Hversdagssaga af vetrarfríi

Gísl eftir Clare Mackintosh

Hvað gerir Viggó þegar það er ekkert að gera í vetrarfríinu og honum LEIÐIST alveg ógeðslega mikið? Svo bætir ekki úr að mamma er alls ekki í vetrarfríi og þarf frið til að vinna. Hversu ömurlegt!? Til allrar hamingju kemur hin bráðskemmtilega Dalía í heimsókn. Viggó og Dalía ákveða að baka kókoskúlur en í staðinn verður til MAMMA KAKA og sú er sko til í allt!

Sirka svona er sköpunarsaga Mömmu köku eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Lóa Hlín hefur meðal annars skrifað barnabókina Grísafjörður sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Ég hef sjálf lengi dáðst að verkum Lóu Hlínar og barnabækurnar hennar hitta oftar en ekki í mark hjá mér. En ég er ekki markhópurinn.

Úr munni markhópsins

Markhópurinn er líklega börn í kringum 4-8 ára aldurinn. Viggó og Dalía eru grunnskólakrakkar og nokkuð sjálfstæð, sem sagt kúl í augum leikskólakrakka. Það vill svo vel til að ég hef aðgengi að barni innan markhópsins. Sá er fimm ára hasarkall sem vill eins og er ekki sjá neitt sem er of barnalegt (við erum að horfa á þig hundapeysa). Við fyrstu sýn þótti kauða Mamma kaka líta út fyrir að vera of barnaleg. Ástæðan var litapalletta bókarinnar, ljósblár í bland við fallega grísableikan og dekkri bleikan og fjólubláan. Það þurfti því nokkrar fortölur áður en bókin var samþykkt sem bók kvöldsins. 

Bókin féll þó fljótt í kramið þegar hún hafði verið lesin einu sinni í gegn og hefur nú verið lesin all oft. Sagan er sögð jafnt með myndum sem texta, þannig er hún á stundum eins og myndasaga með talblöðrum og svipbrigði sögupersónanna segja stóran hluta sögunnar. Þetta gerir upplestur á bókinni örlítið flókinn og minnti mig á lestur á bók Gunnars Helgasonar og Ránar Flygenring, Drottningin sem kunni allt nema…. Bækur sem þessar krefjast þess eiginlega af foreldrum eða upplesurum að persónur bókanna hafi sína eigin rödd, til að auðvelda hlustandanum að fylgjast með myndunum. Mér er minnisstæð opna þar sem mamma og Viggó eiga snörp og hröð samskipti sem eru eiginlega eingöngu byggð á myndum. 

Leikandi hversdagssaga

Lóa Hlín hefur einstakt lag á að skapa töfrandi og skemmtilegar hversdagssögur. Sagan af Viggó í vetrarfríinu er sótt beint í hversdaginn. Raunveruleikinn er sá að skellt hefur verið á vetrarfríum börnum til góða en gleymst hefur að hugsa til atvinnu foreldranna. Börn sitja límd við tölvuskjái á meðan foreldrar þeirra tölvast heima eða þeim LEIÐIST bara ógurlega eins og Viggó, sem fær ekki að spila tölvuleiki. Á einni opnu, þar sem Viggó tjáir móður sinni hve hrikalega honum leiðist, er hann gríðarstór. Leiðinn er svo mikill að hann kemst ekki fyrir í litlum kroppi. Gremjan sem fyllir mömmuna yfir barninu sem getur ekki haft ofan af fyrir sjálfu sér, streitan sem fylgir og svo uppgjöfin er eitthvað sem auðvelt er fyrir alla foreldra að sjá sjálfa sig í og Lóa Hlín nær að koma svo frábærlega til skila í bráðskemmtilegum teikningum. Að sama skapi er auðvelt fyrir krakka að spegla sig í hinum uppátækjasama Viggó. 

Í lok bókarinnar er svo uppskrift af kókoskúlum Dalíu, sem ég held að hafi verið ein helsta ástæða þess að bókin varð spennandi í augum fimm ára álitsgjafa Lestrarklefans. Því að sjálfsögðu lofaði ég upp í ermina á mér og gerði kúlurnar með barninu á degi sem var þegar pakkaður af verkefnum, eftir uppskriftinni hennar Dalíu. Þær voru bestu kókoskúlur í heimi.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...