38% þær. Skyldi það vera Bridgerton áhrif?

Aftur á móti dró úr vinsældum ungmennabóka úr 33,7% í 26% á tímabilinu.

Fjórðungur byrjaði að hlusta á hljóðbækur

Það hefur ekki farið framhjá mörgum að hljóðbækur hafa verið í stórsókn síðustu tvö árin, enda margir notið þess að hlusta á þær í gönguferðum í sóttkví til að mynda! Flestir sem svöruðu hlustuðu meira í faraldrinum en fyrir faraldurinn (26,6%). Vegna mistaka var þessi valmöguleiki ekki til staðar þegar fyrstu svör bárust en svo var honum bætt við og því gætu fleiri verið að hlusta meira en áður. Um fjórðungur svarenda (25,5%) byrjuðu að hlusta í faraldrinum, og 25,5% hlustuðu jafn mikið og áður. Nítján prósent svarenda hlusta ekki á hljóðbækur og einungis þrír sögðust hlusta minna en áður. Einn lesandi nefndi einmitt að hann væri að neyta hljóðbóka meir en fyrir faraldur sem og afþreyingabókmennta.

Við þökkum góðar viðtökur á þessari könnun en yfir 100 manns tóku þátt!

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.