Grísafjörður – Kakómalt, ristað brauð, hlýja og ást

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir hefur komið mér í gegnum kófið hingað til með ótrúlega raunsæum teikningum sínum á síðunni Lóaboratoríum. Ég var því nokkuð spennt þegar ég sá að hún var með bók í jólabókaflóðinu. Stíll Lóu í skopmyndum er raunsær, en alltaf hittir hún beint í mark. Ég bjóst ekki við neinu minna frá Lóu í barnabókaskrifum. Væntingarnar voru því mjög miklar við upphaf lesturs.

Grátandi smárisi

Grísafjörður er sagan af tvíburunum Ingu og Baldri. Það er fyrsti dagur sumarfrísins og þau hlakkar mest af öllu til að hlamma sér niður í sófann, horfa á teiknimyndir og drekka kakómalt. En þegar þau koma heim hrynja plön þeirra því í eldhúsinu hjá þeim er grátandi smárisinn Albert. Albert er stór en viðkvæmur maður, með hvítt skegg og hár, í stórum frakka. Hann býr á áttundu hæðinni í blokkinni þeirra, en þau hafa aldrei séð hann áður. Mamma Ingu og Baldurs kann ekki við að senda Albert burt grátandi svo það endar á því að Albert borðar með litlu fjölskyldunni kvöldmat. Yfir kvöldmatnum komast þau að því að Albert grætur svo sárt af því að systir hans er horfin. Systirin er sæfari mikill sem hefur siglt um höfin sjö í sautján ár (sennilega lengur samt) og sendir Alberti reglulega póstkort. En Albert hefur ekkert bréf fengið í nokkurn tíma og í síðasta korti var Grísafjörður næsti áfangastaður. Grísafjörður rímar við Ísafjörður, en Grísafjörður er ekki á Íslandi heldur hluti af Bahama-eyjum.

Með Ingu, Baldri og Alberti tekst vinskapur. Systkinin vilja gjarnan aðstoða Albert í leit sinni að Ölmu systur hans. Litla fjölskyldan endar á því að senda Albert til Grísafjarðar, en verandi alls óvanur ferðalangur (hann hefur aldrei farið frá Íslandi áður) endar hann á því að villast töluvert á leiðinni. Hann sendir tvíburunum reglulega póstkort með nýjustu ferðasögum og minjagripum. Á meðan Albert flakkar um fylgist lesandinn með Ingu, Baldri og mömmu þeirra takast á við hversdaginn heima við.

Hversdagslegt ævintýri

Grísafjörður einstaklega hlý, einlæg og raunsæ saga um venjulegt fjölskyldulíf. Inga og Baldur eru heillandi persónur sem auðvelt er að láta sér þykja vænt um. Inga er hvatvís og örugglega ofvirk (og því alltaf myndlýst með plástur á enninu) og Baldur er prúðari en of áhyggjufullur. Þau eru eins ólík og hægt er að vera, en fyrir vikið vindur sögunni áfram á vitrænan hátt. Inga togar allt áfram með orku á við tólf hesta og Baldur beinir hvatvísinni í rétta átt.

Hversdagsleikinn er í aðalhlutverki í öllu sínu veldi í bókinni. Mamman er buguð af þreytu, þau lifa lífið meðaljónsins, hafa ekki efni á lúxus eða utanlandsferðum. En í bókinni og hversdagsleikanum leynist ævintýri. Inga og Baldur eru hugmyndarík og sjálfstæð og mamman er hæfilega afslöppuð og leyfir þeim að taka sér allt fyrir hendur. Þótt þau hafi ekki mikið milli handanna reyna þau að gera gott úr hlutunum og njóta lífsins. Skemmtilegustu kaflarnir eru að mínu mati þegar þau fá póstkort frá Alberti, því með litlu minjagripunum og viðtökum fjölskyldunnar á þeim sjáum við svo mikið um líf þeirra. Það er endalaust hægt að lesa á milli línanna.

Lóa Hlín myndlýsir bókina sjálf og myndirnar bæta heilmiklu við heildarupplifun á sögunni. Stundum bæta þær við húmorinn, stundum við innileikann. Það sveimar yfir bókinni hlýja og lyktin af kakómalti og ristuðu brauði með smjöri og osti. Þar fyrir utan er bókin bráðfyndin og grípandi. Þótt hún sé ekki ein alls herjar spennuför, þá er hún svo forvitnileg að hún heldur lesandanum í heljargreipum – maður vill fá að vita meira um ferðir Alberts og líf litlu fjölskyldunnar.

Grísafjörður er bráðfalleg bók í alla staði, fyndin, innilega og einlæg. Svo er ekki leiðinlegt að með henni fylgja dúkkulísur til að klippa út, límmiðar og póstkort frá Grísafirði.

 

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...